14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

2. mál, firma og prókúruumboð

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur vikið að þessu máli og gert athugasemdir um það, að það muni hafa farið miður, að ráðgert er eftir þessu frv., að skráningu annist sýslumenn og bæjarfógetar úti um landið, sakir þess að málefni, sem þeir koma til með að hafa með höndum, geti orðið það margbrotin og flókin, að þeim sé tæpast ætlandi að afgreiða þau svo, að í lagi sé. Hæstv. dómsmrh. getur þess, að hæstaréttardómararnir, skildist mér, sem hafa undirbúið málið, séu þeirrar skoðunar, að ekki sé vel séð fyrir þessu með öðru móti en að einn maður annist þetta, eins og gert var ráð fyrir upphaflega í frv.; enn fremur sé atvmrn., sem hefur auðvitað mikil kynni af þessum málum frá fyrri tíð, þeirrar skoðunar.

Í umræðunum, þegar þetta var til meðferðar hér, var vikið af hálfu meiri hl. allshn. að því, að það mundi betur verða séð fyrir því, að farið væri eftir lagafyrirmælum um þetta efni og samræmi yrði í þessu, að einn maður annist það. En ég ætla, að ég muni það rétt eða að ég hafi tekið rétt eftir því, að svo djúpt var þó ekki tekið í árinni af hv. meiri hl., að þessi löggjöf, hlutafjárlöggjöfin yrði, ja, ef það verður nú að lögum það frv., sem liggur fyrir og allshn. hefur nú mælt með að samþ. yrði að kalla óbreytt í höfuðatriðum, — það eru smávægilegar breyt. aðeins, sem n. leggur til, að gerðar verði, — þá mun nú engum nm. hafa dottið í hug, að þetta væri þannig viðfangs, að fyrir þessar sakir, að það væru fleiri en einn, sem ættu að annast skráninguna, yrðu lögin pappírsgagn.

Það liggur þá eiginlega næst að álykta: Er þessi eini maður til, sem er fær um að annast þetta verk? Er hann fæddur, fyrst þetta er svona óskaplega flókið og vandasamt? Lögreglustjórarnir hafa að baki sér fjögurra, fimm og sex ára nám, einmitt til þess að vita, hvað lög eru, skerpa þeirra skilning og möguleika á að búa sig undir að sjá og skilja lagastaf. Ef einhver nýmæli eru í þessu, mundi ekki vera möguleiki á því að kynna þeim þetta viðfangsefni? Mér finnst einhvern veginn eins og þeirra mikla nám ætti að gera þeim mögulegt að setja síg inn í þessar ástæður, svo að allt yrði í lagi af þeirra hendi, þó að þeir önnuðust skráninguna. En vel má vera, að þetta sé skakkt á litið og að það þurfi eitthvað alveg sérstakt til, meira nám en þeir hafa, víðtækari þekkingu, máske skarpari skilning og yfir höfuð miklu fleiri kosti en maður getur búizt við, að sýslumenn og bæjarfógetar almennt hafi. Þó eru þetta dómarar þjóðarinnar, sem menn eiga nokkuð mikið undir að skilji rétt og grundi rétt sín viðfangsefni. Ég ætla ekki að fjölyrða um það atriði frekar, en þetta skil ég ekki almennilega, og ég ætla, að þarna sé gert of mikið úr þessum atriðum.

Hvað mig persónulega áhrærir, þá vildi ég sízt verða til þess, að lögin yrðu þannig úr garði gerð af hálfu þingsins, að þau kæmu ekki að sem beztum notum og að tilætluðum notum gagnvart þjóðinni, bæði vegna þess, hvað löglegt er, og að eftirlit verði sem bezt. Því get ég lýst yfir, og mér datt ekki í hug annað en að það mundi vera hægt að sjá því atriði borgið. En nú koma þessir menn, sem undirbjuggu lögin, og yfirlýsing þeirra er sú, að það muni mislukkast, nema þetta sérstaka form, sem þeir lögðu til, verði haft á þessum hlutum. Og hvað áhrærir mann til að gegna þessu, þá liggur næst að álíta, að það væri annar hvor þessara hæstaréttardómara, án þess að mér detti í hug að vera þeirrar skoðunar, að það geti ekki verið um aðra að ræða til þess. En það liggur næst að álykta, að það væri þá annar hvor hæstaréttardómarinn, og þá hef ég í huga frv. um hlutafélögin; það er vel og rækilega undirbúíð. Það ber það vissulega með sér.

En svo er annar aðili í þessu máli heldur en aðeins sá, sem á að hafa með höndum skráningu og aðgæzlu, að allt fari vel og löglega fram, og það er fólkið í landinu, sem kynni að vilja notfæra sér þessi lög. Fyrst það er nú svona margbrotið að uppfylla þá skilmála, er l. setja, mundi þá ekki réttmætt að álykta sem svo, að það kynni að vera nokkuð torvelt fyrir fólkið að sjá, hvernig fyrirkomulagið á þeirri starfsemi á að vera, sem á að vera rekin eftir fyrirmælum laganna, svo að undirbúningurinn af þess hálfu verði löglegur og að það taki ekki mikla fyrirhöfn eða tíma að koma því öllu í lag, sem áfátt kann að verða hjá mönnum, sem hugsa sér að mynda hlutafélög og koma á þess konar starfsemi? Það býst ég við að liggi nokkuð nærri að álíta, og kemur þá að því, sem ég hafði orð á við 2. umr. málsins, að það mundi leiða til þess, að fólk úti á landi a. m. k., sem vildi notfæra sér þá starfsemi, sem lögin heimila, yrði að hafa mann hér fyrir sig — og þá mundi það auðvitað valda mikilli fyrirhöfn og kostnaði — til þess að sjá um þetta og koma því í kring, sem þyrfti að vera, svo að löglegt væri, til þess að fullnægja ákvæðum laganna og því, sem tilskilið væri fyrir það, að félagsskapurinn öðlaðist fullt gildi. Þessu atriði finnst mér nú að maður megi ekki gleyma, og ætla ég, að það sé fullupplýst með þessu, hvað miklu auðveldara væri fyrir fólkið úti um landið að geta snúið sér til hlutaðeigandi sýslumanns eða bæjarfógeta til að koma þessu í kring. Það er vitaskuld miklu auðveldara í framkvæmd að koma á svona centraliseringu eins og frv. gerir ráð fyrir upp á framkvæmdina eina út af fyrir sig. Það viðurkenni ég. En það er þá miklu minna tillit tekið til fólksins, sem þarf að vinna eftir þessum lagafyrirmælum, og það er engan veginn lítilvægt atriði.

Ég ætla nú ekki að fjölyrða um þetta frekar. Mér þykir vænt um, að hæstv. dómsmrh. skyldi vekja máls á þessu, af því að hann hefur nú fengið vitneskju um það, hvernig til þessa máls er hugsað, og hv. d. getur þá jafnvel búizt við, á hverju hún á von frá Ed. Er þá vel, að menn hafa tíma til þess að kynna sér þetta nánar og íhuga, hverjir málavextir eru.

En það liggur nærri við, að maður hefði gaman af að sjá þessa álitsgerð, til þess að þurfa ekki að vaða í villu og svima um það, hvað ægilegt mál þetta kann að vera, ef ekki er farið eftir áliti þeirra, sem hafa náttúrlega mikinn kunnugleika á því og hafa haft afskipti af undirbúningi málsins.