29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

72. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Telja má, að það sé eðlilegt framhald a.f þeim umr., sem hér hafa fram farið um friðun rjúpunnar, að nú sé rætt lítils háttar um friðun laxins, en sá er munur á þessu tvennu, að því er haldið fram, að dráp rjúpunnar hafi engin áhrif á viðgang hennar, en hitt er ljóst og verður ekki mótmælt, að laxstofninn minnkar því meira sem hann er veiddur. Það er af þeirri ástæðu, sem ég hef lagt hér fram frv. um það, að laxveiðilögin frá 1941 nái þeim tilgangi sínum, sem þau greinilega stefna að, að ofveiði á laxi í net eigi sér ekki stað. En einu meginatriði þessara l. frá 1941 var breytt með dómi hæstaréttar, nr. 34 frá 1949, þar sem dæmt var um lögmæti veiðilagnar á veiðisvæði í Hvítá í Borgarfirði. Veiðibóndi einn hafði lagt net sín lengra út í ána en eftirlitsmenn laganna töldu, að rétt væri. Þetta mál fór fyrir dóm og síðan fyrir hæstarétt, og hæstiréttur dæmdi það, að bóndinn mætti leggja net sín út í miðja á. Þessi dómur byggist á því, að í l. eru tvær gr., sem nokkuð stangast á, þ. e. 31. gr. og 34. gr. l. Andi l. er sá, að laxveiðinet megi leggja frá bakka árinnar nokkuð í hlutfalli við það bil, sem er á milli lagnanna eftir endilangri ánni. En í umræddu máli um það svo, að bóndi við Hvítá lagði net út í ál í miðri á, — lögnin var að vísu ekki nema 20 metrar, en hún var talin lögleg, þó að hún væri lögð út frá eyri í ánni, vegna þess að í 34. gr. stendur, að með kvíslar í á skuli fara sem sérstök á væri. Þetta varð þess valdandi, að veiðibændur við Hvítá gátu eftir þetta lagt net sín um leirur árinnar í allar stórar kvíslar, þannig að svo að segja mátti þvergirða fyrir ána um allar leirurnar.

Ég hygg, að nokkuð sérstöku máli skipti um Hvítá í Borgarfirði í þessu efni, og það munu ekki vera aðrar ár hér á landi, sem líkt stendur á um.

Þetta varð svo til þess, að um ána voru lögð net þvert og endilangt, eins og ég hef tekið fram, og reynslan hefur raunverulega orðið sú, að stórlaxinn kemst ekki upp í bergvatnsárnar nema aðallega fyrri hluta vors, en smálaxinn kemst upp að sumrinu til, vegna þess að hann smýgur möskvana. Þetta er ákaflega varhugavert, vegna þess að þroskaði laxinn fær ekki tækifæri til að komast upp í bergvatnsárnar, þar sem hann á að hrygna.

Þessi breyting á l., sem hér er lögð fram, gengur í þá átt að breyta skilningi hæstaréttar, sem byggist á 34. gr. l., en stangast aftur á móti við 31, gr. l. Þetta er lagt fram til þess, að farið sé eftir upphaflegum anda l.. eins og gert var ráð fyrir í fyrstu, að net sé lagt út frá föstum árbakka. Sú eina breyting, sem hér er gerð að þessu leyti, er sú, að netalögnina skuli reikna frá föstum árbakka, en ekki frá kvíslum úti í miðjum ám. Ég hygg, að það geti ekki verið mikil deila um þennan skilning og að þessu beri að fylgja.

17. gr. l. kveður svo á um, að friða skuli lax og silung fyrir allri veiði annarri en stangaveiði 60 stundir á viku, frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess að hindra ofveiði í net í ánum. En þegar athuguð er sú veiði, sem fram fer í Hvítá, þá er sýnilegt, að þar er um mjög mikla ofveiði að ræða. Í Hvítá renna nokkrar af beztu bergvatnsveiðiám landsins. Til þess að laxinn komist upp í þessar veiðiár, þarf hann að fara gegnum Hvítá, og sú ofveiði, sem á sér stað að mínu áliti, fer fram áður en laxinn kemst í bergvatnsárnar og fær tækifæri til að hrygna.

