16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég skuli ekki hafa fengið ástæðu til að þakka hv. sjútvn. fyrir það, hvernig hún leggur til, að afgreitt verði frv. mitt á þskj. 222 um Sjóvinnuskóla Íslands.

Þó að mér þyki líklegt, að sýnt sé, hver verða örlög þessa máls að sinni, og langar ræður fái engu þar um breytt, þá sé ég ástæðu til að fara nokkrum orðum um nál. og þá till. sjútvn. að afgreiða það með rökstuddri dagskrá.

N. hefur, eins og frsm. gat um, sent frv. til tveggja aðila, Fiskifélags Íslands og skólastjóra stýrimannaskólans. Þetta var í alla staði eðlilegt og gott að fá umsögn þessara aðila, þótt ég hefði einnig talíð vel við hæfi, að leitað væri álits Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, svo og þeirra sjómannafélaga, sem auðveldlega varð til náð. Það hefur hins vegar ekki verið gert, og tel ég það heldur miður farið. Um afstöðu Farmannasambandsins er vitað, að það hefur margsinnis gert samþykktir um nauðsyn stóraukinnar kennslu í sjóvinnu, og margar hvatningargreinar um það mál hafa verið birtar í blaði sambandsins.

Álit þeirra tveggja aðila, sem hv. sjútvn. sendi frv. mitt til umsagnar, er prentað hér sem fskj. með nál., og þarf ég því ekki að fjölyrða um þau álit. Skólastjóri stýrimannaskólans mælir með frv., bendir að vísu á nokkrar breytingar, eins og frsm. gat um, og þær eru aðallega í því fólgnar að takmarka nokkru meira en ráð var fyrir gert í frv. námsefnið. Skólastjóri stýrimannaskólans kemst svo að orði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á því er enginn vafi, að vinnuskóli fyrir unglinga, sem ætla að gera sjómennsku að atvinnu sinni, væri hin þarflegasta stofnun hér á landi. Það mun vera svo um flesta, sem ráðast í skiprúm í fyrsta sinn, að þeir kunni lítið sem ekkert til algengrar sjóvinnu, og algengt er einnig, að jafnvel eftir tveggja til þriggja ára siglingartíma á skipum sé kunnáttu þeirra enn mjög ábótavant í þessum greinum. Að nokkru leyti getur það stafað af skorti á áhuga hjá þeim sjálfum, en oft stafar það af vöntun á tækifærum til æfinga, því að þegar nóg er að starfa fyrir alla, eru hin vandasamari störf, svo sem smeygingar á köðlum og vírum, netabætingar og vinna við segl og reiða falin vönum mönnum, og unglingarnir koma þar þá lítið nærri.

Á stýrimannaskólanum er á hverjum vetri haldið uppí nokkurri kennslu í verklegum efnum, og var sú kennsla á sínum tíma tekin upp fyrir áeggjan Sveinbjarnar heitins Egilssonar og af brýnni nauðsyn á að bæta um hirðusemi og verkkunnáttu skipstjórnarmanna, einkum á fiskiskipaflotanum. Nú er vitað, að ekki fer nema minni hluti íslenzkra sjómanna á stýrimannaskólann, en hins vegar æskilegt, að sem flestir læri þessi störf. Á stýrimannaskólanum eru heldur ekki tök á að kenna nema takmarkaðan hluta þess, sem t. d. fiskimenn þyrftu að kunna í gerð alls konar veiðarfæra, og væri starfandi skóli, sem veitti ungum sjómönnum alhliða kennslu í verklegum efnum, mætti að mínum dómi leggja niður þessa kennslu við stýrimannaskólann, en krefjast í þess stað af nemendunum kunnáttuvottorðs í þessum fræðum frá sjóvinnuskólanum. Þá sæi ég heldur ekkert því til fyrirstöðu, að námstími ásamt prófi frá sjóvinnuskólanum yrði látið gilda sem hluti af þeim siglingatíma, sem krafizt er til inngöngu í stýrimannaskólann. Ég tel því, að frv. þetta stefni í rétta átt, en að á því þurfi að gera breytingar, áður en það verður að lögum.“

Þetta eru ummæli Friðriks Ólafssonar skólastjóra stýrimannaskólans. Fer hann síðan nokkrum orðum um þær breytingar, sem hann telur æskilegt að gerðar verði á frv.

