09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Það er óþarfi að vera að þreyta umr. um þetta mál, því að það, sem hér er um að ræða og á milli ber, er ekki það margbrotið. Ef stæði í þessu frv., ef það yrði að lögum, að það tæki gildi þegar í stað, mundi vitanlega ekki verða notað af sveitar- og bæjarstjórnum úti um land, utan Reykjavíkur, það frelsi til þess að láta bjóða út tryggingarnar og reyna að fá lægri tryggingar en nú tíðkast hjá Brunabótafélagi Íslands, fyrr en samningar renna út, og það er, eftir því sem ég bezt veit, 15. okt. í haust, eða eftir 5–6 mánuði. Þess vegna væri langeðlilegast, að það stæði ekkert annað í frv. en það, að lögin tækju gildi þegar í stað, því að það leiðir af hlutarins eðli, að það breytir á engan hátt þeim tryggingarsamningum, sem standa þangað til í haust. Þetta væri það eðlilegasta og eiginlega einkennilegt, að það skuli ekki vera borið fram í því formi, því þó að þetta væri samþ., væri hægt að skipa nefnd til þess að rannsaka, hvernig Brunabótafélag Íslands skyldi rekið, eftir að það væri orðið samkeppnisfélag, en hefði ekki einkarétt, og væri þá meiri þörf á því, vegna þess að þá ber einmitt að athuga, hvernig það verður bezt rekið, til þess að það hafi sem ríkasta samkeppni við önnur félög. Enginn maður hefur verið að tala um það, hvorki ég né aðrir, að leggja Brunabótafélagið niður, heldur láta það keppa í frjálsri samkeppni við önnur brunabótafélög. Þess vegna er ekki hægt að neita því, að það er nokkuð einkennilegt, að þessi háttur skuli ekki vera hafður á, því að það er alveg þýðingarlaust að tala um flaustur í þessu sambandi. Við sjáum það, að þegar Reykjavík skiptir um tryggjendur eða vátryggingarfélög, þá þarf það ekki svona langan tíma; það þarf ekki hálft ár til að undirbúa það, og er þó um stóra hluti að ræða þar. Það er þess vegna ekki hægt að tala um neina hroðvirkni í því sambandi, þó að það stæði í þessum lögum, að þau tækju gildi þegar í stað, og ekki væri neitt tímatakmark sett í lögin fyrir því, hvenær sveitarstjórnir og bæjarstjórnir utan Reykjavíkur taka upp samninga um tryggingar við önnur félög en Brunabótafélag Íslands. Það væri mjög góður tími og ekkert flaustur í málinu. Síðan mætti skipa nefndina til þess að rannsaka, eins og ég sagði áðan, hvernig Brunabótafélag Íslands verður rekið, eftir að þessi breyting er gerð, en henni væri slegið fastri, þessari breytingu, að félögin utan Reykjavíkur skuli hafa frelsið, hvað sem öðru líður.

En nú hefur þetta verið flutt hér þannig, eins og ég sagði áðan, — ég bið afsökunar á því að endurtaka, — að lögin taka gildi þegar í stað. En raunverulega er þetta blekking, því að sú heimild, sem lögin veita, tekur ekki gildi fyrr en 15. okt. 1955, það er tekið fram í 1. gr. Þó að lögin taki gildi þegar í stað, þá mega bæjarstjórnirnar og sveitarstjórnirnar ekki hreyfa þessu til breytingar fyrr en haustið 1955, og síðan er tekið fram, að það á að skipa sérstaka nefnd. Ég afbið mig algerlega hnútum eða aðfinnslum út af því, þó að ég segi, að maður hafi ástæðu til þess að gruna, að hér sé um sýndarmál að ræða, þegar hv. frsm., — ég beindi því ekki til neinna annarra, og það er undarlegt, að menn skuli rísa upp hér í hv. deild til þess að taka það til sín, — ég beindi því eingöngu til hv. frsm., vegna þess að hans voru orðin og hann segir: Á þessu tímabili til 15. okt. 1955 má rannsaka, hvort Brunabótafélag Íslands á að hafa þann einkarétt sem það nú hefur, og síðan talar hann um það áfram, að það eigi ekki að flaustra að því að taka þennan einkarétt a£ félaginu. Þar með er yfirlýst, að það sé til athugunar og eigi að vera athugunarefni nefndarinnar, hvort þessi lög, þetta frelsi, sem veitt er í þessu frv., komi nokkurn tíma til framkvæmda.

Ég verð að segja það, að ég afbið mig öllum snuprum út af því, þó að ég telji, að þetta séu einkennileg vinnubrögð eftir þessa yfirlýsingu frá hv. frsm. meiri hl. Hún er alveg skýlaus, og þá fer maður að ætla, að þess vegna sé gildistökunni á þennan hátt frestað. Það kemur náttúrlega í ljós á sínum tíma, hvort þessu er svona háttað, en ég verð að segja það, að þetta mál ber að, eins og það er borið fram núna og eins og talað er fyrir því, með svo undarlegum hætti, að ég hef a. m. k. leyfi til að segja það, sem ég hef sagt um grunsemdir um það, að hér sé eitthvað einkennilegt á ferðinni.