16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

129. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar, en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Eins og frsm. meiri hl. lýsti hér áðan, þá hefur meiri hl. n. lagt til, að frv. verði fellt, en minni hl. hefur lagt til, að það verði samþykkt.

Efni þessa máls er hvorki flókið né margbrotið og þarf þess vegna ekki mikilla skýringa við. En það er í stuttu máli það, að á öllum mótorskipum, 1000 rúmlestir brúttó eða stærri, sem að staðaldri eru í millilandasiglingum, skuli skylt að hafa einn fullgildan rafvirkja, er annist gæzlu, viðhald og eftirlit raftækja og rafbúnaðar skipsins, og síðan nánari ákvæði um það, hvaða menn hafi réttindi til að annast þessi rafvirkjastörf.

Eins og lýst hefur verið hér, bæði við fyrri umr. málsins og fram kemur í grg., þá eru rökin fyrir þessum till., sem í frv. felast, þau, að svo margháttaður rafbúnaður sé nú upp tekinn í hinum stærri skipum okkar, flutningaskipum, farþegaskipum og öðrum af þessari stærð, sem í frv. er nefnd, og stærri, að nauðsynlegt sé, að sérfróður maður annist um viðhald hans og viðgerð, ef eitthvað ber út af. Skipafélögin sjálf hafa líka fundið til þessara þarfa, og það mun hafa verið meginregla hjá Eimskipafélagi Íslands um það bil, er það fékk sín nýju skip, að setja fullgildan rafvirkja út í þau til að annast þessi störf. Í umsögn sinni um málið, sem n. hefur fengið frá Eimskipafélaginu nú, segir það að vísu, að þetta hafi verið gert á meðan ekki hafi verið til vélstjórar á skipunum, sem hefðu haft nám í rafmagnsdeild vélskólans, en eins og hv. dm. er kunnugt, þá er ekki mjög langt síðan kennsla í rafmagnsfræði var tekin upp sérstaklega í sambandi við vélstjóranámið.

Það, sem þá ber á milli, eins og málið nú horfir, virðist vera það, að skipafélögin og vélstjórarnir, samkv. þeim umsögnum, sem hér hafa verið lesnar, halda því fram, að vélstjórarnir geti nú með þeirri rafmagnsþekkingu, sem þeir fái í vélstjóraskólanum, sinnt að fullu þeim störfum, sem hér er um að ræða, en hins vegar virðist mér, að af fim. frv. og rafvirkjameisturunum, sem einnig hafa gefið hér umsögn um málið, sé það nokkuð dregið í efa.

Úr því að hv. þm. Snæf., frsm. meiri hl., las hér fjögur bréf sínu máli til stuðnings, þá mætti mér kannske leyfast að lesa eitt bréf, sem er þó í hina áttina, úr því að engin þessara bréfa hafa verið prentuð sem fskj. með nál. Ég vil þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bréf hér frá Félagi ísl. rafvirkja, sem n. hefur borizt um málið. Það er á þessa leið:

„Vér höfum móttekið heiðrað bréf yðar, dags. 18. f. m., þar sem leitað er umsagnar um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Um frv. þetta viljum vér segja þetta:

Að félag vort telur brýna þörf á að setja lög um þetta efni til þess að tryggja það, að iðnlærðir menn hafi þau störf með höndum, sem um ræðir í frv., en á því hefur orðið nokkur misbrestur, þar sem óiðnlærðir menn hafa verið ráðnir til slíkra starfa, en slíkt hlýtur að skapa öryggisleysi og getur auk þess valdið miklu tjóni á vélum og raflögnum skipa.

Þá viljum vér geta þess, að í nágrannalöndum vorum er talið sjálfsagt, að sérmenntaðir menn á þessu sviði gegni rafvirkjastörfum á skipum, og sú reynsla, sem fengin er af störfum rafvirkja á íslenzkum skipum, bendir ótvírætt til þess, að það sé sjálfsögð öryggisráðstöfun að krefjast sérþekkingar af þeim mönnum, sem gegna þessum störfum. Væntum vér þess, að hv. sjútvn. sjái sér fært að mæla með samþykkt frv. þessa.“

Þetta skrifar Félag ísl. rafvirkja. Það sem, eins og ég segi, ber á milli í málinu, er það, að útgerðarfélögin og vélstjórarnir halda því fram, að með þessu sjö mánaða námi vélstjóranna í rafmagnsfræði hafi þeir öðlazt fullkomna þekkingu til vinnu og viðgerðar um borð í skipunum á þeim rafmagnstækjum, sem þar er um að ræða. Þetta vefengja rafvirkjarnir, og ég hygg, að því til stuðnings mætti benda á, að nám í rafvélavirkjun út af fyrir sig og nám í raflögnum út af fyrir sig er hvort tveggja fjögurra ára nám, svo að þegar það er athugað og borið saman við þetta sjö mánaða meira og minna teoretiska og bóklega nám vélstjóranna, þá hygg ég, að þar sé enginn samjöfnuður á. Ég tel þess vegna, að með því að láta vélstjórana inna þessi störf af höndum, þótt eitthvað rafmagnslærðir séu á þessu sjö mánaða námskeiði eða hvað það nú er í vélstjóraskólanum, þá þoli það engan samanburð við þá vinnu, sem rafvirkjarnir geta látið af hendi, sem eðlilegast er að inntu störfin af hendi, þar sem þeir hafa fengið til þess sérmenntun. Ef vélstjóri ætlaði t. d. að fara að eiga hér við raflagnir í landi, sem er náttúrlega alveg það sama að sínu leyti eins og að eiga við þær í skipi, þá mundi hann ekki nokkurn tíma fá nokkurt leyfi til þess að inna þau störf af hendi nokkurs staðar. Rafveiturnar og rafmagnseftirlit ríkisins mundu sjálfsagt hindra það, að vélstjóri, þótt sjö mánuði hefði lært eitthvað um þessi fræði, fengi nokkurs staðar leyfi til þess að inna þessi störf af hendi, og sízt ætti að fara óvarlegar að í skipum. — Ég legg þess vegna til, eins og fram kemur í mínu nál., að frv. verði samþykkt.