07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

111. mál, menntun kennara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég fagna því út af fyrir sig, að umr. eru horfnar frá því, sem þær virtust í fyrstu ætla að snúast um, sem sagt, hvort ástæða væri til þess að taka berum orðum fram, að skólinn ætti að vera á Íslandi eða því mætti sleppa.

Það, sem hér um ræðir, er, eins og menn vita, hvort eigi að flytja skólann til Akureyrar eða ekki, og Akureyri er jafnt á Íslandi eins og Reykjavík. Ég skal ekki blanda mér mikið í það, hvora leiðina Alþ. velur í þessu, en ég vil aðeins lýsa yfir því, að ef frv. verður samþ., annaðhvort óbreytt eða með breyt. n., þá mun ég líta á það sem yfirlýsingu þingsins um, að skólann beri að flytja til Akureyrar, ef ekki koma þar nýir alveg óvæntir örðugleikar eða atvik fram, — þá mun ég sem sagt líta á frv. sem þar stæði, að skólinn skuli að óbreyttum atvikum vera á Akureyri, en ekki annars staðar. Ég tel nauðsynlegt, að þetta liggi alveg ljóst fyrir.

Hins vegar tel ég, að brtt. hv. þm. Barð., hvernig sem á það er litið að öðru leyti, sé með öllu óþörf, vegna þess að eins og sakir standa á skólinn að vera í Reykjavík eða nágrenni Reykjavíkur, eins og þm. réttilega tók fram. Það er þess vegna óþarfi að vera að ítreka aftur með löggjöf það, sem nú þegar er. Hann segir að vísu, að í till. sinni felist það, að hugsanlegt sé að flytja skólann til Laugarvatns. Ég geri hins vegar ráð fyrir, að það liggi alls ekki fyrir í náinni framtíð, vegna þess að skólanum verði ekki komið fyrir á Laugarvatni nema með stórauknum fjárveitingum til byggingar nýs skólahúss. Ég vil í því sambandi einnig benda á, að þau rök hv. þm. fyrir því, að ekki megi flytja skólann til Akureyrar, að Akureyri sé svo fjarri Laugarvatni, að þar væri ekki hægt að reka búrekstur eða hafa þau afnot af búrekstri, sem nú eiga sér stað, fá ekki staðizt að mínu viti. Það er síður en svo nokkuð því til fyrirstöðu, að kennarar og nemendur fari frá Akureyri að vorlagi suður til Laugarvatns. Lengri ferðalög hafa menn séð nú á dögum og ekki látið sér bregða við. Mér virðist þess vegna, að sú ástæða fái ekki stuðzt við rök. Eins er það, að skólastjórar og kennarar væru sérstaklega hart leiknir með því að samþ. þetta frv. Það fæ ég alls ekki séð. Það fólk á að halda sínum launum og kjörum eins og lög standa til, og það er berum orðið tekið fram í stjórnarskránni, að fólk má flytja milli embætta. ef það missir einskis í í launum. hvað þá heldur að það megi flytja embættismenn til með þessum hætti, ef kjör þeirra eiga að vera óbreytt. Þetta er því einmitt fyrirbrigði, sem er mjög eðlilegt að löggjafinn hafi frjálsar hendur um, og er sannast sagt ómögulegt að koma fram breytingum á ríkisrekstri til meira hagræðis, ef á þarf að halda, ef menn vilja binda sig svo við hagsmuni embættismannanna sem hv. þm. Barð. virðist vilja gera í þessu tilfelli.

Það, sem mestu máli skiptir, er þetta, hvort menn telja, að sú aðstaða. sem nú er á Akureyri, að þar stendur skólahús autt, þar sem vitað er, að hér í Reykjavík verður innan tiltölulega skamms tíma að byggja fyrir a. m. k. 1–2 millj. yfir þennan skóla og leggja út fé til þess, — hvort sú aðstaða eigi að verða þess valdandi, að skólinn sé fluttur. Það er Alþingis að taka ákvörðun um þetta, og ég skal ekki frekar blanda mér í það, hvernig sú ákvörðun verður tekin. En ég vil láta það liggja alveg ótvírætt fyrir, að ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það er í frá Nd., eða í þeirri mynd, sem hv. n. leggur til, þá mun ég skoða það sem ákvörðun Alþ. um, að skólinn skuli fluttur til Akureyrar.