16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

129. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. frá 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum fiskiskipum, þskj. 318. Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum og sent eftirgreindum aðilum það til umsagnar: Eimskipafélagi Íslands, Skipaútgerð ríkisins, skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Vélstjórafélagi Íslands og Félagi ísl. rafvirkja.

Þessir aðilar hafa allir látið n. í té umsagnir sínar um frv. Aðeins einn þeirra, Félag ísl. rafvirkja, mælir með samþykkt þess, en hinir aðilarnir fjórir eru því andvígir og telja með öllu óþarft að hafa rafvirkja á skipum, þar sem vélstjórar eru, sem lokið hafa námi við vélskólann í Reykjavík og hafa þar notið haldgóðrar menntunar í rafmagnsfræðinni, sem gerir þá fullkomlega færa um að hafa með höndum alla umsjón á vélum mótorskipa.

Í frv. hv. flm. er gert ráð fyrir að skylda öll mótorskip, sem eru yfir 1000 rúmlestir, til að hafa einn fullgildan rafvirkja, ef þau eru að staðaldri í millilandasiglingum. Með því að láðst hefur að prenta með nál. á þskj. 460 umsagnir þeirra aðila, sem frv. var sent til umsagnar, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, tilfæra nokkur atriði úr umsögnum þeirra. Vélstjórafélag Íslands segir í umsögn sinni:

„Frv. þetta gerir ráð fyrir, að bundið sé með lögum, að einn fullgildur rafvirki sé á öllum mótorskipum, 1000 rúmlestir eða stærri. Út af þessu viljum við strax taka fram, að það er eindregið álit okkar, að engin nauðsyn sé til þess, að ákveðið sé með lögum eða á annan hátt, að fullgildur rafvirki skuli vera á íslenzkum mótorskipum eða öðrum íslenzkum skipum yfirleitt, og leggjum við því til, að frv. þetta verði fellt. Þetta álit okkar viljum við rökstyðja á eftirfarandi hátt:

Í grg. fyrir frv., er hér er um að ræða, er komizt þannig að orði:

„Í þeirri áhöfn, sem lög nr. 66 1946 gera ráð fyrir að sé á hverju skipi, er enginn maður, sem sérþekkingu hefur í meðferð og viðhaldi raflagna og raftækja.“

Virðist þetta ein helzta röksemd flm. fyrir frv. Þessi fullyrðing flm. er þó á misskilningi byggð og ekki rétt með staðreyndir farið, því að í lögum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum er það skýrt tekið fram, að á skipi með 600 hestafla vél eða stærri skuli vera vélstjóri, er staðizt hafi próf í rafmagnsfræði fyrir vélstjóra við vélskólann í Rvík. Kennslan við skóla þennan er það fullkomin og hún við það miðuð, að vélstjórinn hafi næga þekkingu til þess að taka að sér öll þau störf, sem fyrir koma í mótorskipi, hvort sem um er að ræða gæzlu og viðhald raflagna og raftækja eða annarra véla skipsins.

Þá segir enn fremur í grg. nefnds frv.: „Reynslan leiddi þó fljótt í ljós, að nauðsyn bar til vegna öryggis skips og áhafnar að fá um borð í skipin menn með sérþekkingu í meðferð slíkra tækja, þ. e. raftækja.“

Hér fer flm. heldur ekki rétt með staðreyndir, og gætir hér mikillar vanþekkingar hjá honum í máli þessu. Ástæðan til þess, að rafvirkjar voru teknir á nokkur hinna nýju skipa, var alls ekki vegna öryggis skipa eða áhafnar, heldur eingöngu það, að á fyrstu árunum eftir stríð var nokkur vöntun á vélstjórum, sem lokið höfðu rafmagnsprófi við vélskólann, og voru því nokkrir rafvirkjar ráðnir á hin nýju skip. Nú er þessu ekki lengur til að dreifa. Allir nemendur vélskólans, sem fullnaðarpróf taka, ljúka sjö mánaða námi í rafmagnsfræði, og er þessi kennsla að allra dómi það fullkomin, að öryggi skips og áhafnar er eins gott og það frekast getur verið.

Í 3. málsgr. grg. er sagt, að nauðsynlegt sé að tryggja með lagasetningu, að einungis fullgildir rafvirkjar verði ráðnir til þessara starfa. Þessu mótmælum vér og fullyrðum, að kennsla í vélskólanum uppfylli allar þær kröfur, sem gera þarf til vélstjóra á mótorskipum eða öðrum skipum með rafmagnskerfi, hvort sem um er að ræða véla- eða rafmagnsvinnu.

