23.10.1953
Efri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2221)

57. mál, almannatryggingar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða um efni þessa frv. á þessu stigi, en hv. fyrri flm. lagði til, að frv. yrði vísað til fjhn., sem ég á sæti í. Ég álít, að þetta mál eigi annars staðar heima en í fjhn., þó að segja megi, að till. hv. flm. væri eðlileg afleiðing af því, hvernig hann reifaði málið, því að hann fjallaði um þetta mál aðallega sem skattamál. En það hefur nú ekki hingað til verið litið svo á, að iðgjöld í tryggingum, hverjar sem þær eru, væru skattur í þeirri merkingu, sem hingað til hefur verið lögð í orðið skattur. Þess konar mál, tryggingamálin öll, hafa undanfarið, ef ég man rétt, verið í heilbr.- og félmn. deildanna, og mér finnst það sá rétti vettvangur fyrir slík mál, því að þetta er þó frv. til l. um breyt. á vissum kafla laga um almannatryggingar, en ekki á skattalögum. Ég geri því það að till. minni, að frv. sé vísað til hv. heilbr.- og félmn.