12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það leynir sér nú ekki, að ástæðan til þess, að það frv., sem hér er nú til umr., er fram komið hér á hv. Alþ., eru þau átök, sem hér hafa þegar farið fram í sambandi við till., sem samþ. var á sínum tíma í Nd. sem brtt. við frv. þm. Reykv. varðandi brunatryggingamál Reykjavíkur. Með samþykkt þeirrar brtt. við það frv. var gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögum úti á landi yrðu veitt hliðstæð kjör og Reykjavík í sambandi við brunatryggingamálefni.

Það undarlega hefur komið í ljós, að þetta jafnréttisákvæði í sambandi við byggðarlögin úti á landi við Reykjavík hefur komið allóþyrmilega við ýmsa hv. alþm., og þó að þeir hafi lýst því hér yfir, að þeir út af fyrir sig hefðu nú ekki á móti því að veita bæjar- og sveitarfélögum úti á landi þessi sjálfsögðu jafnréttisákvæði á við Reykjavík, þá hefur samt sem áður tekizt þannig til, að þeir hafa ekki getað beitt atkvæðisrétti sínum hér á Alþ. þannig, að þeir gætu orðið við þessum óskum landsbyggðarinnar. Til þess að afsaka nokkuð þessa afstöðu sína, þá er ýmist komið hér með þáltill. um að rannsaka tryggingarmál byggðarlaganna úti á landi og að í trausti þeirrar rannsóknar megi neita þeim um þessi jafnréttisákvæði að minnsta kosti núna fyrst í stað, og þegar það þótti heldur ófullnægjandi að beita þessari afsökun, þá kemur fram annað frv., að vísu í Ed., um það, að nú skuli sett lög um það að vísu, að byggðarlögin úti á landi skuli njóta jafnréttis við Reykjavík um útboð á sínum brunatryggingum, en samt sem áður á að ganga þannig frá þeim lögum, að þau eiga ekki að öðlast gildi fyrr en seint á árinu 1955. Í millitíðinni á svo að taka öll þessi málefni til rannsóknar og athugunar af sérstakri fimm manna nefnd, kosinni af Alþ., til þess þá væntanlega að athuga um þessi lög, sem yrðu samþ. hér nú um jafnrétti fyrir byggðarlögin úti á landi, hvort nokkur þörf er á að láta þau nokkurn tíma koma til framkvæmda. Það er það, sem manni skilst helzt, að sé athugunarefni fyrir þá mþn., sem á svo að setja í þetta mál.

Ég hélt, að það væri alveg augljóst mál, að ef það er einlæglega meint að veita bæjar- og sveitarfélögum úti á landi þann rétt, sem þau hafa óskað eftir og meiri hl. hér í Nd. hefur þegar samþ. að lögfesta í því frv. um brunamálefni Reykjavíkurbæjar, sem hér lá fyrir, þá eiga þessi jafnréttisákvæði, sem þar með eru komin inn í frv., að fá að standa. Reykjavík er ekki á nokkurn hátt trufluð í þeim aðgerðum, sem hún óskar eftir, með þeirri samþykkt. Hún fær allt það, sem hún bað um. Hún fær ekki aðeins frelsi til þess að bjóða út sínar tryggingar á frjálsum markaði, eins og hún hefur haft ein allra kaupstaða í landinu, heldur einnig rétt til þess að taka í sínar hendur að nokkrum hluta a. m. k. rekstur brunatryggingamálanna. Það er aðeins lagt til, jafnhliða því að verða við þessum óskum Reykjavíkur, að önnur sveitarfélög á landinu fái að njóta hins sama.

