18.03.1954
Neðri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

30. mál, félagsheimili

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki miklu við álit minni hl. heilbr.- og félmn. að bæta umfram það, sem ég sagði í minni framsögu, þegar málið var lagt fyrir. Það er aðeins út af þeirri athugasemd frsm. meiri hl., að það væri miklum vandkvæðum bundið að marka línuna við önnur félög, ef verkalýðsfélögin fengju aðild að þessum styrktarsjóði félagsheimila, og benti þar m. a. á iðnaðarmenn og verzlunarmenn, sem stæðu þá mjög nálægt því. Ég vil aðeins benda frsm. og hv. meiri hl. n. á það, að iðnaðarmenn eru að meginhluta, allt að 80–90%, innan verkalýðssamtakanna, að verzlunarmenn undirbúa nú óðum komu sína í þessi samtök og hafa gert ítrekaðar tilraunir til að komast þangað, og stendur aðeins á formsatriðum, að þeir eru ekki innan verkalýðssamtakanna í dag. Þetta, sem bent var á af hv. frsm., eru þess vegna ekki röksemdir með því að fella málið, nema síður sé.

Ég vil ítreka þau ummæli minni hl. n., að frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það var lagt fram, og tel þá röksemd lítils virði, að verkalýðsfélögin séu, eins og frsm. sagði, ekki einvörðungu menningarfélög, eins og gert er ráð fyrir í hinum upphaflegu lögum, það sé a. m. k. að jöfnu menningaratriði í baráttu verkalýðsfélaganna eins og hitt, að hún sé eingöngu hagsmunabarátta. Ég legg því eindregið til, að farið verði að niðurstöðu minni hl. og frv. verði samþykkt.