07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

111. mál, menntun kennara

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. dómsmrh. er bezt að segja það eins og það er, að ég geri ráð fyrir því, að það hafi vakað fyrir hv. flm. þessa frv., að við samþykkt þess mundi þessi skóli flytjast til Akureyrar, og það er síður en svo, að ég fyrir mitt leyti hafi nokkuð við hans yfirlýsingu að athuga. Eins og hann tók fram, er þar skólahús, sem er ekki notað að neinu ráði a. m. k., og sýnist að því leyti haganlegra að nota það í þessum tilgangi heldur en að láta það standa autt.

Út af brtt. hv. þm. Barð. vil ég segja það, að mér virðist, að það sé nokkuð sama, hvort fyrri brtt. hans eða brtt. n. er samþ. — nokkuð sama, því þó að gr. eigi að byrja eftir hans till. þannig: „Húsmæðrakennaraskóli skal starfa í Reykjavík“ — þá er það ekki of fast bundið, vegna þess að bætt er við: „eða á þeim stað öðrum, er fræðslumálastjórninni kann að þykja hentugri fyrir skólareksturinn“. Og ég skildi hæstv. ráðh. svo, að hann mundi ákveða skólastaðinn á Akureyri, hvor till. sem samþ. yrði. Ef tilgangurinn með þessu frv. er sá á annað borð að flytja skólann, þá er a. m. k. ekkert réttara að vera að taka það fram, að hann skuli vera í Reykjavík eða á öðrum stað.

Ég geri samt yfirleitt ekki mikinn ágreining út af þessari fyrri till. hv. þm. Barð. En um síðari till. hans er það að segja, að ég fyrir mitt leyti er alveg mótfallinn að fella niður 39. gr. l. Hv. þm. sagði, að það væri engin ástæða til að hafa heimavist í skólum í bæjum. Það kann nú að vera að því leyti, sem skólarnir eru fyrir bæjarbúa, að það megi segja þetta um almenna skóla. En ég tel, að það gegni töluvert öðru máli um þennan skóla heldur en aðra skóla, og þótt ákveðin sé heimavist við þennan skóla, þegar hann fær eigið húsnæði, þá sé það ekki gert í sama tilgangi og heimavist er við suma aðra skóla. Ég tel, að það sé þá gert vegna kennslunnar, að hún komi að betri notum. Ég skal að vísu játa, að ég hef lítið vit á húsmæðrakennslu — og kannske ekkert að segja má og þá kannske enn síður á því, hvernig að skuli fara að mennta húsmæðrakennaraefni. En það skilst mér þó, að alltaf hljóti að vera betra, þegar um menntun húsmæðraefna eða húsmæðrakennaraefna er að ræða, að þær venjist í skólanum heimilishaldi, komi ekki aðeins í tíma og læri þar sín fræði, heldur taki þátt í heimilishaldi, og það sé hluti af þeirra námi að starfrækja heimili, sem mundi vera í heimavist í slíkum skóla. Þess vegna tel ég, að það, sem hv. þm. minntist á heimavistina í menntaskóla Akureyrar, komi ekki þessu máli við í raun og veru. Heimavistin í menntaskóla Akureyrar er auðvitað sett til þess að létta undir með þeim nemendum, sem eiga ekki heima á Akureyri, að sækja skólann, en það tel ég ekki höfuðtilganginn með 39. gr. þessara l., sem hér er rætt um að breyta, heldur þann, sem ég áður sagði.

Annars, þótt það komi ekki þessu máli við, þá er það auðvitað ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að veran í heimavist menntaskólans á Akureyri sé nemendunum kostnaðarlaus. Auðvitað þurfa þeir að borga fæði fullu verði þar, og ég hygg, að þeir borgi einhverja litla húsaleigu, a. m. k. var það svo í minni tíð fyrir mörgum árum, þegar ég var þar í heimavist, að þá var ofur lítil húsaleiga greidd. Það er nú kannske ekki til frægðar fyrir mig að vita það nú ekki, hvort þetta er svo enn, þar sem sá skóli er svo nálægt mér. Ég skal játa, að mér er þetta ekki vel kunnugt, en ég hygg, að það sé einhver lítil húsaleiga greidd, en að það sé ekki með öllu kostnaðarlaust. En svo kom í lokin mergurinn málsins hjá hv. þm. Hann sagðist sakna þess, að þessi skóli yrði fluttur úr höfuðstaðnum, en það getur verið skiljanleg ástæða Reykvíkings. En mér finnst það vera dálítið einkennilegt hér á landi, að allar stofnanir, sem eru fyrir landið í heild sinni, skuli endilega vera bundnar við höfuðstaðinn. Þetta, sem ég segi um það, kann nú að álítast Reykjavíkurhatur, en mér finnst það ekki vera, og ég held, að það væri atriði í því máli, sem nú er talað um, að halda við jafnvægi í byggð landsins, að binda ekki hverja einustu stofnun við Reykjavík, alla skóla, eða hér um bil alla skóla, sem hafa þýðingu fyrir landið í heild sinni, og ekki einasta það, heldur ýmsar aðrar stofnanir. Ég hef t. d. ekki skilið, hvers vegna allir bankar landsins eiga endilega að vera í Reykjavík. Ég veit til þess, að sjálfstæðir bankar annars staðar í löndum eru hér og þar um löndin, en alls ekki allir í höfuðstaðnum. En þetta virðist vera föst stefna hér á Íslandi, að allt skuli vera í Reykjavík, sem hefur almenna þýðingu fyrir þjóðina.

Ég skal ekkert segja um það, hvort sú yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf hér, að hann mundi ákveða, að skólinn yrði staðsettur á Akureyri, ef frv. yrði samþ., hefur einhver áhrif á meðnm. mína, en ég er sízt af öllu ófúsari að samþ. frv. eftir að hafa heyrt þá yfirlýsingu. Ég hef heyrt útundan mér, að einhverjum þætti rétt vegna þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðh., að umr. væri frestað og málið tekið út af dagskrá nú og menntmn. tæki það til nýrrar athugunar vegna þessarar yfirlýsingar. Hv. form. menntmn. getur sagt um það, hvort hann óskar þess, og auðvitað ræður hæstv. forseti því, hvort hann frestar málinu eða ekki, en ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til að bera fram þá ósk. Ég er engu síður reiðubúinn að greiða atkv. um málið eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hæstv. ráðh. heldur en ég var áður.