13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

51. mál, gengisskráning

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er brbl., sem voru gefin út s.l. sumar. Það er ekki stórvægileg breyting, sem felst í þessu frv. frá núgildandi lögum, en það er þó ein breyting, að unglingar innan við 16 ára aldur geti fengið sparifé sitt bætt án þess að hafa talið það fram. Eins og lögin eru, þá er gert ráð fyrir, að því aðeins skuli sparifé bætt, að það hafi verið talið fram.

Þá er hér orðabreyting, þar sem talað er um, að „bætur skal miða við heildarinnstæðufjárhæð eins og hún var í árslok 1941 og í lok júnímánaðar 1946“, segir hér í þessu frv., „og skal miðað við lægri innstæðufjárhæðina“. Það er breyting frá því, sem nú er í l. Ég hef ekki athugað þetta nákvæmlega, en ég held, að það væri gott, ef hv. fjhn., sem fær frv. til athugunar, vildi gera svo vel að bera þessa málsgr. saman við l. eins og þau nú eru og athuga, hvort þetta orðalag stenzt nákvæmlega. Mér sýnist í fljótu bili, að það mætti betur fara, en vil ekki fullyrða um það að svo komnu, en vil leyfa mér að fela hv. fjhn. að taka það til athugunar.

Þá er hér annað smávægilegt atriði, sem tekið er fram í þessu frv. til breyt. á l., og það er, að ekki skuli bæta fjárhæð, sem er lægri en 200 kr., og virðist það vera eðlilegt ákvæði, því að skriffinnskan við þessar uppbætur verður nú ábyggilega nóg, þó að miðað sé við lágmarksupphæð í líkingu við þetta.

Ég held, að það sé óþarfi að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég vil leggja til, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. fjhn.