Samkv. upplýsingum frá veiðimálastjóra, sem fylgja í grg. með frv., sést, að í net veiðist 57–65% af öllum laxi, sem veiðist í Borgarfirðinum, og það er ekki nokkur vafi á því, að með þessu móti er mjög gengið á rétt þeirra bænda, sem hagsmuna eiga að gæta í bergvatnsám. En eins og kunnugt er, eru bergvatnsárnar í Borgarfirðinum nú leigðar út fyrir stórfé og að sjálfsögðu talsvert mikil tekjulind fyrir marga bændur í Borgarfirðinum. Það ber líka á því, að laxinn gengur talsvert mikið til þurrðar í sumum ánum í Borgarfirðinum og einmitt þeim, sem beztar hafa verið taldar, og get ég þá helzt rætt um þá á, sem ég þekki bezt, Þverá í Borgarfirði, sem um eitt skeið var talin einhver bezta veiðiá í heimi. Laxinn þar hefur minnkað frá ári til árs s. l. 10 ár, þ. e. a. s., laxafjöldinn í ánni hefur greinilega minnkað og hefur aldrei verið minni en nú síðustu 2–3 árin. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ástæðunnar til þessa er að leita í þeirri miklu veiði, sem á sér stað í Hvítá í net og aðrar veiðivélar.

Ég álít þess vegna, að ekki sé neitt áhorfsmál, að nauðsynlegt er að friða laxinn lengur en nú er gert. Ég legg til, að í staðinn fyrir, að nú er hann friðaður í 60 stundir á viku, verði hann friðaður í 84 stundir á viku fyrir allri annarri veiði en stangaveiði. Þá hefur laxinn frið helming vikunnar til að komast áfram til hrygningarstöðvanna. Ég tel, að ekki megi skemmra ganga en þetta, ef laxinn, sérstaklega í Borgarfirðinum, einu bezta veiðisvæði landsins, á ekki að ganga til þurrðar.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.

Jörundur Brynjólfsson: Herra forseti. Þegar laxveiðilöggjöfin var sett á sínum tíma, þessi hin nýrri, sem ég ætla að hafi verið um 1932, þá var höfuðmarkmiðið með henni verndun hlunnindanna, verndun veiðinnar, að hún héldist við og heldur ykist. Var það gert með það fyrir augum, að hér væri svo mikilvæg hlunnindi um að ræða, að sjálfsagt væri af hálfu löggjafarvaldsins að reyna af sinni hálfu ekki eingöngu að tryggja viðhald þessara hlunninda, heldur, ef verða mætti, að auka þau.

Hjá okkur, sem undirbjuggum þá löggjöf og að henni stóðum, var þetta höfuðsjónarmið okkar, og það vildum við rækja með því frv., sem undirbúið var og var flutt hér á Alþ. Og hvað áhrærir, hverjir skyldu njóta hlunnindanna, þá held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að af okkar hálfu þriggja, sem undirbjuggum löggjöfina, var það fyrst og fremst fyrir þá menn, sem komu til með að búa á jörðunum, nytja þær og eiga eða þá leigja um tíma og fara þá með jarðirnar eins og sína eign að mestu leyti, eftir því sem landslög ákveða, — að það kæmi yfir höfuð þeim, sem búa á jörðunum, að notum. Það var ekki eingöngu fjármunanna vegna, sem þetta var af okkar hálfu lagt til, heldur líka vegna þeirrar hollustu, sem þessi hlunnindi veita þeim, er nýtur þeirra. Fyrst og fremst var það kannske einmitt vegna þessa atriðis ekki sízt, sem við vildum reyna að gera löggjöfina þannig úr garði, að þessi hlunnindi héldust við, og helzt af öllu, ef hægt væri að auka þau. En þar að auki kemur vitaskuld einnig til greina, þar sem góð skilyrði eru til fyrir veiði, án þess að of langt sé þó gengið í því efni, að þá er líka um mikil verðmæti að ræða og af sumum jörðum hefur verið um langa tíð mikil tekjulind auk þeirra nota af hlunnindunum, sem eru fyrir fólkið og heimilishald.

