30.11.1953
Efri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

57. mál, almannatryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Það var aðeins lítil athugasemd. Hv. frsm. sagðist vera ákaflega ánægður með ræðu sína, því að hún hefði verið svo sterk, að hann sagðist hafa séð það á mér, að ég hefði verið mjög í efa, hvort ég ætti að taka til máls; svo sannfærandi hafi hún verið, að hann hafi ekki getað betur séð en hún hafi sannfært mig, ég hefði ætlað að láta hjá liða að svara henni. Nú er þetta í raun og veru alveg rétt, að ég var í nokkrum efa um það, hvort ég ætti að taka til máls. Það var vegna þess, að ég hef heyrt þessa ræðu á hverju einasta þingi, ég man nú ekki hvað oft, stundum svona þrisvar — fjórum — fimm sinnum á hverju þingi og svo að segja á hverju einasta þingi, meðan við höfum verið á þingi saman, síðan 1942, minnir mig. Náttúrlega hefur þessari ræðu ekki verið nærri eins oft svarað, það skal ég játa, en líka ákaflega oft, og ég hef svarað henni m. a. og að mér finnst þannig, að það stendur ekki steinn yfir steini hjá hv. þm. Að þessu athuguðu er það rétt, að ég var í nokkrum vafa um, hvort ég ætti að svara þessu. Satt að segja var ég orðinn næsta leiður á þessum umræðum og taldi ekki neina þörf á því að endurtaka þær hér.

Hv. þm. viðurkennir nú, að það sé rétt, sem tekið er fram í grg. frv., að tollarnir og óbeinu skattarnir nemi 15 þús. kr. að meðaltali á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Því mótmælir hv. þm. ekki, en hann sagði hins vegar, að það væri rangt, að hver einasta og hver einstök fimm manna fjölskylda í landinu þyrfti að greiða svona mikið fé. Hver hefur sagt það og hvenær? Ég veit ekki til þess, að nokkur hafi sagt það. Það stendur a. m. k. ekki í þessari grg., og aldrei hef ég haldið því fram. Hér stendur aðeins: „Í þessu sambandi er rétt að taka það fram, að ríkissjóður sækir nú í vasa hverrar fimm manna fjölskyldu að meðaltali sem svarar 12 þús. kr. í tollum og óbeinum sköttum, og 15 þús. kr. ef ágóði af einkasölum er talinn með.“ — Um þetta þarf ekki að ræða, það er ekkert annað en barnaskapur að vera að jagast um svona lagað. Við erum báðir sammála um það, ég og hv. frsm., að þetta er rétt; tollarnir og óbeinu skattarnir nema að meðaltali þessum upphæðum.

Þá sagði hv. þm., að það væri ekki rétt, að sá hluti tollanna og óbeinu skattanna, sem legðist á vörur, sem keyptar eru eða verzlað er með af fyrirtækjum, leggist að lokum á almenning, og tók útgerðina sem dæmi. Ég held því aftur á móti fram, að þeir tollar, sem útgerðin þarf að greiða, leggist að lokum á almenning, og það veit hv. þm. Hann veit, að þeir tollar, sem útgerðin greiðir og valda því m. a., að allmikill hluti útgerðarinnar er rekinn með tapi, verða til þess, að það þarf að leggja hærri skatta á almenning.

Þá sagði hv. þm., að mikill hluti af gróða fyrirtækja, þegar hann væri orðinn hár, færi í skatta, svo sem eins og gróði olíuverzlananna. En það er einmitt þetta, sem hv. þm. vill afnema. Hann vill afnema tekjuskattinn, þannig að ekki þurfi að borga neinn hluta af þessum gróða. Ég aftur á móti benti á, að það ætti að taka allan þennan gróða, ekki 90% af nokkrum hluta hans, þegar upphæðin er orðin svo og svo há, heldur 100%.

Hv. þm. nefndi sem rökstuðning fyrir máli sínu m. a. það, að vegna skattanna væri vinnutími skipstjóra ekki eins langur og ella mundi vera. Þetta var eina röksemdin, sem hv. þm. gat fært fram fyrir þeirri fullyrðingu sinni, að menn létu hjá líða að auka tekjur sínar vegna skattanna. Ég held nú, að þetta dæmi hafi ekki verið vel valið, því að ég tel, að það væri engin bót í því, að skipstjórar legðu á sig meiri vinnu en þeir gera nú.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði haldið því fram, að hans skoðun væri sú, að það ætti að hækka skatta á lágtekjum, þegar skattalögunum yrði breytt, en lækka þær aftur á háum tekjum. Ég sagði þetta aldrei. Ég sagði aðeins, að samkvæmt hans röksemdafærslu og samkvæmt hans lýsingu á því, hver væri tilgangurinn með breytingu á skattal., þá lægi það í hlutarins eðli, að tilgangurinn væri fyrst og fremst sá að lækka skatta á hátekjum. Það leiddi af röksemdafærslu hv. þm., og einmitt út frá þeirri röksemdafærslu óskaði ég eftir því að fá á því staðfestingu hjá hæstv. ríkisstj., hvort það væri rétt skilið. — Ég get ekki sagt, að ég sé samþykkur þeirri rökst. dagskrá, sem hér er borin fram af hv. n. En hitt sagði ég, að eftir atvíkum gæti ég sætt mig við hana, og mér þykir miklu betri þessi afgreiðsla en hitt, að málið hefði enga afgreiðslu fengið, því að í þessari afgreiðslu felst, að það er til þess ætlazt, að þessar till. verði teknar til rækilegrar athugunar, þegar heildarendurskoðun l. fer fram á næsta ári. Þetta get ég sætt mig við eftir atvikum, því að satt að segja var mér ósköp vel kunnugt um samsetningu þessarar hv. d. og þessarar hv. n., áður en nál. kom fram.