16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2145)

129. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Emil Jónsson):

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Snæf., frsm. meiri hl. nefndarinnar. — Hann sagðist telja, að það væri meiri nauðsyn að hafa þessa menn í þeim skipum, sem færu með ströndum fram, eða a. m. k. ekki síður en þeim, sem færu á milli landa. Það er þó auðséð hverjum, sem um það hugsar, að þarna er mikill munur á. Þeir, sem eru við strendur landsins og alltaf eiga þess kost, a. m. k. með tiltölulega stuttu millibili, að fara í höfn, eru ekki eins háðir því að hafa fastan viðgerðarmann á skipinu. Þeir geta, ef eitthvað kemur fyrir, farið inn á þá staði, þar sem hægt er að ná í viðgerðarmennina, og fengið þá þar til að gera við það, sem aflaga fer, en það getur vissulega ekki skip, sem er á ferð um úthafið og á einskis kost annars en annaðhvort að halda áfram sinni ferð eða snúa aftur til baka til sama lands. Þess vegna er á þessu svo mikill munur, að flm. frv. og meðmælendur þess hafa viljað miða skylduna eingöngu við ferðir á milli landa, af þessum ástæðum, að í þeim er ekki hægt að ná til kunnáttumanna, ef eitthvað ber út af, nema þeir séu á skipinu sjálfu.

Annað atriði, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á, er þetta sama sem oft hefur heyrzt í sambandi við lögin um atvinnu við siglingar, að með því að fyrirskipa, að svo og svo margir kunnáttumenn skuli vera á skipunum, þá sé útgerðinni íþyngt, svo að það sé mjög borin von, að hún geti keppt við aðrar þjóðir eða önnur útgerðarfélög, sem geri minni kröfur, og þess vegna megi ekki hlaða meiri tilkostnaði á útgerð skipanna en minnst sé hægt að komast af með. Hefur þetta verið notað sem röksemd fyrir því, að draga bæri úr um þetta mannahald, ekki einasta í sambandi við þessa rafvirkja, heldur hefur það komið fram bæði í sambandi víð yfirmenn skipa, eins og stýrimannafjölda, vélstjórafjölda, loftskeytamenn, og ýmislegt annað, sem tiltekið er í lögum, hvernig með skuli fara og að ákveðinn fjöldi þessara manna skuli vera á íslenzkum skipum. En þessi rök hygg ég að séu nú frekar tekin að dofna, eftir því sem tímar hafa liðið, því að reynslan hefur skorið úr um það, að bæði er þetta nauðsynlegt öryggis skipanna vegna, og eins hitt, að þegar til lengdar lætur, þá ætla ég, að það verði á engan hátt dýrara fyrir útgerðina að hafa fullkomna fagmenn til þjónustu á skipunum heldur en að hafa þá ekki og verða því af mannaskorti að láta drabbast niður það, sem annars mætti gera við tiltölulega fljótlega með litlum tilkostnaði. Þegar fleiri tugir og jafnvel upp í hundruð rafmagnstækja eru til í þessum skipum, sem hér er um að ræða, þá er sannarlega ekki lengi að koma upp í kaup gæzlumanns, ef eitthvað ber út af og ekki er gert við strax, svo að kannske tækið eyðileggst. Einnig út frá því sjónarmiði held ég að það séu mjög hæpin rök að segja, að það megi ekki leggja þennan kostnað á útgerðina. Ég held, að það mætti alveg eins segja, að útgerðin gæti ekki staðið sig við það, að sá baggi væri á hana lagður að mega ekki hafa mann um borð, ef um það hefði verið að ræða, til þess að gera við það, sem aflaga fer. Vitanlega er það ekki gert, þó að frv. verði ekki samþ., það skal játað. Það geta allir haft þá menn, sem þeir telja sig þurfa, en það er nú einu sinni svo, að ef það er ekki skylda, þá vill það oft verða í undandrætti.

Svo getur þetta leitt af sér, sagði hv. frsm., að krafa komi upp um það, að á hverri vinnustöð verði gert að skyldu að hafa rafvirkja eða gæzlumann til þess að fara með rafknúin tæki. Ég veit ekki betur en að þessi skylda sé til í dag, svo að hún verður ekki afleiðing af samþykkt eða synjun þessa frv. Það er svo nú, að það mega engir aðrir um þessi tæki sýsla heldur en þeir, sem hafa fengið til þess löglegan rétt í dag. Hitt er svo annað mál, að vitanlega er enginn skyldugur til þess að hafa þessa menn fasta í þjónustu sinni, þeirra sem í landi búa og hafa yfir tækjunum að ráða, heldur kalla þeir þá til, þegar þeir þurfa á að halda, af því að þeir geta náð í þá. Ef skipin væru bundin við þá staði, þar sem ávallt væri hægt að ná í fulllærða menn, þá þyrfti ekki að gera þá kröfu, að þeir skyldu jafnan vera á skipunum, heldur taka þá þar, sem til þeirra næðist. En skráning þeirra á skipin er fyrst og fremst við það miðuð, að það sé ekki hægt að ná til þeirra annars staðar. — Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram í tilefni af þeim orðum, sem hv. þm. Snæf. lét hér falla áðan.