12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. sagði hér, að þær upplýsingar, sem nú lægju fyrir hér um tryggingarkjör hjá Brunabótafélagi Íslands hjá byggðarlögum úti á landi og þau tryggingarkjör, sem kunnugt væri um frá Reykjavík, sýndu, að það hefðu verið gersamlega rangar staðhæfingar, sem ég og fleiri hefðum haft hér í frammi í sambandi við þetta mál við fyrri umr. hér á þingi, og sagði, að hinar nýrri upplýsingar beinlínis afsönnuðu allt það, sem við hefðum byggt okkar aðalrök á áður í málinu. Ég vil benda á í þessu efni, að hann hefur ekki gert hér tilraun til þess að hrekja það, að iðgjöldin eru nú þannig og hafa verið þannig, að á algengustu tegund íbúðarhúsa, ef maður miðar við þau tilboð, sem Reykjavík hefur liggjandi á borðinu hjá sér nú og á kost á að ganga að, þá eru iðgjöld hér í Reykjavík 0.37‰, en í flestum kaupstöðum úti á landi eru iðgjöldin 1.80‰ og 1.90‰, eða rétt um það bil fimm sinnum hærri. Hv. þm. hefur ekki gert hér tilraun til þess að neita þessum tölum. Það hefur hvergi komið fram hjá Brunabótafélagi Íslands, að það gerði tilraun til þess að hrekja þessar tölur. Það er alveg óumdeilt, að iðgjöldin eru um það bil fimm sinnum hærri víðast hvar úti á landi heldur en Reykjavík á kost á að njóta eftir þeim tilboðum, sem nú liggja fyrir. Þessu höfum við haldið fram, og þetta segjum við enn, því að þetta segja staðreyndirnar sjálfar.Í þessu efni hefur því ekkert verið afsannað.

Það hefur að vísu verið bent á það, að Brunabótafélag Íslands hafi þurft að borga allmiklu meira í tjónbætur á tilteknu tímabili heldur en tryggingarfélögin hér í Reykjavík hafa þurft að borga vegna vátrygginga hér. Um þær tölur get ég að vísu ekki mikið sagt, því að mér hefur ekki gefizt kostur á að gera viðhlítandi samanburð á þeim. En það vekur þó strax athygli, að mjög skortir á það, að Brunabótafélagið láti í té fyrir Alþ., þrátt fyrir þau miklu átök, sem hér hafa farið fram um þetta mál; þannig upplýsingar, að ljóst sé raunverulega, hvernig afkoma þess er í sambandi við tryggingarmálin. En eitt sé ég þó og veit, og það er það, sem snýr að því bæjarfélagi, þar sem ég þekki bezt til. Það verður m. a. að sætta sig við það að vera í hópi þeirra, sem verða að borga tiltölulega hæst iðgjöld. En þær upplýsingar, sem liggja fyrir frá Brunabótafélagi Íslands, sýna hins vegar það, að þetta er með beztu tryggingarsvæðum félagsins á því tímabili, sem upplýsingar þess ná yfir, og á því tímabili, sem ég þekki til þar líka.

En það er nú svo með Brunabótafélag Íslands, að það er svo einkennilega uppbyggt eitt allra félaga í landinu, að þar er engin stjórn og þar eru allir meðlimirnir þannig, að þeir hafa ekkert um félagið að segja á neinn hátt. Við fáum ekki reikninga þess. Við fáum engar upplýsingar um hag þess. Við fáum ekkert að vita, ekki einu sinni um þá deild í félaginu, sem á að vera deild okkar kaupstaðar. Það er því engin stjórn í því félagi, sem ákveður það, hvað iðgjöldin skuli vera há á hverjum tíma. Ég get ekki meint annað en það sé forstjórinn einn, sem ákveður það. Ég tel mig hafa haft allgóðar fréttir af því þó, að Brunabótafélag Íslands hafi verið rekið með mjög myndarlegum gróða á undanförnum árum. Og ef félagið hefur grætt stórfé, eins og ég hygg að sé rétt, og ég vænti þá, að hv. 5. landsk. upplýsi annað, ef hann veit betur, hvers vegna hefur þá ekki mátt lækka iðgjöldin eitthvað frá því, sem verið hefur? En Brunabótafélagið hefur farið sér hægt í þeim efnum, því að það virðist hafa ráðið þessu alveg, þar sem það hafði lögin með sér og gat skyldað okkur alla til þess að halda tryggingunum óbreyttum. En það stóð ekki á Brunabótafélagi Íslands að bjóða í brunatryggingarnar hjá Reykjavíkurkaupstað, sem það átti ekki að annast brunatryggingarnar hjá. Og þó að brunatryggingarnar hér í Reykjavík eða iðgjöldin hér í Reykjavík væru miklum mun lægri en annars staðar á landinu, þá treysti Brunabótafélag Íslands sér til þess að bjóða lækkun á iðgjöldunum hér um 37‰, og auðvitað og fyrst og fremst í krafti þeirra miklu og gildu sjóða, sem Brunabótafélag Íslands hefur safnað á tryggingarstarfsemi fyrir byggðarlögin úti á landi, því að þaðan koma sjóðirnir. Ég hef haldið því hér fram í þessum umr. áður, að það hafi verið full ástæða til að búast við því, að Brunabótafélag Íslands með langa starfsemi að baki og allgilda sjóði gæti keppt við önnur tryggingarfélög, að það væri alls ekki þar með sagt, þó að bæjar- og sveitarfélög úti á landi fengju rétt til þess að bjóða út brunatryggingar sínar, að Brunabótafélagið gæti ekki alveg eins boðið í þær og önnur tryggingarfélög.