Við teljum ekki þörf á að fara frekar út í einstök atriði grg. Við skorum á hið háa Alþingi að fella nefnt frv., þar sem engin rök liggja til þess, að nauðsynlegt sé, að það verði að lögum.“

Þetta var umsögn Vélstjórafélags Íslands. Ég vil aðeins, með leyfi hæstv. forseta, einnig taka hér nokkur atriði úr umsögn S. Í. S. eða skipadeildar þess. Þar segir:

„Vér viljum taka fram, að lagabreytingu þessa teljum vér með öllu óþarfa, og styðjumst vér í því efni við reynslu þá, er vér höfum aflað oss frá því að skipaútgerð vor hófst. Vélstjórar á skipum vorum hafa nær allir lokið prófum við rafmagnsdeild vélstjóraskóla Íslands, og hafa þeir reynzt færir um að annast venjulegt viðhald og eftirlit rafknúinna hjálpartækja skipanna. Af ofangreindum ástæðum virðist oss fullkomlega óþarft að bæta við manni á skipin til þess að líta eftir rafmagnstækjum. Og vér höfum aldrei haft eða talið ástæðu til að hafa slíkan mann um borð í skipum vorum. Þá viljum við taka fram, að við vitum ekki til þess, að í nokkru landi sé skylda að hafa sérstakan rafvirkja á kaupskipum af þeirri stærð, sem algengust er hér, þ. e. um eða undir 3500 lestir dw.“

Í umsögn Eimskipafélags Íslands segir:

„Í grg. fyrir frv. er þess getið, að félag vort hafi ráðið rafvirkja um borð í öll hin nýju skip félagsins, en það er þó eigi alls kostar rétt, þar eð enginn rafvirki er starfandi um borð í mótorskipinu Reykjafossi. Ástæðan fyrir því, að við höfum ráðið rafvirkja á skipin, var einkum sú, að þegar við fengum hin nýju skip fyrst eftir stríðið, voru vélstjórar þeirra fluttir af eldri skipum félagsins, sem öll voru gufuknúin, og var því talið heppilegra, að faglærðir rafvirkjar væru einnig til aðstoðar í vélinni fyrst um sinn. Hins vegar hefur eigi verið gert ráð fyrir, að þetta fyrirkomulag yrði til frambúðar, með því að vélstjórar í vélskólanum í Reykjavík njóta nú þeirrar menntunar í rafmagnsfræði, sem telja verður fullnægjandi á hverju skipi félagsins sem er. Með tilliti til ofangreindra staðreynda leyfum vér oss að láta í ljós þá skoðun vora, að eigi sé ástæða til að breyta lögum nr. 66 1946 í það horf, sem lagt er til í umræddu frv.“

Og loks er stutt umsögn frá Skipaútgerð ríkisins. Þar segir:

„Að því er snertir mótorskip í millilandasiglingum yfir þúsund rúmlestir að stærð, þá álítum vér, að menntun vélstjóra frá vélstjóraskóla Íslands sé nú orðin svo fullkomin, þ. á m. í rafmagnsvinnu, að ekki sé vegna öryggis skips þörf á því að lögbjóða að sérstakur rafvirki skuli vera um borð, enda er menntun fullgilds vélstjóra að öðru leyti miklu víðtækari en rafvirkja. Vinna á skipum er að mestu vaktaskiptavinna, m. a. hjá vélstjórunum, en einn rafvirki mundi vart falla inn í vaktaskiptavinnu á skipi, og yrði hann því aukamaður, sem væntanlega mundi vinna samkv. eigin ákvörðun. Mundum við telja slíkt að ýmsu leyti óheppilegt og stefna að því að auka útgerðarkostnaðinn að þarflausu, sem vissulega ber að varast. Þegar verið var að breyta kaupskipaflota landsmanna úr gufuskipum í mótorskip, var á tímabili talið heppilegt að hafa rafvirkja um borð í sumum hinna nýju skipa hinum eldri vélstjórum til aðstoðar. En þörf til þessa er að vorum dómi að hverfa úr sögunni vegna æfingar hinna eldri vélstjóra og vegna viðbótarnáms hinna yngri vélstjóra. Samkv. framangreindu getum vér ekki mælt með umræddu frv.“

Þessari umsögn Skipaútgerðar ríkisins fylgdi og umsögn tveggja vélstjóra, 1. vélstjórans á Heklu og 1. vélstjórans á Esju, er báðir mæla gegn samþykkt frv. — Eins og ég tók fram áðan, hefur n. einnig borizt umsögn frá Félagi ísl. rafvirkja, sem mælir með samþykkt frv.

Nefndin gat ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. hennar, sem gefið hefur út nál. á þskj. 460, mælir gegn því, að það verði samþ., en minni hl., hv. 5. landsk., er hefur gefið út nál. á þskj. 458, leggur til, að frv. verði samþykkt.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um frv. Það hefur verið sýnt fram á það með rökum af þeim aðilum, sem n. leitaði til og hafa sérþekkingu á þessum málum, að ekki sé þörf á breytingu þeirri, sem frv. fjallar um. Vil ég því fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar leggja til hv. þdm., að frv. verði fellt.