18.02.1954
Neðri deild: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

114. mál, Sjóvinnuskóli Íslands

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af þeim þrem atriðum, sem hv. flm. þessa frv. gerði hér að umtalsefni, skal ég leyfa mér að segja nokkur orð.

Þegar frv. var sent Fiskifélaginu til umsagnar, þá byggðist það, eins og ég sagði áður, á því, að Fiskifélagið hefur haft þessa starfsemi með höndum, en aðrir aðilar raunverulega ekki. Ýmsir kunna að hafa gert um það ályktanir, það má vel vera, en það er hins vegar ekki það sama og að hafa haft með höndum þau námskeið, sem hér um ræðir. Og svo má náttúrlega alltaf deila um það, hverjum á að senda og hverjum ekki eða hversu víðtækra umsagna á að leita um öll þau mál, sem frá Alþ. eru send til upplýsinga. Hins vegar fer það ekki fram hjá mér, að hv. flm. gerir í þessu máli á ýmsan hátt nokkurn mun á Fiskifélagi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Kemur það t. d. fram í því, að hann gerir í frv. ráð fyrir, að einn maður skuli tilnefndur í stjórn þessa skóla, ef stofnaður verði, frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, sem þó hefur ekki haft önnur afskipti af málinu en á pappírnum, en enginn frá Fiskifélaginu, sem þó hefur haft þau raunverulegu afskipti af málinu, sem lýst hefur verið. Munurinn á okkar afstöðu, sjútvn. annars vegar og hv. flm. hins vegar, er sá, að við vildum fyrst og fremst leita til þess aðilans, sem haft hefur málið raunverulega með höndum og þekkir það þess vegna bezt, en ekki leita til annarra aðila, þótt einhverjar samþykktir kunni að hafa um það gert.

Það var líka í þessu sambandi, sem mér fannst eins og hv. flm. léti liggja að því í sinni ræðu, þegar málið var hér til umr. síðast, að námskeið Fiskifélagsins hefðu nú kannske ekki verið eins góð og æskilegt hefði verið. En ef það hefur verið misskilningur hjá mér, þá skal ég ekki fara um það fleiri orðum, því að það má náttúrlega vel vera, að námskeið Fiskifélagsins hefðu getað verið betri, en það hefur þá fyrst og fremst verið vegna þess, að til þess skorti fé að halda þeim í því horfi, sem æskilegt hefði verið, en úr því mætti að sjálfsögðu bæta, og það væri hægara úr því að bæta heldur en að stofna til sérstaks skólahalds, eins og hér er gert ráð fyrir.

Um afstöðu skólastjóra stýrimannaskólans get ég verið stuttorður. Það er rétt, eins og ég hef alltaf sagt í þeim ræðum, sem ég hef haldið um málið, að skólastjórinn virðist vera þeirrar skoðunar, að skólann bæri að stofna, en það eru nánast öll atriði frumvarpsins, sem skólann snerta, sem hann gerir till. um breytingu á, bæði um kennarahald og námsefni. En það er óþarfi að fara lengra út í það. Ég er hins vegar sammála flm. um, að aðalatriðið í þessu máli er það, hvernig bezt verði kennt, og ég hef ekki heyrt borin fram af honum né annars staðar nein rök fyrir því, að því takmarki ætti að vera náð betur eða auðveldar með skólastofnun heldur en eftir þeim leiðum, sem sjútvn. leggur til að farnar verði, þ. e., að kennslan verði tekin upp í gagnfræðaskólum annars vegar og með námskeiðum hins vegar. En hins vegar er það augljóst, að það fyrirkomulag verður miklu kostnaðarminna en það, sem hv. flm. gerir ráð fyrir.