Hvernig getur í rauninni staðið á því, að þeir hv. alþm., sem nú standa að flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, þar sem mælt er svo fyrir, að bæjar- og sveitarfélög úti á landi skuli fá þessi jafnréttisákvæði, berjast svona harðri baráttu fyrir því að fá þetta út úr því frv., sem þetta hefur nú verið samþ. inn í: Hvernig stendur á því? Ég hef áður lýst því hér yfir, að mín afstaða er sú, að ég vil ekki á neinn hátt setja fótinn fyrir það, að Reykjavíkurkaupstaður fái það, sem hann hefur óskað eftir þessum efnum, en ég mun ekki heldur stuðla að því, að hann fái þessi réttindi, ef fulltrúar Reykjavíkurkaupstaðar ætla á sama tíma að neita þeim, sem svipað stendur á um, kaupstöðunum úti á landi, um þessa aðstöðu. Þeim verður þá væntanlega ekki vandara um hér í Reykjavík að bíða eftir því að fá lögfest af sinni hálfu þau sérstöku aukafríðindi, sem þeir óska nú eftir, ef þeir ætlast til þess, að staðirnir úti á landi, sem ekki einu sinni hafa rétt til að bjóða út sín tryggingarmálefni á frjálsum grundvelli eins og Reykjavík hefur, geti beðið nú langt á annað ár enn.

Það hefur verið kvartað undan því, að það sé að ástæðulausu verið að blanda brunatryggingamálum bæjar- og sveitarfélaga úti á landi inn í málefni Reykjavíkurbæjar. Þetta er vitanlega alger útúrsnúningur í sambandi við þetta mál. Það er ekkert nýtt atriði, að þegar einn aðili á landinu óskar eftir einhverjum fríðindum sér til handa, þá sé stungið upp á því á Alþingi, að það geti fleiri öðlazt þessi fríðindi. Og ef mönnum þykir sjálfsagt, að Reykjavík fái þessi réttindi, og reyndar einnig sjálfsagt, að aðrir kaupstaðir á landinu fái þessi réttindi, hvers vegna má þá ekki samþykkja hvort tveggja í sama tilfellinu? Af hverju á að samþ. hlunnindin handa öðrum, en láta hina bíða? Hér er ekki verið að blanda saman neitt óskyldum málum. Hér er aðeins verið að tengja það saman, sem saman á að vera að eðlilegum hætti.

Við þetta frv. hefur nú komið fram brtt., þar sem gert er ráð fyrir því, að lög þessi öðlist gildi einu ári fyrr en í frv. segir, eða 15. okt. á þessu ári. Ég álít, að afstaða hv. þdm. til þessarar till. hljóti í rauninni að segja alveg skýrlega til um það, hver afstaða þeirra í raun og sannleika er í sambandi við þetta jafnréttismál byggðarlaganna úti á landinu. Það verður ekki hulið fyrir neinum, að þeir hv. alþm., sem neita því, að þetta jafnréttisákvæði fái að ganga í gildi á þessu ári, vilja ekki veita þessi jafnréttisákvæði; þeir vilja neita um þau.

Ég vil nú fyrir mitt leyti brýna það mjög fyrir þeim, sem áhuga hafa á brunatryggingamálefnum Rvíkurbæjar, að þeir séu ekki að ástæðulausu að stefna því hagsmunamáli Rvíkur, sem þar liggur fyrir, í beina hættu með því að viðhafa þessi vinnubrögð, sem þeir hafa hér staðið að í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég hygg, að það geti orðið fleiri en ég, sem taki þá afstöðu, að þeir óski ekki eftir því að veita Rvíkurkaupstað þau hlunnindi, sem hann óskar eftir í þessu efni, ef þm. hans kjósa að neita stöðunum úti á landi um þessi sömu réttindi.

Fáist að vísu sú brtt. samþykkt, sem gerir ráð fyrir því, að þessi lög komi til framkvæmda strax á þessu ári, þá má segja, að ekki skipti verulegu máli, hvort þetta frv. er lögfest eða ákvæðin í hinu frv., sem hér hafa verið samþ. áður. En fáist sú till. ekki heldur samþ., þá er líka ljóst, að hverju stefnt er í þessum efnum. En það er alveg ábyggilegt, að það mega menn vita, eftir það sem hér hefur borið á góma í þessu máli, að þetta mál er þess eðlis, að það verður ekki þagað í hel, og það mun ekki duga fyrir fulltrúa staðanna úti á landi að viðhafa nein undanbrögð í sambandi við afgreiðslu þessa máls, því að svo vel skilja menn aðalatriðið í þessum efnum, að þeir geta skilið, hvort það er óþarfa fyrirsláttur, sem brugðið er fyrir sig í sambandi við það að neita mönnum um þessi sjálfsögðu jafnréttisákvæði.