Nú er það hægara sagt en gert með einni allsherjarlöggjöf að gera hana þannig úr garði, að hún sjái fyrir því, að ekki geti orðið eitthvað ábótavant í framkvæmd að rækja þetta sjónarmið, sem ég hef nú hér minnzt á, og þannig hefur það líka farið, hvað mikið treysti ég mér ekki til þess að segja um, en hitt er víst, að að öllu leyti hefur ekki náðst sá tilgangur, sem við höfðum með undirbúningi laganna og vafalaust hefur vakað fyrir Alþ., þegar löggjöfin var sett.

Til enn frekari tryggingar því, að þetta tvíþætta hlutverk yrði rækt, voru sett ný ákvæði inn í þessa löggjöf um félagsveiði, þ. e. a. s. um samtök við ár- eða vatnahverfi hjá þeim mönnum, sem veiðirétt áttu og notuðu jarðirnar eða þá höfðu not veiðiréttarins, og þá á ég fyrst og fremst við ábúendur jarða, hvort sem jarðirnar voru í sjálfsábúð eða í leiguábúð. Fram til þess tíma hafði þess ekki gætt svo mjög, að stangaveiði væri stunduð hér á landi í neitt stærri stíl eða almennt. Það var að vísu þekkt, að útlendingar höfðu stundað hér við örfáar ár stangaveiði, sem sé Englendingar, en sú stangaveiði hjá þeim flestum eða öllum fór víst þannig fram, eftir því sem ég hef haft beztar fregnir af, að ekki var talið, að veiðinni stafaði nein hætta af því eða of langt væri í því gengið að draga fiskinn á land. Ég ætla þvert á móti, að það hafi verið álit manna, að Englendingar stunduðu þannig stangaveiðina, að hún væri meira þeim til gamans, að fást við laxinn, verða hans varir á stönginni ofur lítið daglega, en ekki með það fyrir augum að draga sem mestan fisk á land, og þegar það var ekki almennt, ekki nema við fáar ár og örfáir menn, þá gat tæpast verið um það að ræða, að af slíkri veiðiaðferð stafaði nokkur hætta.

Hvað þetta atriði áhrærir, þá er mjög breytt frá því, sem var áður. Íslendingar hafa nú leigt ár til stangaveiði víðs vegar um landið, og mjög margir hafa þeir með sér félagsskap, sem ekkert er nema gott um að segja í sjálfu sér, og í honum eru nokkuð margir menn. En ég býst við því, að stangaveiði sé stunduð af þeirra hálfu með nokkuð öðrum hætti en var hjá Englendingunum, það sé lögð meiri áherzla á veiðiskapinn með stönginni, og það sjónarmið áreiðanlega ríkjandi hjá sumum þeirra að ná sem mestum fiski, hafa hagnað af því, og nokkurn veginn er það þá víst, að þá er ekki haft svo sérstaklega í huga um viðhald fiskistofnsins.

