13.04.1954
Efri deild: 88. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

174. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 846 ber með sér, hafa nm. orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Þó ber þess að geta, eins og tekið er fram í nál., að einn þm., 1. þm. N-M. (PZ), var ekki mættur á þessum fundi af þeim ástæðum, að ekki tókst að boða hann á fundinn, þar sem fundurinn var haldinn seint í gærkvöld.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sjálfu sér mjög óbrotið og einfalt. Þar er sú breyting gerð á frá því, sem nú er um verksvið félagsdóms, að dómsvald hans nær nú til þess að ákveða eða dæma um það, hvaða iðngrein tilheyra tiltekin verk, og dæma um þær deilur, sem rísa þar milli iðnaðarmanna og iðnrekenda. Það er gerð ýtarleg grein fyrir því í frv. eins og það var lagt fyrir hv. Nd., að það var fyrirhugað að gera víðtækari breytingar en þetta. En þessar breytingar, sem hér eru ráðgerðar, eru þær breytingar, sem allir iðnaðarmenn voru sammála um að væri hægt að gera nú með samkomulagi.

Í allshn. hv. Nd. var leitað álits um þetta mál til iðnaðarmanna og með þeim árangri, sem ég nú greindi. N. er þess vegna sammála um það að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.