16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú sjálfsagt þýðingarlítið, að við hv. flm. förum að rökræða þetta mál miklu meira en gert hefur verið, enda fáir hér til þess að hlusta á okkar málflutning, svo að einnig af þeim ástæðum sé ég ekki ástæðu til þess að vera mjög langorður.

Það, sem okkur ber á milli í meginatriðum, er það eitt, hvernig kennslunni skuli hagað. Við erum sammála um, að það sé æskilegt, að þessi kennsla sé veitt, en hann telur æskilegast, að hún verði veitt á þann hátt, að stofnaður verði í þessu skyni í Reykjavík sérstakur skóli, þar sem haldið sé eitt þriggja mánaða námskeið á ári og ef til vill nokkur önnur námskeið víðs vegar um land. Við aftur í sjútvn. höfum talið, að á meðan málið er á því tilraunastigi, sem það er enn þá óneitanlega, þá sé ekki ástæða til slíkrar skólastofnunar eins og sakir standa, heldur sé það æskilegast, að Fiskifélagið sé styrkt til þess að geta aukið þá starfsemi sína, sem fer nákvæmlega í sömu átt og flm. frumvarpsins vill fara með flutningi málsins á þann hátt, sem hann gerir.

Hv. þm. undraðist, að það skyldi hafa verið leitað umsagnar Fiskifélags Íslands frekar en t. d. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en ástæðan fyrir því, að umsagnar Fiskifélags Íslands var sérstaklega leitað, var sú, að Fiskifélagið hafði haft þessa starfsemi með höndum. Það hafði haldið námskeið og hafði þess vegna væntanlega fengið nokkra reynslu á þessu sviði, og Fiskifélag Íslands er eini aðilinn á þessu landi, sem hefur nokkra reynslu í þessu efni, því þótt samþykktir hafi verið gerðar um málið á þingum Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem ég engan veginn geri lítið úr út af fyrir sig, þá er þar með ekki fengin nein reynsla um það, hvernig þessu máli skuli hagað. Eina reynslan, sem fengizt hefur, og eini aðilinn, sem fengið hefur nokkra reynslu í þessum efnum, er þess vegna Fiskifélag Íslands, sem hefur haft þessa starfsemi með höndum.

Hv. þm. sagði, að sjútvn. hefði kosið að ganga gegn tillögum skólastjóra stýrimannaskólans í þessu máli. Ég hef lesið vandlega umsögn skólastjóra stýrimannaskólans um málið, og sannast sagna finnst mér hann ekki taka ýkja djúpt í árinni í því að mæla með stofnun skólans. Ég viðurkenni að vísu, að það má fá það út úr hans umsögn, að hann mæli með því, að til skólans sé stofnað, en hann hefur ýmislegt við fyrirkomulagið að athuga, og ég er ekki viss um, að hann telji það form, sem sjútvn. leggur til, neitt lakara en það, sem lagt er til í frv.

Það, sem mér finnst vera kjarni þessa máls, er, að fræðslan sé veitt, en hitt, hvernig hún er veitt, sé miklu minna atriði. Hvort það er stofnað eitthvert sérstakt embætti hérna suður í Reykjavík eða skóli í þessu skyni, er ekki aðalatriðið í málinu. Aðalatriðið í málinu er, að fræðslan nái til þeirra ungmenna, sem þurfa á henni að halda, hvort sem það verður gert í skólaformi eða Fiskifélag Íslands og gagnfræðaskólarnir sjái um kennsluna. Þetta er eingöngu mat á því, á hvorn háttinn hægara verði að ná hinum tilætlaða árangri.

Hv. þm. fann nú ástæðu til þess í ræðu sinni að fara heldur óvirðulegum orðum um viðleitni Fiskifélagsins á þessu sviði, sem það hefur haft uppi. Hann sagði, að þeirri starfsemi hefði verið haldið uppi við erfið skilyrði og af vanefnum, og mátti út úr orðunum lesa það, að þess vegna hefði nú kannske ekki allt verið eins og skyldi, þ. e., að námskeiðin hefðu ekki náð tilætluðum árangri. Mér er nú að vísu ekki nákvæmlega kunnugt um þetta, en ég hygg, að hafi þar eitthvað verið af vanefnum gert og skilyrðin til námskeiðahaldsins verið erfið, þá væri hægara úr því að bæta og mundi kosta ríkið minni fjármuni og jafnvel eins góður árangur nást eins og þó að til sérstaks skóla í Reykjavík væri stofnað í þessu skyni.

Annað atriði, sem fyrir mér er líka talsvert mikið atriði, er það, að verknám gagnfræðaskólanna verði fært yfir í það hagrænasta form, sem hægt er að fá. Og það er enginn vafi á því, að þessi verkefni, sem hér eru til umræðu, eru eitt af því allra nauðsynlegasta fyrir unga pilta að læra. Þess vegna hefði ég haldið, að það væri mjög æskilegt, að eins mikið af þessari kennslu yrði einmitt upp tekið í verknámsdeildum gagnfræðaskólanna og mögulegt væri að koma þar fyrir, fyrir þá nemendur, sem þess kynnu að óska.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að kennslan verði þriggja mánaða námskeið á ári, og mér skilst, að þegar því þriggja mánaða námskeiði sé lokið, þá sé nemandinn þar með útskrifaður og þurfi ekki að koma þangað aftur. Nú er komið á í gagnfræðaskólum landsins, annaðhvort öllum eða þá a. m. k. velflestum, skyldunám í tvö ár, og ég efast ekkert um, að á því tveggja ára tímabili væri hægt að veita fræðslu í þessum efnum, ef vel væri á haldið, sem jafnaðist á við þriggja mánaða námskeið haldin hér suður í Reykjavík. Ég veit, að í velflestum verstöðvunum a. m. k. eru til kennslukraftar, sem gætu vel séð fyrir þessum málum, og það er trúa mín, að árangurinn af þessari starfsemi muni á þann hátt ekki verða lakari en þó að til sérstaks skóla yrði stofnað.

Ég vil undirstrika það, að till. sjútvn. er ekki af neinni andúð við málið sjálft, heldur er hún sprottin af því, að við teljum, að ekki lakari árangur mundi fást, ef farin væri sú leið, sem hér hefur verið lagt til að farin . verði af n. og Fiskifélagið hefur þegar prófað nokkuð, og sérstaklega þegar þar við bætist, að kennslan yrði tekin upp í gagnfræðaskólunum. En við erum hins vegar ekki þeirrar skoðunar eða þeirrar trúar, að sérstakt skólahald í þessu skyni mundi betrumbæta nokkuð þá kennslu, sem veitt yrði á þann hátt.