30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

2. mál, firma og prókúruumboð

Hannibal Valdimarsson:

Mér finnst nú málið ekki stórt mál, þó að hv. frsm. séu búnir langt til að tala sig dauða um það. Ég vil aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að heldur kann ég betur við, að skráning atvinnufyrirtækja fari fram í viðkomandi lögsagnarumdæmi og sé framkvæmd af sýslumanni þess umdæmis. En hitt þætti mér ekki óeðlilegt, að sýslumönnum væri gert að skyldu samkv. lögum að senda þegar í stað, er skráning hefði farið fram á nýju fyrirtæki, samrit af skráningunni í það ráðuneyti, sem málið heyrir undir, og fengist þá hvort tveggja, að skráning færi fram úti um byggðir landsins, þar sem til félagsskaparins væri stofnað, og hitt, að ráðuneytið fylgdist jafnan með því, hvað gerzt hefði í þessum efnum.