Ég held, að það sé ekki skakkt álitið, að frá því, þótt ekki sé lengra vitnað aftur í tímann, að veiðilöggjöfin var sett, hafi orðið mjög mikil breyting einmitt, í þessu efni. Vera má, að þar við bætist og, að veiðivélarnar séu nokkuð öðruvísi úr garði gerðar nú en var, en þó veit ég ekki, hvort á því er mikill munur. Ég veit reyndar vel, að um það bil er laxveiðilöggjöf sú, sem ég hef nú verið að gera að umtalsefni, var sett, áttu sér stað, eins og t. d. austur í Árnesþingi við Ölfusá, fastar veiðivélar, og lengd þeirra mun hafa numið mörg hundruð metrum, 1300, 1400, 1500 metra langar girðingar, sem settar voru í Ölfusá. Þeir, sem veiðiréttinn áttu neðst í ánni, Eyrbekkingar, höfðu leigt nokkrum Reykvíkingum veiðina, og þeir settu þessar föstu veiðivélar niður. Þess varð og fljótt vart eystra, hver áhrif slíkur útbúnaður hafði, því að á beztu veiðijörðunum rétt fyrir ofan ósa Ölfusár var að kalla nærri orðið veiðilaust, þegar þessar veiðivélar höfðu staðið þarna nokkur ár. Til þess að koma í veg fyrir framhald á slíkum aðförum var veiðifélagsskapur myndaður í Árnessýslu ánum til verndar, og þá var um líkt leyti tekin upp stangaveiði við bergvatnsárnar, því að talið var hyggilegra að leyfa ekki aðra veiði í þeim, nema þá silungsveiði í lagnet, og ætla ég, að sú veiði yfirleitt í vatnahverfinu eystra hafi ekki gert mikinn usla, sízt í laxinum, þó að vafalaust komi það fyrir, að lax ánetjast lítið eitt í silunganetjum, en mikil brögð hygg ég að geti ekki orðið að því.

Nú verð ég að segja það, að því miður hefur nú þannig tekizt til hjá okkur eystra, að við höfum orðið of lítið varir við fiskiaukningu á okkar vatnasvæði. Félagið eitt hefur stundað lagnetjaveiði á laxi, aðeins eitt, og á einum til tveim stöðum á sumri hverju, að undanskildum — að ég ætla — tveim sumrum, sem engin veiði var stunduð. Nú er þessi aðferð hjá okkur búin að standa milli 10 og 20 ár, komin nokkuð á annan áratuginn, og því miður er ekki að sjá neina aukningu á laxi hjá okkur. Veiðiskýrslurnar, sem koma um þetta efni, benda ekki til þess, og verð ég að segja, að eftir því sem félagið sjálft hefur veitt lítinn lax, þá er þetta hálfraunalegt, því að ef allt hefði verið með felldu. hefði veiði átt að vera í þessu vatnahverfi nú orðin afar mikil eða fiskigengd réttara sagt. Það er nú kannske rétt að orða það svo. að fiskigengdin hefði átt að vera afar mikil, en mér hefur skilizt á þeim mönnum, sem mestan kunnugleika hafa, að því sé ekki til að dreifa. Veit ég vel, að það gripur þarna inn í eitt atriði, sem vel má vera að hafi valdið meiri spjöllum en nokkurn órar fyrir. Eitt er fullvíst, að það hefur valdið stórtjóni, en hvað mikilvægt það er, getur vitaskuld enginn sannað, og það er virkjun Sogsins. Sogið er einhver bezta fiskiá, sem þekkist hér á landi. Það er lygn á, kemur úr Þingvallavatni. Það má reyndar segja svipað um Brúará. Í hvorugu þessu vatnsfalli er mikið rót. Í báðum þessum vötnum eru beztu hrygningarhylir, og eru báðar árnar því vel til þess fallnar einmitt, að þar fari fram mikið laxaklak. Hvað Brúará áhrærir, þá var það alveg vitanlegt fyrr á tímum, áður en þessi félagsskapur var myndaður um gæzlu veiðinnar, að henni var stórspillt með ádrætti og sérstaklega á einum stað ofarlega í ánni. En ég álít, að það sé tæpast um slíkt að ræða þar nú. En hvað Sogið áhrærir, þá hefur það gerzt nokkrum sinnum við virkjanirnar, sem þar hafa farið fram, að lokað hefur verið algerlega fyrir vatnsrennslið við virkjanirnar í sex klukkustundir og jafnvel lengur, eftir því sem mér hefur verið sagt. Þetta veldur því, að farvegurinn í Soginu þornar alveg niður undir Álftavatn, og í vatninu grynnist auðvitað stórkostlega og kemur á það mikið fjöruborð. En í farveginum fyrir ofan Álftavatn eru hrygningarslóðir laxins í stórum stíl. Þar er góður malarbotn víða og klappir, sprungur og rifur í klappirnar, sem sílin haldast við í á sínu fyrsta æskuskeiði. Það þarf ekki að gefa svo frekari skýringu á, hvernig þetta muni hafa farið með ungviðið. Það hefur fjarað uppi og auðvitað drepizt í stórum stíl, enda hafa menn gengið um farveginn og séð, hvar sílin hafa legið á mörgum stöðum í hrúgum. Fullorðinn laxinn bjargar sér oftast að mestu eða öllu leyti. Hann finnur, þegar er að fjara, og syndir út í dýpið. En sílin hafa sumpart ekki getu til þess og ekki heldur þá vizku til að bera að forðast hættuna. Hvað þetta kann að hafa verkað mikið á veiðina eystra, getur enginn sagt um, hitt er víst, að það hefur verkað til stórspillis.

