09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi fyrir hönd okkar flutningsmanna þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu málsins og þær till., sem hún kemur með, meiri hl., og í raun og veru hef ég ekkert að athuga við þær till., sem sá hluti nefndarinnar, sem kallaður er minni hl., hefur lagt til í þessu máli. Ég ætla að vonast til þess, að málið nái fram að ganga, og leyfa mér að vísa gersamlega á bug öllum sýndaraðdróttunum frá hv. þm. Str. Ég kannast ekki við, að ég hafi þá sögu hér á þingi og því siður hv. meðflm. minn, að það sé frekar ástæða til þess að bera mér á brýn sýndartill., þó að ég leggi til í þessu máli það, sem Alþingi svo að segja allt virðist vera á einu máli um, að fá frelsi fyrir brunatryggingarnar handa bæjarfélögunum og sveitarfélögunum. Það er alveg út í bláinn sagt hjá hv. þm. Str. þetta með sýndartill., og ég skil nú satt að segja ekki og skil þó þetta einstaka bráðlæti, að það megi ekki hafa hæfilegan frest í þessu máli, til þess að stofnun og viðskipti, sem eru búin að vera til í 20 ár, geti sansað sig og athugað, hvernig þessu verði bezt komið fyrir í framtíðinni, — að svo mikið liggi á, að það verði að vera sem naumastur frestur. Það er þá eins og mönnum sé það mest í mun að koma einu sérstöku félagi fyrir kattarnef.

Þetta frv. er ekki flutt til annars en þess að staðfesta þann vilja af hendi okkar flm., sem kom fram m. a. hjá hv. flokksmönnum hv. þm. Str. í Nd., og ég geri ráð fyrir, að það sýni sig líka hér, að þingið er allt á einu máli um það að létta af allri einokun í þessu efni, og það sýnir þá við afgreiðslu þessa máls, hvort mönnum er alvara um þá hluti.

Ég skal svo ekki tefja framgang málsins með neinni langri ræðu, en vildi aðeins þakka fyrir afgreiðslu nefndarinnar.