30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

2. mál, firma og prókúruumboð

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður mjög. Það er dálítið erfitt að ræða þetta mál eitt út af fyrir sig, þar sem það grípur mjög inn í annað frv., sem hefur verið lagt hér fram að þessu sinni og er um hlutafélög, því að það er gert ráð fyrir því, að skráningarstjóri hafi með höndum bæði skráningu á firmum og einnig félögum, eins og segir í 3. gr. þessa frv. Mér skilst, að í rauninni sé eina deilan í sambandi við þetta mál það, hvernig skráningunni skuli hagað, þ. e. a. s., hverjir eigi að annast skráningu firma og hlutafélaga og samvinnufélaga, enda er kannske ekki við því að búast, að miklar umr. séu um önnur atriði þessa frv., þar sem þetta er undirbúið af mjög sérfróðum mönnum og er að verulegu leyti lögfræðilegs eðlis.

Það hefur verið minnzt á það hér af hv. 1. þm. Árn., að með þeirri tilhögun, sem hér er tekin upp, væri í senn verið að skapa erfiðleika fyrir eigendur firma og fyrir hlutafélög og samvinnufélög úti á landsbyggðinni, og einnig það, að því er mér skilst, að það sé verið að sýna sýslumönnum og bæjarfógetum vantraust með því að taka þessa tilhögun upp, sem hér segir í frv. Það kann mjög vel að vera, að þetta skapi á einhvern hátt erfiðleika fyrir aðila utan Reykjavíkur, sem þurfa að senda þessar tilkynningar allar hingað, og virðist mér það mjög athugandi, sem hv. frsm. allshn. benti hér á, að þeim yrði gefinn kostur á, sem þess óskuðu, að hafa milligöngu sýslumanna og bæjarfógeta um þetta efni. Hinu er ekki að neita, að skráningu firma og félaga er mjög ábótavant, og skal ég ekki í því efni kasta neinum steini að þeim aðilum, sem það eiga að annast. Þeim hefur verið ætlað það sem aukastarf algert, og það hefur leitt til þess, að því hefur ekki allajafna verið sinnt svo sem vera skyldi, og stafar það enn fremur af því, að lögin hafa ef til vill ekki verið svo ljós um þetta atriði sem nauðsynlegt hefði verið. En það er staðreynd, og á það ekki hvað sízt við eða öllu fremur um félögin, t. d. hlutafélög, að það eru mjög mikil vanhöld á því, að nauðsynlegar skráningar fari þar fram, og er það sérstaklega tilfinnanlegt oft og tíðum. að þess er mjög lítið gætt að skrá breytingar á félagsstjórnum, breytingar á félagssamþykktum og ýmis önnur atriði, sem máli skipta, og kemur þetta iðulega fyrir og veldur erfiðleikum í sambandi við ýmiss konar málarekstur á hendur hlutafélögum, sem allir þeir kannast við, sem einhverja slíka málfærslu stunda. Það er því alveg tvímælalaust, að það er mjög mikil nauðsyn að ganga betur frá þessum málum en verið hefur. Og eftir þeim frumvörpum, sem hér hafa verið lögð fram, bæði um firmu og um hlutafélög, er augljóst, að það mundi leggja mjög aukin störf á herðar sýslumanna og bæjarfógeta og auknar kvaðir, þar sem ætlazt er til, að fram fari mjög ýtarleg athugun á rekstri þessara fyrirtækja, það sé fylgzt með bókhaldi þeirra og öðru slíku, sem starfsemi þeirra varðar, sem er vitanlega mjög mikilvægt, ekki hvað sízt hvað félögin snertir, sem hafa takmarkaða ábyrgð, og er því mjög mikils um vert, að þess sé jafnan gætt, að félögin uppfylli þau skilyrði, sem þeim ber að uppfylla samkv. lögum. Þetta er mjög mikið atríði fyrir alla þá, sem einhver skipti eiga við félög. En það hefur því miður komið fyrir, og menn muna það kannske, að fallið hafa dómar um það atriði, að menn hafa lent í miklum erfiðleikum og vandræðum vegna þess, að þegar til kom, höfðu félögin alls ekki verið skráð, og höfðu því viðsemjendur þeirra alls ekki þá aðstöðu til þess að sækja sitt mál gegn viðkomandi félagi eins og ella hefði verið, ef nægilega vel hefði verið með þessum málum fylgzt. Ég get því ekki fallizt á það, að þó að ætlunin sé að gera breyt. á þessari tilhögun, þá feli það í sér neitt vantraust á sýslumenn eða bæjarfógeta. Hér er um að ræða að hafa heildareftirlit með þessari mikilvægu starfsemi í þjóðfélaginu, sem bæði snertir firmu og hlutafélög og samvinnufélög, og það er, eins og ég sagði, mjög mikils um vert fyrir ekki eingöngu þessa aðila, heldur miklu fremur alla þeirra viðsemjendur, að þess sé jafnan gætt, að öll þessi starfræksla sé í lagi og þessir aðilar uppfylli þau skilyrði á hverjum tíma, sem lögin gera til þeirra.

Ég ætla ekki að öðru leyti að fara út í einstök atriði þessa máls eða um það, hvort rétt væri að fela það sérstökum fulltrúa eða hafa sérstakan embættismann í því efni. Um það skal ég ekkert segja, en vildi aðeins láta fram koma þessa skoðun mína á meginatriði málsins og nauðsyn þess, að það sé einhver viss aðili, sem hefur alla ábyrgð á þessu máli og fæst ekki við annað en að sjá um, að þessir hlutir séu í lagi.