Ég vil í sambandi við þetta frv. taka fram, að ég álít í raun og veru, að fara þurfi fram ýtarleg athugun á þessari löggjöf, og setning löggjafar um þetta efni er allt annað en vandalaus. Sennilegast þykir mér, eftir þeim kunnugleika, sem ég hef af vatnsföllum í landinu, að með einni allsherjarlöggjöf sé ómögulegt að gera hana þannig úr garði, að séð sé fyrir öllum þeim atriðum, sem gæta þarf við framkvæmd eftir slíkri löggjöf. Þess vegna getur hún ekki raunverulega orðið öðruvísi en heildarrammi, sem heimild verður að vera til af hlutaðeigandi héraðsstjórnum að fylla upp í eftir staðháttum og þeirri þekkingu, sem menn hafa innan héraðanna til þess að ganga vel frá slíkum ákvæðum. Því nauðsynlegra er líka að hafa þennan hátt á, álít ég, vegna þess að hér eiga héraðsbúar, víðs vegar um land, svo margvíslegra og mikilla hagsmuna að gæta, að óhjákvæmilegt er, að slíkt fyrirkomulag verði. Hv. flm. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv., leggur til, að friðunartíminn í viku hverri verði aukinn, og annað atriði í þeim breyt. við löggjöfina er, að sett verði skýlaus ákvæði um það, við hvað skuli miða veiðivélina.

Hvað friðunina áhrærir, þá vil ég segja það, að ef nauðsynlegt er vegna fiskstofnsins, þá er vel þess vert, að það sé gert, en þó því aðeins, að annarra atriða gagnvart veiðinni sé gætt um leið. Og það verð ég að segja, að þá þykir mér óvarlega farið, — ég ætla nú ekki að orða það sterkara, þó að það væri ef til vill réttmætt að gera það, — ef á að leyfa aðgæzlulitla eða aðgæzlulausa stangaveiði. Nú veit ég vel, að einstöku menn, þeir er árnar leigja til stangaveiði, hafa ákvæði í samningum um árnar, hvað margar stangir megi vera flestar í ánni á hverjum tíma og hve lengi megi standa á hverjum sólarhring við stöngina eða stengurnar, sem leyfðar eru. Sumir þeirra hafa áskilið sér rétt til þess að takmarka þetta enn meira, ef það sýndi sig, að of nærri veiðinni væri gengið. Ég held, að það sé alveg sjálfsagt, að löggjöfin láti einmitt þetta atriði ekki alveg afskiptalaust og að það séu reistar einhverjar skorður við þessu. Hv. flm. víkur að því í greinargerðinni, að laxinn, sem gengur upp eftir ánum og veiddur er í net neðan til, komist aldrei á hrygningarsvæðin til þess að hrygna eins og eðli hans stendur til. Þetta er vissulega rétt. En laxinn, sem á stöng er veiddur í bergvatnsánum, þótt kominn sé hann þangað til þess að hrygna, hrygnir ekki heldur, og það verður að hafa í huga. Það, sem veitt er á stöngina, lýtur sömu lögum og það, sem veitt er í netin. Þar er enginn munur á. Laxinn mun ekki fara að hrygna fyrr en eftir að veiðitími er úti og hvorki er heimilt að veiða í net eða á stöng.

