09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég get fyrir hönd okkar flm. þakkað hv. fjhn. fyrir tiltölulega skjóta afgreiðslu á þessu máli. Hins vegar þykir mér miður, hvað það hefur dregizt, að það kæmi hér til 2. umr. í hv. d. Ég get þó ekki ásakað hæstv. forseta í því sambandi, því að svo mikið hefur annríkið verið hér þessa daga.

Nú hafa verið samþ. á Alþ. ný brúalög. Þar er talin 141 óbyggð brú á þjóðvegum á 10 metra hafi og lengra. Í þessum l. eru ekki taldar sérstaklega þær brýr, sem koma mundu á brúasjóð, en með sömu venju og ríkt hefur undanfarið, þá er augljóst mál, að kostnaður við þær nemur mörgum milljónatugum. Tekjur brúasjóðs eru nú um 2 millj. á ári. Með sömu tekjum er alveg sýnt, að það mun taka marga áratugi að ljúka þeim verkefnum, sem brúasjóði eru ætluð nú. Þetta telja flm. þessa máls með öllu óviðunandi.

Ég er sjálfur nákunnugur aðstæðum við þrjú þeirra stórvatna, sem nú eru talin í fremstu röð. Ég skal ekki fara að rekja þá sögu neitt, ég get aðeins nefnt þetta: Á Jökulsá í Axarfirði er gömul hengibrú, sem tvímælalaust er orðin stórhættuleg, og fyrir kemur, ef vindur er, að bílar sitja fastir, þannig að þeir klemmast milli handriða, og er sýnt af því, hversu huggulegt þar er umferðar. Önnur er Lagarfljótsbrúin, sem er geysilega mikilvægur tengiliður og tengir Austurlandið við akvegakerfi landsins, auk þess sem hún tengir saman tvo hluta Fljótsdalshéraðs, sitt hvorum megin við fljótið. Þetta er gömul timburbrú á járnbitum, sem er orðið mjög aðkallandi að endurnýja. Hún þolir ekki eins og stendur vaxandi þunga umferðarinnar. Þriðja stórvatnið, sem ég þekki sérstaklega vel til, er svo Hofsá í Álftafirði. Hún er alveg brúarlaus, og er víst enginn vafi á því, að hún er versta brúarlausa vatnsfallið núna á alfaraleið, fyrir utan stórvötnin í Skaftafellssýslum, sem enn þá þykir tvísýna á að hægt sé að brúa.

Þetta er nú það, sem ég þekki sjálfur vel, en ég get svo sem gert mér í hugarlund, að það sé víðar þannig ástatt. Ég lít svo á, að hv. alþm. verði að horfast í augu við þetta og að það sé alveg fráleitt að aka sér undan því að gera ráðstafanir til að efla brúasjóðinn nú þegar.

Mér sýnist einkum koma fram tvenn rök gegn þessu frv. Í nál. hv. fjhn. er því varpað fram, að það þurfi að endurskoða l. um brúasjóð, m. a. vegna tilkomu díeselvagna og vegna þess, að benzínskatturinn leggist jafnt á atvinnu og lúxus. Nú neita ég því ekki, að það þurfi að endurskoða brúasjóðslögin í heild, eða þau l., sem fela í sér ákvæði um brúasjóð. Það er sjálfsagt alveg rétt. En ég get bara ekki séð, að það breyti nokkru um afgreiðslu þessa litla frv. Þörfin er jafnrík. Í annan stað er því haldið fram, að frv., ef að l. yrði, væri brot á verkfallssamningnum. Ég vil aðeins minna á þau mjög svo glöggu rök, sem hæstv. dómsmrh. setti fram við 1. umr. þessa máls, enda virðist mér það liggja í augum uppi, að það sé alveg fráleitt, að nokkur hæstv. ríkisstj. geti eða vilji binda þannig hendur Alþ. langt fram í tíma.

En til þess nú að koma til móts við þá, sem af ýmsum ástæðum geta ekki fallizt á neina þá hækkun benzínskattsins, sem gæti leitt til hækkaðs benzínverðs, þá höfum við flm. þessa frv., hv. þm. V-Sk. (JK) og ég, lagt fram brtt. á þskj. 713. E. t. v. má vera, að menn efist um, að það yrði nokkurn tíma hægt að ná fé til brúasjóðs á þann hátt, án þess að benzín hækki beint í verði. Það er þó svo, að stjórnarvöld landsins hafa verulega íhlutun um farmgjöld og álagningu á þessum vörum, og það kynnu að skapast þær aðstæður, að þetta væri hægt, og ég get ekki séð, að það væri neitt á móti því að gefa ríkisstj. með þessu tækifæri og hvatningu til þess að ná fé í brúasjóðinn á þennan hátt. Ef málið fengist afgr. á þann hátt, sem við leggjum til með brtt., þá væri það að vísu ekki fullur sigur í málinu, en það gæti þó verið verulegt spor í rétta átt, og ég get ekki séð annað en að þetta sé hættulaus afgreiðsla. Og ég verð að segja það, að ég tel þetta það minnsta, sem hv. þm. geti gert til að koma til móts við þær þúsundir manna í landinu, sem enn eiga yfir óbrúuð stórvötn að fara eða búa við brýr, sem þegar eru orðnar stórhættulegar umferðinni.