08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki, herra forseti, ganga inn á sjálft málið, en mér þykir afar óviðkunnanlegt og það er óvenjulegt á Alþingi að taka fyrir mál, sem ekki er komið minnihlutaálit um, alveg sérstaklega þegar viðkomandi maður, þm. Seyðf. (LJóh), hefur verið veikur og boðað forföll. Það hefur komið fyrir, að forseti hafi beitt því, þegar ætla má, að átt hafi að svæfa mál. En hér er ekki neinu slíku til að dreifa, heldur eingöngu því, að þm. Seyðf. er veikur og forseti sjálfur tilkynnir hans veikindaforföll, en tekur þó málið fyrir með afbrigðum til að fá það afgreitt. Mér þykir það afar óviðkunnanlegt, og satt að segja vil ég mótmæla því og biðja hæstv. forseta að athuga, hvort hann geti ekki beðið með málið, þangað til hv. þm. Seyðf. hefur tækifæri til að skila sínu áliti.