09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það hefur verið rætt talsvert um þessar tryggingar, áður en þetta mál kom hér til umr., og var rætt um það í sambandi við tryggingarnar Reykjavík, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka hér neitt af því, sem ég hef áður sagt um þetta mál, þó að það hafi verið í sambandi við annað mál, sem hér var borið fram.

Eins og hv. frsm. meiri hl. hefur skýrt frá, þá varð nokkur ágreiningur í nefndinni um það, hvort málið mundi tefjast við að senda það til Brunabótafélagsins. Það er vonandi, að það verði ekki að sök, og skal ég ekki ræða frekar um það.

Eins og nál. ber með sér, fer minni hl. fram á, að gerðar verði við frv. lítils háttar breyt. Það er við 2. gr., að fellt sé niður úr gr. „þar með talin hús í smíðum“ og því bætt aftan við gr., eins og gert er ráð fyrir í b-lið þessarar brtt. Það þarf ekki að skýra þessa brtt. Það þótti nauðsynlegt að taka þetta sérstaklega fram, vegna þess að á húsum í smíðum er ekkert matsverð.

Hin brtt. gengur í þá átt, breytingin við 3. gr., að leggja ríkari skyldur á sveitarstjórnir að gæta þess, að hús séu tryggð, og leggja ábyrgðina á bak sveitarstjórnanna fyrir því, að svo verði.

Þetta eru breytingarnar, og það kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að hann álítur ekki óeðlilegt að gera þessar breytingar. Um það virðist ekki vera ágreiningur.

Um það, sem hv. meiri hl. n. ber hér fram á þskj. 771, nál. og brtt., vil ég segja þetta:

Það er gert ráð fyrir því, að í stað þess að í 5. gr. frv., eins og það liggur núna fyrir, er gert ráð fyrir, að lögin taki gildi 15. okt. 1955, þá er þessu ákvæði breytt þannig, að samkvæmt brtt. meiri hl. eiga lögin að taka gildi þegar í stað, en heimildinni til þess fyrir sveitarstjórnir utan Reykjavíkur að breyta til um tryggingar er frestað í 1. gr. og miðuð við 15. okt., þannig að engum tryggingum er hægt að breyta fyrr en 15. okt. 1955. Þetta er í sjálfu sér ekki verulegur munur og kemur að nokkru leyti í sama stað niður. En það skal játað, að ég a. m. k. veitti því ekki athygli í frv., að gildistaka þess væri miðuð við 1955, og mundi hafa komið fram með brtt. við það, ef ég hefði tekið eftir því fyrr en ég hafði sent þær brtt., sem hér liggja fyrir, enda er það ljóst, að það var auðvelt að koma fram með breytingar við það við 3. umr., og það hafði ég hugsað mér.

Nú kemur það fram hér í 3. brtt. hv. meiri hl., að þar er gert ráð fyrir því, að sameinað Alþingi kjósi nefnd með hlutfallskosningum til þess að endurskoða lög Brunabótafélags Íslands. Það er í sjálfu sér ágætt, að það sé gert, og hefði kannske verið ákjósanlegt, að það kæmu till. um það frá stjórn Brunabótafélags Íslands, hvernig það álíti heppilegast að haga verki sínu framvegis, en ekki skiptir það nú meginmáli, ef þessi nefnd verður skipuð og framtíðarskipulag Brunabótafélags Íslands rannsakað af þessum 5 mönnum. En það kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. setning, sem gefur ástæðu til þess eða styrkir þann grun, sem legið hefur á þessu frv., og sá grunur er þannig, að með því að fresta gildistöku laganna til 15. okt. 1955, eða eins og nú verður, ef brtt. hv. meiri hl, verða samþ., að þó að lögin taki gildi þegar í stað, þá er samt heimild sveitarstjórnanna til þess að breyta um tryggingar frestað þangað til 15. okt. 1955. Það má ekki skipta um 15. okt. í haust, þó að það væri nægilegur tími til þess að undirbúa þær breytingar núna yfir mánuðina maí, júní, júlí, ágúst, september. Það er svona allt að því hálft ár þangað til yrði breytt til og nægur tími til þess að undirbúa þær breytingar, og þess vegna mun ég, ef þessi brtt. yrði samþ., greiða atkv. á móti því, að heimildin verði flutt til 15. okt. 1955, en hins vegar með því, að lögin taki gildi þegar í stað. Og ef þessi fyrri brtt. hv. meiri hl. verður samþ., þá álít ég, að það sé ástæða til þess að láta sig gruna það, að þessi nefnd eigi síðan að breyta til að nýju næsta vetur, því að þannig orðaði hv. frsm. það, að það ætti að athuga í þessari nefnd, hvort Brunabótafélagið á að hafa þann einkarétt, sem það hefur, hvort það á að hafa hann áfram eða ekki. Það á að vera hlutverk nefndarinnar. M. ö. o.: Það, sem er samþ. á þinginu nú, á nefndin að athuga, hvort ekki á að taka allt saman aftur á næsta þingi og afhenda Brunabótafélagi Íslands einkaréttinn aftur, þó að lögin séu samþ. svona núna, og þess vegna eigi þau aldrei að koma til framkvæmda og sveitarstjórnirnar aldrei að fá þann rétt, sem þeim er heitið að fá samkvæmt lögunum.

Ég vil nú spyrja hv. frsm., hvort það sé raunverulega, hvort þessi setning hafi ekki fremur fallið þannig, að hann hafi ekki athugað gaumgæfilega, hvað í henni fólst, heldur en að hann hafi meint það, sem hann sagði, að nefndin sé skipuð til þess að rannsaka það, hvort Brunabótafélagið á ekki að halda einkaréttinum áfram, því að til hvers er þá verið að samþ. lög núna um að gefa þetta frjálst, ef það á að fresta því til 15. okt. 1955 og í millitíðinni athuga, hvort það eigi ekki að taka það allt saman aftur. En það er það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði. Þess vegna hlýtur að aukast tortryggni þeirra, sem álíta, að frv. hafi raunverulega verið borið fram í þessu skyni, sem skein í gegnum ræðu hv. frsm. meiri hl. Hún styrkist náttúrlega ekki lítið við svona setningu, því að hún er í raun og veru staðfesting á þeim grun, sem við höfum ekki viljað láta í ljós, en þarna er raunverulega sagt, að frv. sé borið fram meira og minna sem sýndarfrv., því að vitanlega er hægt að gefa brunatryggingarnar frjálsar og taka einkaréttinn af félaginu. Það getum við ákveðið nú þegar, þó að sé skipuð nefnd til þess að rannsaka fyrirkomulag Brunabótafélags Íslands, hvernig það á að vera, eftir að það er félag, sem keppir í frjálsri samkeppni við önnur félög um brunabæturnar utan Reykjavíkur. En ef það væri ætlunin að láta þessa nefnd aðallega athuga það, hvort hún ætti að taka allt aftur, sem kann að verða samþ. nú hér á þessu þingi, þá er ég a. m. k. ekki með því að samþ. þessa nefnd.