08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. meiri hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætti nú sennilega að hafa mjög stutta framsögu fyrir þessu máli og hef það nú reyndar, því að ég hef litla þekkingu á því nema þá, sem ég hef fengið af þeirri ýtarlegu grg., sem liggur fyrir í þessu máli.

Það hefur verið lögð veruleg áherzla á það, a. m. k. af sumum hæstv. ráðherrum, að þetta mál gengi fram, enda er málið komið, eins og aths. við frv. bera með sér, frá ríkisstj. Þremur mönnum, þeim Ólafi Jóhannessyni prófessor, Kristjáni Guðlaugssyni hæstaréttarmálaflutningsmanni og Jóhannesi Elfarssyni stjórnarráðsfulltrúa, hefur verið falið að athuga þetta mál, og þeir hafa lagt til, að þær breytingar verði gerðar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Af frv. sjálfu er ekki auðvelt fyrir hv. þm. að átta sig á því, hvaða breyting er hér gerð, því að eins og 1. gr. ber með sér, þá er vísað til 22. gr. laga um rithöfundarétt og prentrétt. En sú breyting, sem raunverulega er gerð með þessu móti, er sú, að rithöfundar og aðrir listamenn hafa verndun á verkum sínum, ef þetta frv. verður að lögum, í 50 ár í stað 10.

Það er rakið hér í þessari grg., að með því að ganga í Bernarsambandið gerðist það, að við fengjum vernd fyrir okkar listamenn í 10 ár á þeirra andans verkum og aðrir, sem eru í Bernarsambandinu ásamt okkur, hafa sín verk vernduð hér jafnlangan tíma frá því, að frumritið kemur út af bók eða öðru andans verki.

Þessi breyting, sem hér er farið fram á að verði gerð, er raunverulega, eins og tekið er fram í grg., engin breyting á þessu sambandi. Það er enn fremur augljóst af því, sem þessir þrír menn, sem falið var að rannsaka þetta mál, rekja hér í þessari grg., að samkvæmt Bernarsáttmálanum er hægt að fá tryggð andleg verk lengur en 10 ár, þó að við höfum ekki gengið undir þann samning fram að þessu. En þar sem það liggur fyrir, að mörg ríki hafa ekki gerzt aðilar að Bernarsáttmálanum, þá hafa Sameinuðu þjóðirnar — eða ein deild þeirra — beitt sér fyrir því, að þetta sérstaka samband yrði stofnað til þess að vernda andleg verk gagnkvæmt milli þeirra þjóða, sem í sambandið ganga, og kemur því þetta samband við hliðina á Bernarsáttmálanum. En jafnframt verður sú breyting á gerð, að samkvæmt þessum nýja sáttmála eru andans verk þeirra þjóða, sem eru í sambandinu, vernduð í 50 ár í stað 10, eins og segir hér í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Gildi allsherjarsamningsins“ — þ. e. samnings um þetta nýja samband, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir — „liggur þess vegna aðeins í því,“ — það kemur mjög greinilega fram í þessum orðum, hvað hér er um að ræða — „að með honum er stofnað til gagnkvæmrar verndar höfundaréttinda í fleiri löndum en Bernarsambandið tekur til. Hann má því skoða sem eins konar viðbótarsamning við Bernarsáttmálann,“

Þær þjóðir, sem þessir gagnkvæmu samningar mundu ná til utan við Bernarsáttmálann, eru taldar upp hér ofarlega á 4. bls. í grg., og eins og þeir þrír menn, sem hafa athugað þetta mál, benda á, er þetta samband ef til vill ekki mjög mikils virði fyrir okkur nema þá sérstaklega gagnvart einu stórríki, Bandaríkjunum. Hin ríkin eru að vísu merk menningarríki, en ég hygg, að það sé rétt, eins og þeir komast þarna að orði, að það er ekki mikið af bókum þýtt úr málum þeirra þjóða. Og þeir benda jafnframt á það, að ef til vill hefði mátt gera sérstakan samning við Bandaríkin um þessi mál án þess að ganga í þetta samband. Þó er það svo, að þeir leggja einróma til, — og á það hefur ríkisstj. fallizt eða menntmrh., sem stendur að því, að þetta frv. er hér borið fram, — að við gerum þennan allsherjarsamning og breytum löggjöf okkar eins og frv. fer fram á, til þess að svo megi verða, þ. e., að í stað 10 ára tímabilsins í 4. gr. ætti almenna verndartímabilið, ævi höfundar og 50 ár að auki, að gilda um þýðingar.

Þetta er það, sem gera á og gert verður, ef þetta frv. verður að lögum, að við göngum í þetta allsherjarsamband til viðbótar Bernarsáttmálanum og verndartíminn lengist, eins og ég hef tekið fram. Það er hér lögð áherzla á það, eins og þessir þrír ágætu menn leggja til, að við göngum í þetta samband og samþykkjum þetta frv., til þess að svo megi verða, að Norðurlönd hafi gengið í þetta samband. Hér er einnig skýrt frá till. samnorrænnar nefndar um löggjöf, sem snertir vernd höfunda, eins konar höfundalög fyrir Norðurlönd, og í því samstarfi er gert ráð fyrir, að sameiginleg löggjöf verði fyrir öll Norðurlönd, og byrjað að vinna að því máli, og telja þeir því eðlilegt, m. a. af þeirri ástæðu, að við göngum í þetta samband og förum þar sömu leiðina og Norðurlandabúarnir hinir.

Ég hef þá lagt málið fyrir í höfuðatriðum eins og það er skýrt hér í grg. Að vísu er það svo, að nál. allshn. ber með sér, að n. er alls ekki sammála um þetta mál. Einn af nm., hv. þm. Seyðf. (LJóh), er algerlega andvígur þessu frv., og má gera ráð fyrir því, að hann komi með sínar till. við 3. umr. Það ætti ekki að saka, þó að hann sé ekki hér viðstaddur núna við 2. umr. Hann getur að sjálfsögðu komið fram með allar sínar aths. við 3. umr. sem og hver annar, og eðlilegast held ég að væri nú að láta málið ganga, ef hægt væri, til 3. umr. án verulegra umræðna, því að það má búast við því, að af hans hendi komi fram meginathugasemdirnar. Það er hv. þd. kunnugt af því, sem gerzt hefur í hv. Sþ., að hann er mjög andvígur þessu máli.

Ég er þeirrar skoðunar, að ef það hefur verið rétt, að við gengjum í Bernarsambandið, þá sé það a. m. k. ekki óeðlilegt, að við stígum einnig þetta skref. En hitt tel ég a. m. k. atriði, sem má um deila, hvort það hafi verið rétt, að við gengjum í Bernarsambandíð. — Í raun og sannleika er þetta, sem hér er farið fram á, ekki veruleg breyting önnur en sú, að með því að ganga inn í þetta nýja samband nær vernd fyrir íslenzka rithöfunda sérstaklega og aðra þá, sem andleg verk skapa, til fleiri ríkja en áður og verndartímabilið er lengra, eins og ég hef tekið fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál. Þeð kemur fram í nál., að það eru fleiri en hv. þm. Seyðf., sem eru a. m. k. mjög á báðum áttum um þetta mál og hafa áskilið sér rétt til þess að hafa þá afstöðu til málsins, sem þeir að lokinni þessari umr. telji eðlilegasta, — mæla raunverulega ekki með frv. nema með þeim fyrirvara.