29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Það er alls ekki ætlun mín að taka upp neinar deilur um þetta atriði hér. Það er rétt að fá umsögn um þetta frá þeim aðilum, sem málið beinlínis snertir, og ég þakka hæstv. ráðh. fyrir undirtektir hans um það atriði, að leitað sé álits þeirra um efni frv.

En mér þykir rétt að taka það fram, að ég get ekki fallizt á skilning hæstv. ráðh. á því, að það komi ekki í bága við samkomulagið í desember 1952, þó að verðlag á þeim vörum, sem þar hefur verið samið um, sé síðar hækkað í öðrum tilgangi og með sérstökum ráðstöfunum, eins og með tollahækkunum. Það liggur í augum uppi, að ef slíkum skilningi væri slegið föstum, þá væri þess háttar samkomulag sem gert var 1952 einskis virði. Þetta er á engan veg sambærilegt við það, hvort ríkissjóði beri skylda til að halda niðri verði á kaffi, sem hefur hækkað mjög verulega í innkaupi síðan samkomulagið var gert. Hér er um að ræða. ef þetta frv. verður samþ., einhliða ráðstöfun Alþ. til þess að hækka verð á benzíni frá því, sem nú er, með sérstöku gjaldi í ríkissjóð.