29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ekki gert mér neina grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. og vil því hvorki mæla með því né móti á þessu stigi málsins. Hins vegar tel ég, að það sé ekki hægt að færa á móti því þau rök, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) flutti hér. Það samkomulag, sem gert var haustið 1952, miðaðist auðvitað við tilteknar ráðstafanir, sem þá voru gerðar til lækkunar, og í því samkomulagi felst ekki meira en að staðið sé við og ekki haggað þeim ráðstöfunum, sem í þessu skyni voru gerðar. Þó að hins vegar af allt öðrum ástæðum þyki ástæða til þess að breyta sköttum og tollum, sem kunni svo að hafa einhver verðhækkunaráhrif í för með sér, þá nemur það samkomulaginu frá 1952 að mínu viti ekkert við. Það getur auðvitað ekki hafa átt sér stað, að ríkisstj. hafi getað né viljað binda sig með slíku móti. Ég er síður en svo á móti því, að það sé athugað frekar, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, því sé vísað til umsagnar ríkisstj. og annarra aðila, sem hér áttu hlut að máli, en ég vildi ekki láta bíða að koma þessari athugasemd að um minn skilning og því fremur. sem nokkur deila hefur orðið út af hækkunum á kaffiverði, sem sumir hafa talið að bryti í bága við þetta samkomulag.

Þá vil ég skýra frá því, og það var aðalástæðan til þess, að ég stóð hér upp, að ég vildi nota þetta tækifæri til þess að skýra frá því, að þegar fulltrúar Alþýðusambandsins komu til ríkisstj. til að ræða um það mál ekki alls fyrir löngu, þá lét ríkisstj. uppi þá skoðun, að ríkissjóður væri ekki bundinn af þessu samkomulagi til þess að halda kaffiverðinu niðri. Það var einungis skoðun okkar, sem við létum uppi, en við bættum því við, að við værum mjög fúsir til þess að leggja það mál í gerð einhverra hlutlausra aðila, til þess að úr því væri skorið, hvað fælist í þessu samkomulagi. Orðalagið er ekki svo ljóst sem skyldi, það skal játað, og þess vegna er tvenns konar skilningur kominn upp, og þá er langeðlilegast, að tækifærið verði notað til þess að fá hlutlausa aðila, gerðardóm, félagsdóm eða einhvern annan aðila, sem menn koma sér saman um, til þess að skera úr þessu í eitt skipti fyrir öll, til þess að það hafi ekki áhrif á úrlausn annarra gersamlega óskyldra mála.