Um hitt atriðið, við hvað skuli miðað, þegar talað er um lengd veiðivélar, þá má vera, að við, sem undirbjuggum löggjöfina fyrst, höfum haft nokkuð í huga að miða við bakka, því að víðast hvar á það við, en þó getur þannig staðið á, að tæpast sé hvorki rétt né sanngjarnt að miða lengd veiðivélar við bakka. Við skulum segja, að á falli þannig á löngu svæði fyrir einhverri jörð, að grynningar séu langar leiðir út frá bakka eða jafnvel þurrt langar leiðir út frá bakka. Nú eru áraskipti að þessu. Við vitum, að vatnsföllin okkar breyta sér frá ári til árs. Á þá fyrir þessar sakir einar að svipta jörð rétti til þess að veiða nokkurn hlut, aðeins fyrir það, hvernig áin fellur fyrir landi jarðarinnar? Fyrir fram getur maður ekki endilega verið viss um, að þetta sé sanngjarnt eða réttmætt, svo að varúðar þarf að gæta um þetta efni eins og margt annað, og það verður að vera komið undir áliti þeirra manna, sem til þess eru settir eða kvaddir að gefa umsögn um slíkt. Nú veit ég til þess, að stangaveiðimennirnir líta hornauga til silungsveiðinnar og telja, að hún muni sumpart verða til hindrunar laxgöngu og jafnvel að eitthvað af laxi kunni að festast í netjunum. Og því er ekki að neita, að af hálfu þeirra, sem með þessi mál hafa farið undanfarið hvað áhrærir mitt hérað, Árnesþing, hefur verið lögð nokkur hindrun í veg fyrir, að menn gætu lagt silunganet, þó að lögum samkv. hefðu þeir rétt á því. Þar sem ár falla þannig, að það eru sjálfgerðar lagnir, eins og sums staðar háttar til, hafa menn getað lagt net sín allan veiðitímann, sem lög heimiluðu, og ekkert verið hægt um slíkt að segja. Aðrir hafa aftur þurft á nokkurri fyrirstöðu að halda, vötnin hafa fallið þannig fyrir landi slíkra jarða. En þá hefur af hálfu þeirra stjórnarvalda, sem með þessi mál hafa farið, verið lögð þannig löguð hindrun, að menn hafa verið sviptir hálfum veiðitímanum og sagt, að þeir mættu ekki setja niður fyrirstöðu í árnar t. d. fyrr en um miðjan júlí, þá mættu þeir það, og svo er ákveðinn bæði fjöldi — látum það nú vera, ef það væri á einhverju viti byggt — og lengd veiðivéla. Þetta hefur gerzt hjá þeim sumpart af litlum kunnugleika eða þá jafnvel inni í skrifstofum og boðskapurinn svo gengið út þaðan, en það er bara ekki svona einfalt í framkvæmd, ef það á að vera á sanngirni og viti byggt. Ég tók á sinni tíð þátt í undirbúningi löggjafarinnar og hef ekki almennilega áttað mig á því, hvaðan þetta er komið, rétturinn hjá þessum mönnum, sem með málin hafa farið, til að hindra það hjá þessum mönnum, sem þurftu á fyrirstöðu að halda, þó að hún væri ekki nema lítilvæg, að hún væri sett niður fyrr en hálfnaður væri veiðitíminn. Ég hefði gaman af, ef einhver benti mér á þann lagastaf í þessari löggjöf, sem heimilaði slíkt. Ég held, að sú ákvörðun sé meira en hæpin. Þetta hefur líka verkað illa, og það var illa farið, og ég hef haft mikil leiðindi einmitt út af þessu atriði. Menn hafa talið, að það hafi verið brotinn á sér réttur, miðað við aðra, og talið, að þetta væri farið lengra en lög heimiluðu. Þetta hefur valdið miklum ágreiningi og óánægju og orðið málinu í okkar héraði áreiðanlega til skaða, og bótalaust er ekki hægt að taka svona eignir af mönnum og allra sízt þegar það er gert eitthvað út í loftið, að manni virðist, eða af handahófi og engrar sanngirni gætt.

