12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Það munu allir, sem nokkuð hafa kynnt sér brunatryggingamál, geta tekið undir það, að sum og et til vill flest bæjarfélög utan Reykjavíkur hafa að undanförnu búið við allóhagstæð kjörsambandi við brunatryggingar hvert í sínu umdæmi hjá Brunabótafélagi Íslands, og eru þau kjör fljótt á litið gersamlega ósambærileg við þau kjör, sem Reykjavík hefur notið í þessum efnum með útboði brunatrygginga í bænum. Það má þó benda á, að samanburður á brunatryggingaiðgjöldum í Reykjavík og annars staðar á landinu er alls ekki einhlítur, þar sem um mjög ólíkar aðstæður er þar að ræða. Við slíkan samanburð verður að sjálfsögðu að reikna með upphæð brunabóta á hverjum stað, og sé tekinn samanburður á upphæð bóta, sem greiddar hafa verið vegna eldsvoða í Reykjavík og utan hennar, kemur í ljós samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja nú frá forstjóra Brunabótafélags Íslands, en þessar upplýsingar eru prentaðar sem fskj. með nál. á þskj. 771, að á árunum 1944–53 hefur upphæð bótanna í Reykjavík numið 7270185 kr., en á sama tíma hefur Brunabótafélagið greitt í bætur fyrir tjón á öllu landinu utan Reykjavíkur tæpar 17 millj. kr. Þó munu vátryggingarverðmætin í Reykjavík nema nokkru hærri upphæð en utan Reykjavíkur, að því er segir í fyrrnefndri skýrslu. Auk þessa kemur margt annað til greina, sem taka verður tillit til við samanburð á brunatryggingum í Reykjavík annars vegar og utan hennar hins vegar, svo sem miklu öflugri brunavarnir hér í Reykjavík en annars staðar á landinu, og fleira mætti til nefna.

Þrátt fyrir það að ég telji, að Brunabótafélagið hafi hlotið of harða dóma frá ýmsum í sambandi við umræður um brunamál hér á Alþingi nú upp á síðkastið, er ég því þó eindregið fylgjandi, að bæjar- og sveitarfélög utan Reykjavíkur fái heimild til þess í lögum að bjóða út brunatryggingar hvert í sínu umdæmi, en séu ekki bundin að lögum, eins og verið hefur fram að þessu, til þess að eiga þess einan kost að semja við Brunabótafélag Íslands um brunatryggingar, hvert í sínu umdæmi.

Það var þess vegna í þeim anda, sem hv. 2. þm. Eyf., ég og fleiri hv. alþm. fluttum nú nýlega þáltill. um það hér á Alþ.,ríkisstj. léti athuga, með hvaða hætti brunatryggingum húsa utan Reykjavíkur yrði bezt fyrir komið. Ég sé því ekki betur en að þessi þáltill. okkar gangi nákvæmlega í sömu átt og þetta frv. gerir, en frv. gerir ráð fyrir fljótvirkari leið að sama marki.

Annars er það ekki að ástæðulausu, að bent hefur verið á það í umr. á Alþ. um þetta mál nú nýlega, að ekki væri ráðlegt að rasa um ráð fram að því að gera ráðstafanir með lagasetningu, sem í einu vetfangi gætu kippt fótunum undan rekstri Brunabótafélags Íslands, en á því væri óneitanlega nokkur hætta, ef öllum bæjar- og sveitarfélögum á landinu utan Reykjavíkur væri undirbúningslaust fyrir Brunabótafélagið heimilað að bjóða út brunatryggingar í umdæmum sínum. Verður í þessu sambandi að hafa í huga, að Brunabótafélagið er gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda og er því stofnun, sem vátryggjendur sjálfir eiga og reka, alveg eins og ætlazt er til að verði, ef Reykjavíkurbær öðlast heimild til að taka brunatryggingar í bænum í sínar hendur.

Meiri hl. allshn. leggur því til, að sú leið verði farin í sambandi við brunatryggingamál bæjar- og sveitarfélaga utan Reykjavíkur, sem frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, þ. e. að áskilja bæjar- og sveitarfélögunum rétt til að bjóða út brunatryggingar húseigna í umdæmum sínum eftir vissan tíma, en ákveða jafnframt, að nefnd kjörin af Alþ. hefjist þegar handa um að endurskoða lög Brunabótafélags Íslands og hafi hún lokið það tímanlega störfum, að unnt verði á næsta Alþ. að leggja fram niðurstöður hennar í frv. formi um breyttan rekstur Brunabótafélags Íslands. Með öðrum orðum verði það athugað á frestinum, sem frv. gerir ráð fyrir að liði, þar til bæjar- og sveitarfélög utan Reykjavíkur öðlast þessa heimild, hvort Brunabótafélagið verði ekki, þegar til kemur, samkeppnisfært í slíku útboði. Komi það á daginn, að Brunabótafélagið geti með eða án lagabreytingar keppt við önnur vátryggingarfélög í slíku útboði, þá ættu allir aðilar að geta orðið ánægðir. En ef svo reynist ekki, telur meiri hl. n., að það þurfi a. m. k. athugunar við og tíma til umhugsunar, hvernig fara skuli með félagið, sjóði þess og aðrar eignir, en samkvæmt lögum eru eigendur þeirra bæjar- og sveitarfélög utan Reykjavíkur. Við teljum, að flaustur og fum á þessu sviði verði ekki til fagnaðar frekar en á öðrum sviðum og það þurfi nokkurrar athugunar við að gera ráðstafanir, sem gætu orðið til þess, að svo gömul og gróin ríkisstofnun sem Brunabótafélag Íslands er leggist niður í einu vetfangi og fyrirvaralaust.