16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

129. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Ég vil aðeins í þessu sambandi taka fram, að ég tel mjög vafasamt, ef slíkur maður, lærður rafvirki, ætti að vera um borð í skipum, að þá sé ekki öllu meiri nauðsyn, að hann væri einmitt um borð í þeim skipum, sem sigldu við strendur landsins. Ég tel, að yfirleitt sé, eins og kemur fram hjá flestum mönnum, sem annast siglingar, mesta hættan á siglingunum í námunda við strendur landsins, en ekki í millilandasiglingum, svo að það, að frv. ræðir aðeins um, að þetta skuli vera í sambandi víð millilandasiglingar, sýnir raunverulega veikleika hjá flm. En hins ber einnig að gæta, að við Íslendingar erum meir og meir að taka í okkar hendur utanlandssiglingar, og við megum ekki hugsa okkur að hafa þann hátt á í sambandi við mannaráðningar og annað, að við göngum þar miklu lengra en aðrar þjóðir og gerum okkur á þann hátt óhæfa til að standast samkeppni í siglingunum. Einnig má benda á það, að ef farið væri að samþykkja það, sem þetta frv. felur í sér, þá má einnig gera ráð fyrir, að það væri farið inn á fleiri svið atvinnulífsins. Það væri ekki ótrúlegt, að það yrði heimtað á hverri vinnustöð, þar sem svo og svo margir rafmótorar eru í notkun, að þar yrði sérstakur rafvirki hafður sem gæzlumaður. Ég álít, að það sé nauðsynlegt að stilla hér í hóf, og þó að það sé sameiginlegur vilji allra hv. alþm. að skapa öryggi bæði á sjó og landi, þá verður þó einnig að taka tillit til umsagna þeirra fagmanna, sem hér hafa látið ljós sitt skína og eru allir á einu máli um, að það sé óþarft að hafa þessa menn um borð í skipunum, nema aðeins þeir aðilar, sem sjálfir eru rafvirkjar og því málið mjög skylt.