Ef gerð er ráðstöfun í þessa átt til þess að auka fiskigöngu eða koma í veg fyrir ofveiði, þá verður slíkt að ganga jafnt yfir alla, en ekki að seilast til þeirra manna, sem þegar litið er á möguleikana til veiði hafa versta aðstöðu til þess að hafa nokkra veiði, a. m. k. hvað áhrærir tilkostnað við útbúnað á veiðitækjunum og annað þess konar. Að dómi þeirra, sem kunnugleika hafa á vatnsföllum, hvernig þau falla og hver munur er á, þar sem er búin til fyrirstaða eða gildra og aftur þar sem náttúran sjálf hefur tilbúið fyrirstöðuna, þá er enn meiri hætta einmitt á þeim stöðum, að það hindri frekar en nokkurs staðar annars staðar fiskinn í göngu sinni upp í árnar. Ég dreg þetta atriði fram, til þess að vekja athygli hv. þdm. á því, hver vandkvæði eru á löggjöf um þetta efni og hve margs þarf að gæta, svo að vel sé séð fyrir hag manna og þá þeirra fyrst og fremst, sem veiðiréttindin eiga eða þeirra eiga að njóta, og þá tel ég fyrst og fremst þá, sem búa á jörðunum, hvort sem þeir eru nú sjálfseignarbændur eða ekki. Svo geta þeir, ef þeir vilja, farið með þennan rétt sinn þannig að leigja ár eins og gert er og ég býst við að verði gert áfram. En það ættu þeir þá jafnan að hafa í huga, að líka með því móti er hægt að ganga of langt í veiði og getur orðið til tjóns, og í því sambandi vil ég þá líka drepa á það, að sú tækni, sem komin er á þar, gengur miklu lengra en áður var, og það hef ég eftir fróðum mönnum um þá hluti. Mér er sagt, að þegar svo ber undir, þá geti menn með veiðiagni tínt upp hvern fisk úr hyljum í bergvatnsánum, ef þeir vilja það við hafa. Eins ber líka að gæta í þessu sambandi, sem er mikilvægt, og það er, að það þarf vafalaust athugunar við um ákvæðin í löggjöfinni viðvíkjandi ósum yfirleitt og ekki sízt við sjóinn. Við Íslendingar vorum það lánsamir eftir minni meiningu, að þegar þessi löggjöf var sett, þá var á mjög fáum stöðum farið að veiða í sjó, og það vil ég vona, að Íslendingar haldi fast við að láta það ekki aukast, því að það hefur orðið öðrum þjóðum til stórtjóns upp á viðhald þessara hlunninda í fiskiánum. En þess þarf að gæta við árósana í sjónum, að þeir séu taldir það langt sem nauðsynlegt er vegna fiskigöngunnar, og eins að fyllsta aðgæzla sé höfð um veiðivélarnar í námunda við þá.

Ég vil nú mæla með þessu frv., að það verði tekið til rækilegrar athugunar og veiðilöggjöfin yfirleitt, og vil mega vænta þess, að hv. landbn. íhugi málið mjög gaumgæfilega, en hæpið tel ég, að unnt sé að taka þessa löggjöf fyrir eins og þarf, svo að vel sé, öðruvísi en að leita álits manna víðs vegar um landið, áður en löggjöfin er tekin öll til endurskoðunar, ef það á að gera hana rækilega, til þess að fá umsögn og upplýsingar um ýmis atriði, sem snerta þessa löggjöf. Það held ég að sé alveg nauðsynlegt. Ég skal svo ekki tefja umr. frekar að þessu sinni.