09.12.1953
Efri deild: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

51. mál, gengisskráning

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er stjórnarfrv. og lagt fram til staðfestingar brbl. útgefnum í aprílmánuði s.l. Frv. er komið frá Nd., og urðu engar breyt. á því þar, enginn hv. þm. þar flutti brtt. við það. Fjhn. Ed. hefur athugað frv., svo sem álit hennar á þskj. 270 ber með sér.

Með l. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., nr. 22 frá 19. marz 1950, var ákveðið, að 10 millj. kr. skyldi varið til þess að bæta verðfall, sem orðið hafði á sparifé einstakra manna, og ákveðið, að Landsbanka Íslands skyldi falin framkvæmd úthlutunar bótanna. Þegar til framkvæmdanna kom, sem var fyrst á þessu ári, þótti nauðsyn á lítils háttar breytingu á lagaákvæðunum, og því voru brbl. þessi út gefin. Breytingarnar eru aðallega þrjár. Fyrsta breyt. er, að ákveðið er í brbl., að sparifé sé bótaskylt, þótt ekki hafi verið talið fram til skatts, ef það hefur verið eign ófjárráða unglinga. Sanngjarnt má telja, að unglingarnir gjaldi ekki vanrækslu fjárráðamanna sinna. Önnur breyt. er, að brbl. ákveða, að bætur skuli miða við heildarinnstæðu eins og hún var í árslok 1941 og í lok júní 1946, en þó aðeins við lægri upphæðina á þessum tímamörkum. Aðallögin mæltu svo fyrir, að upphæðin skyldi hafa verið óhreyfð allt þetta tímabil, nema sannaður væri flutningur milli innlánsstofnana. Rannsókn virtist ekki framkvæmanleg á þessu, eða allt of fyrirhafnarsöm a.m.k. Þess vegna er því slegið föstu með brbl. að miða við lægri upphæðina og sleppa nostri við athugun á því, hvort upphæðin kann að hafa orðið lægri einhvern tíma á tímabilinu. Í þriðja lagi er svo þetta: Engin lágmarksupphæð var tiltekin um bótaskylt fé í aðallögunum. Brbl. slá því föstu, að ekki komi til greina lægri innstæða en 200 kr. Engin ástæða virðist til að hreyfa vegna lægri upphæðar svo margar hendur sem hér koma til greina, ef bæta skal eða rannsaka, hvort bótaskylt sé.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. þetta. Fjhn. mælir óskipt með því, að frv. verði samþ. óbreytt.