Hv. 5. landsk. þm. minntist á það, að sú n., sem gert væri ráð fyrir að starfaði samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, mundi m. a. eiga að athuga það eða reyna að búa þannig um hnútana, að hægt yrði að koma við samtryggingu hinna ýmsu sveitarfélaga, til þess að hægt yrði að komast að sem beztum kjörum þeim til handa í sambandi við það breytta form, sem ef til vill yrði tekið upp í brunatryggingamálunum. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að það er algerlega óþarfi að setja nokkra n. til þess að athuga neitt um þetta. Í þeirri till., sem samþ. var frá mér og fleiri þm. hér og komin er hér inn í ákveðið frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er beinlínis gert ráð fyrir því, að hin ýmsu bæjar- og sveitarfélög á landinu geti haft með sér samband, þau geti stækkað sitt tryggingarsvæði, þau geti komið sér saman tvö, þrjú eða fleiri og boðið út sínar brunatryggingar sameiginlega og komizt þannig að hinum beztu kjörum. Ég ætlast til þess, að forráðamenn bæjar- og sveitarfélaga kunni það vel að sjá hag sínum borgið, að þeir taki hinum beztu tilboðum á hverjum tíma, og það sé alveg full ástæða til þess að gefa þeim kost á þessu frjálsræði, án þess að skipuð verði sérstök mþn. til þess að hafa vit fyrir þeim, hvað þeir kunna að gera í þessum efnum.

Nei, þetta samtryggingaratriði, sem hv. þm. var að minnast á, er í fullu samræmi við aðra afstöðu þessa hv. þm. í sambandi við þetta mál. Hann er eini þm. hér í Nd. Alþ., sem hefur mælt á móti því, að bæjar- og sveitarfélögum úti á landi yrði veittur þessi réttur. Hann er eini hv. þm. hér, sem hefur beinlínis tekið afstöðu þannig, að hann teldi, að bezt færi um þessar tryggingar bæjar- og sveitarfélaga hjá Brunabótafélagi Íslands og það bæri að nota það félag eins og það starfar nú og efla brunavarnir hinna ýmsu staða m. a. með lántöku hjá Brunabótafélaginu, eins og hann hefur hér minnzt á, en lýst sig andvígan þeirri hreyfingu, sem komið hefur upp um það, að tryggingarnar verði gefnar frjálsar. Hann tekur þess vegna fyrir sitt leyti því fegins hendi, þegar kemur fram frv. um að gera þetta jafnréttisákvæði staðanna úti á landi að engu með því að fresta framkvæmd á því a. m. k. eitt og hálft ár. Hann tekur því fegins hendi og telur öll tormerki á því, að það frv., sem hér liggur fyrir, ef að lögum yrði, komi til framkvæmda seint á þessu ári.

Ég tel, að það sé alveg tilefnislaust að segja, að afgreiðsla þessara brunatryggingamála í því formi, sem Nd. hafði gengið frá þeim, boði eitthvert flan og það sé að leysa málið að lítt eða óathuguðu máli. Sannleikurinn er sá, að óskir bæjar- og sveitarfélaga um að fá þetta skipulag tekið upp eru ekki nýjar. Þær eru búnar að vera hér á Alþ. í mörg ár. Það er margbúið að taka þessi mál hér fyrir, erindi frá hinum ýmsu stöðum hafa komið hingað. Brunabótafélag Íslands hefur m. a. fyrir þremur eða fjórum árum farið að skrifast á við hina ýmsu staði á landinu til þess að ræða þessi mál. Það er því búið að athuga þau og það margsinnis. En hins vegar er það, að það hefur jafnan komið í ljós, að ýmsir aðilar og þá einkum þeir, sem hafa farið með völdin í Brunabótafélagi Íslands, hafa spyrnt við fótum og ekki óskað eftir því, að bæjarfélögin úti á landi fengju frjálsræði til þess að tryggja þar, sem þau telja bezt að tryggja. Og nú er verið hér á Alþ. enn einu sinni, þegar þetta mál liggur hér fyrir til afgreiðslu, að spyrna við fótum í þessu efni, og þegar ekki er hægt að drepa það með einfaldri atkvgr., eins og hafði þó verið gerð hér tilraun um áður, þá er farin sú leið að samþ. svona tilbrigði í málinu til þess svo að tefja það í eitt og hálft ár a. m. k. enn þá. Það getur engum manni blandazt hugur um það, að þeir, sem vilja afgreiða þetta mál þannig nú, telja ekki fært að veita sveitarfélögum úti á landi rétt til þess að bjóða út tryggingar sínar 15. október á þessu ári. Þessir menn telja, að það verði enn að bíða lengur en svo. Þeir eru ekki við því búnir að samþykkja þetta, og þeir eiga þá að játa það hreinlega, að þeir séu á móti því, og ekki vera með frekari undanbrögð í þessu efni. En nauðsynlegt er auðvitað, að skýr afstaða alþm. komi fram í þessu. Ég fyrir mitt leyti er trúaður á það, að það verði hér við þessa atkvgr. eins og við hina fyrri, að Nd. sýni það, að hún er með því að veita bæjar- og sveitarfélögum úti á landi sams konar hlunnindi í þessu efni og Reykjavík.