25.02.1954
Neðri deild: 53. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

72. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til meðferðar nokkuð lengi, og hefur dregizt, að nál. væri gefið út, af ástæðum, sem ég kem nánar að.

Í þessu frv. á þskj. 95 eru tvö meginatriði, tvær till. til breytinga á núverandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til, að lax og göngusilungur verði friðaður fyrir annarri veiði en stangaveiði í 84 klst. á viku í stað 60 stunda eins og nú er. Í öðru lagi er svo lagt til, að notkun veiðivéla verði einnig takmörkuð að öðru leyti þann tíma, sem þær eru leyfðar, og skal ég ekki tilgreina það nánar. Takmarkanirnar eru í 2. og 3. gr. frv.

N. hefur, eins og ég sagði áður, haft þetta mál nokkuð lengi til meðferðar. Það kom í ljós, að um málið er mikill ágreiningur milli þeirra, sem hlut eiga að máli, a. m. k. í því héraði, sem þetta mál mun einkum taka til, þ. e. í Borgarfirði. Nefndinni hafa borizt undirskriftir margra manna, sem veiðirétt eiga, og skiptir þar mjög í tvö horn. Sumir mæla með frv., en aðrir á móti. Þeir eigendur veiðiréttar, sem einkum stunda netjaveiði, eru þessu frv. andvígir, því að hér er um að ræða takmörkun á netjaveiðinni, en þeir, sem stangaveiði stunda eða leigja árnar út til stangaveiði, eru frv. hlynntir. Nefndin hefur orðið greinilega vör við þennan ágreining í þessum undirskriftaskjölum, sem henni hafa borizt, og þess má einnig geta, að sumir af þeim, sem hér eiga hlut að máli, hafa komið á fund n. og rætt málið við hana.

Hinn 4. nóv. s. l. ákvað nefndin að senda frv. til umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefnd, en það er skemmst af því að segja, að enda þótt nokkuð langt sé liðið, hefur nefndinni engin umsögn borizt frá þessum aðilum.

Þeir virðast ekki hafa verið reiðubúnir til þess, þessir aðilar, sem einkum fjalla um veiðimálin af hálfu hins opinbera, að láta uppi að svo stöddu sitt álit um það deilumál, sem hér er um að ræða.

Að þessu athuguðu, að engin umsögn hefur enn legið fyrir, og vegna þess, sem fram hefur komið í málinu að öðru leyti og ég hef nú getið um, þá hefur það orðið niðurstaða nefndarinnar — og hún er um það sammála, að hún telur ekki tímabært að taka afstöðu til frv. nú á þessu þingi og leggur því til, að málinu verði vísað til ríkisstj. Ég skal taka það fram, að einn nm. var sakir sjúkleika fjarstaddur, þegar ákvörðun var tekin í n., og er þess getið í nál.