07.12.1953
Neðri deild: 34. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

8. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Frv. þetta er um bráðabirgðabreyt. á lögum um tollskrá. 1. gr. mælir fyrir um viðbót við vörumagnstoll og verðtoll. 2. gr. er um það, að ákveðnar vörur, sem þar eru upp taldar, skuli undanþegnar tollhækkun þeirri, er um getur í 1. gr. Og loks er í 3. gr. heimild til þess að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum vörutegundum.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við þau lög, er nú gilda, og eru ákvæði þess efnislega alveg samhljóða þeim lögum um þessi efni, sem gilda nú til loka þessa árs, og slík lög hafa verið framlengd ár hvert fyrir eitt ár í senn að undanförnu.

Eins og fram kemur á þskj. 252 mælir fjhn. með frv., en einn nm., hv. 1. landsk., hefur lagt fram brtt. við frv. á þskj. 253. Ég vil taka það fram, að aðrir nm. geta ekki á þessar till. fallizt, telja, að það sé ekki fært annað en framlengja þessi lög eins og gert hefur verið að undanförnu. Er það því till. okkar fjögurra nm. í fjhn., að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed.