23.10.1953
Efri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

57. mál, almannatryggingar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get alls ekki fallizt á það, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagði, að hér væri eingöngu um skattamál að ræða. Hér er í sjálfu sér um meira að ræða, þó að frv., ef það yrði að lögum, mundi vitanlega hafa áhrif á opinbera skatta. Mér virðist vera um það að ræða í þessu frv., hvort á að afnema tryggingarnar sem tryggingar, en í staðinn taka upp opinbera framfærslu. Kostnaður við þá opinberu framfærslu, sem kæmi í staðinn, er að vísu stórt fjárhagsmál og afleiðingarnar af því mundu heyra undir þær nefndir þingsins, sem um fjármál fjalla. En ég held, að það væri ekki úr vegi, að heilbr.- og félmn. tæki það til athugunar fyrst, einmitt hún og ekki önnur n., hvort það á að gera þá gagngerðu breytingu, að opinber framfærsla komi í staðinn fyrir eiginlegar tryggingar. Ég held þess vegna fast við mína till. um, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.