07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

155. mál, landamerki o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt í Nd. af tveimur héraðsdómurum og hefur hlotið samþykki d., að því er mér skilst óbreytt.

Ég vil ekki mæla á móti því út af fyrir sig, að sú breyting, sem frv. gerir, sé til bóta, a. m. k. að nokkru leyti, vegna þess að aðstaðan varðandi vettvangsmál er nú mjög breytt frá því, sem áður var. Nú orðið er það mögulegt fyrir hæstarétt, ef verulega þýðingu hefur, að fara sjálfur á vettvang og skoða öll ummerki, en áður fyrr voru samgöngur slíkar, að slíkt var frágangssök. Þetta er orðið breytt og vitað mál, að hæstiréttur hefur í einstökum tilfellum farið og skoðað landslag og staðhætti, og eftir það má segja, að sú ástæða, sem áður var til þess að ómerkja dóminn, vísa málinu heim, sé niður fallin og hæstiréttur eigi að geta kveðið upp efnisdóm sjálfur.

Þetta kann allt rétt að vera, en þó hygg ég, að þetta þurfi nokkru nánari skoðunar, og ég vil sérstaklega benda á, að ég hef fyrir nokkru kvatt hæfustu menn til þess að taka að sér endurskoðun á einkamálalögunum. Það er allmörg ár síðan þau lög voru sett og mikil reynsla er fengin um framkvæmd þeirra og þess vegna full ástæða til þess að endurskoða þau og gera sér grein fyrir, hvað betur megi fara, og ég tel, að eðlilegast væri, að þessi breyting á landamerkjalögunum, sem er óneitanlega veruleg breyting, væri látin bíða eftir þeirri endurskoðun. Þess vegna mundi ég ekki vera hvatamaður þess, að frv. yrði hraðað á þessu þingi, heldur látið bíða til frekari athugunar, án þess að ég geti þó sagt, að mér sé þetta verulegt kappsmál, ef aðrir menn hafa í því örugga sannfæringu. En ég tel, að það væri öruggari málsmeðferð að láta málið a. m. k. bíða til næsta þings og athuga þetta allt í samræmi við eða í samhengi við þá allsherjar endurskoðun á meðferð einkamála, sem nú fer fram, og vil ég þó geta þess, að mjög hæpið er, að henni verði lokið fyrir næsta haust, þótt ég hafi fulla von um, að henni ljúki einhvern tíma á næsta vetri. En ég tel sjálfsagt, að málið fari til 2. umr. og hv. allshn.