Hv. sjútvn. hefur valið þann kostinn að ganga gegn áliti skólastjóra stýrimannaskólans, sem telur sjóvinnuskóla nauðsynlegan, en hallast hins vegar eindregið að áliti fiskimálastjóra. Fiskimálastjóri viðurkennir að vísu í svari sínu til n., að sú grundvallarhugsun, sem fram kemur í frv., sé rétt. Hins vegar lítur hann svo á, að Fiskifélag Íslands geti með sjóvinnunámskeiðum í verstöðvum veitt þá fræðslu, sem nauðsynleg er í þessu efni, jafnframt því sem verknámsdeildir gagnfræðaskólanna þurfi að auka kennslu þá í sjóvinnu, sem tekin hafi verið upp á fáeinum stöðum. Þetta tvennt telur hv. sjútvn. þá lausn, sem æskileg sé í sambandi við sjóvinnukennslu. Víð þetta vil ég leyfa mér að gera fáeinar athugasemdir.

Að því er varðar sjóvinnunámskeið Fiskifélagsins, sem fiskimálastjóri gerir allmikið úr, vil ég segja þetta: Slík námskeið hafa að vísu verið haldin á nokkrum stöðum, en ég hygg, að ég geri engum rangt til, þó að fullyrt sé, að þau hafi verið haldin við erfið skilyrði og af töluverðum vanefnum. Viðurkennir fiskimálastjóri einnig, að takmörkuð fjárhagsgeta hafi sett þessari starfsemi þrengri skorður en æskilegt hefði verið. Það er vafalaust rétt, að fjárskortur til starfseminnar hefur háð þessari viðleitni, en hitt er jafnvíst, að fleira hefur orðið henni fjötur um fót, og þá einkum það, að enginn ábyrgur aðili hefur sinnt þessu sem aðalstarfi. Því hefur skipulag allt verið í molum.

Að því er varðar aukna sjóvinnukennslu við verknám gagnfræðaskólanna er það að segja, að hún er að sjálfsögðu mjög æskileg, en virðist eiga töluvert langt í land og getur engan veginn komið í staðinn fyrir sjálfstæðan sjóvinnuskóla. Hitt þykir mér sennilegra, að því aðeins eigi slík verknámskennsla gagnfræðaskólanna eftir að þróast í æskilegt horf, að til sé sérstakur aðili, sem hafi það verkefni með höndum að skipuleggja alla kennslu í sjóvinnu og veita þá fyrirgreiðslu um kennslukrafta kennslutæki og annað, sem nauðsynleg er. Slíkur aðili á einmitt sjóvinnuskólinn að vera.

Ég er sannfærður um það, að stóraukin kennsla í sjóvinnu er svo brýnt nauðsynjamál, að það verður ekki stöðvað til langframa. Svo mun fara hér á landi eins og í nágrannalöndunum, að um þetta efni verður vafalítið sett sérstök löggjöf og óháðri stofnun falið að hafa forustu um framkvæmdir. Við það verður ekki unað til langframa, að forstaða sjóvinnunámskeiða sé tiltölulega lítilsvirt hjáverk manna, sem eru önnum kafnir við önnur störf og geta því ekki, þótt þeir gjarnan vilji, sinnt þessu umfangsmikla verkefni sem skyldi. — Þó að þessu frv. mínu um sjóvinnuskóla verði nú vísað frá, eins og hv. sjútvn. leggur til, þá er ég sannfærður um, að hugmyndin um sjálfstæðan sjóvinnuskóla verði tekin upp aftur og hlýtur að ná fram að ganga í einni eða annarri mynd.

Ég þykist naumast þurfa að taka fram eftir það, sem ég hef nú sagt, að ég get á engan hátt fellt mig við þá till. hv. sjútvn. að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá, sem ég að vísu tel miður vel rökstudda, og mun ég því greiða atkvæði gegn dagskrártillögunni.