14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

2. mál, firma og prókúruumboð

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég flutti á sínum tíma till. til þál. um, að stofnað skyldi til endurskoðunar á gildandi lögum um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð og gildandi lögum um hlutafélög. Þessi till. var samþ. í einu hljóði, að því er ég bezt man, af hinu háa Alþingi, — það mun hafa verið 1949 eða 1950, — og var síðan samkvæmt henni efnt til þeirrar endurskoðunar, sem farið hefur fram undanfarin ár og hinir sérfróðustu menn voru kvaddir til þess að framkvæma. Niðurstaðan varð svo sú, að lagt hefur verið fyrir hið háa Alþingi nýtt frv. um firmu, skrásetningu þeirra og prókúruumboð og frv. til laga um hlutafélög. Þegar gildandi lög um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð voru sett árið 1903, voru þau mjög fullkomin, höfðu verið rækilega undirbúin og voru í fullkomnu samræmi við það, sem bezt þekktist í þessum efnum á Norðurlöndum. Gildandi lög um hlutafélög voru hins vegar, er þau voru sett 1921, þegar orðin úrelt, miðað við gildandi löggjöf í nágrannalöndunum. Þótt firmaskrárlögin hafi verið góð fyrir um það bil aldarhelmingi, má geta nærri, að svo margt hefur breytzt í atvinnuháttum landsmanna, að þau eru að ýmsu leyti orðin úrelt nú, og sama gildir þó í enn ríkari mæli um hlutafélagalögin.

Eitt af því, sem reynzt hefur mjög óheppilegt varðandi framkvæmd laganna um verzlunarskrár, firmu og prókúruumboð, var einmitt að hafa skráningu firmanna á jafnmörgum höndum og hún hafði verið. Eitt af því, sem reynzt hafði mjög óheppilegt, var einmitt að hafa skráninguna í höndum lögreglustjóranna, því að reynsla hafði sýnt, svo að ekki varð um villzt, að á þessu varð margs konar misferli, ekki sökum þekkingarskorts eða hæfileikaleysis þeirra embættismanna, sem hér var um að ræða, heldur vegna hins, að hér er um að ræða að ýmsu leyti mjög vafasöm og flókin atriði, þar sem tillit þarf að taka til mjög margs, sem hlutaðeigandi lögreglustjórar eiga ekki alltaf aðgang að á því andartaki, sem skráning þarf að fara fram. Ég tel því tvímælalaust, að í frv., eins og það var lagt fyrir, hafi það verið mikið framfaraspor að sameina skráningu allra firma á einn stað og að í því mundi vera mjög aukið öryggi fyrir fyrirtækin sjálf og fyrir þá, sem þurfa að nota þær upplýsingar, sem skráðar eru. Það er einmitt gott, að skráningin sé ávallt framkvæmd af sama aðila, sem tryggt sé að hafi fyllstu sérþekkingu á þeim málum, sem hér er um að ræða, og þekki alla málavöxtu, sem til greina geta komið.

Um önnur atriði frv. skal ég ekki ræða. Þar, sem um breytingar á annað borð er að ræða, eru þær til hinna mestu bóta frá því, sem verið hefur, og þess vegna harma ég það fyrir mitt leyti, að þessi hv. d. skuli hafa tekið þá afstöðu við 2. umr. málsins að breyta þessu atriði í það horf, sem nú er.

Þessi mál snerta eina af kennslugreinum mínum við háskólann, og þess vegna hef ég orðið að kynna mér þau nokkuð, og reynslan er tvímælalaust sú um þetta efni, að núgildandi fyrirkomulag hefur ekki gefizt vel. Er þar engan veginn um að kenna þekkingarleysi eða hæfileikaleysi þeirra manna, sem skráninguna eiga að annast lögum samkvæmt, heldur beinlínis því, að málavextir eru oft og einatt þannig, að aðilum er vorkunn að haga ekki skrásetningunni að öllu leyti á þann hátt, sem réttast væri. Það er nauðsynlegt að hafa fjölda atriða til samanburðar, sem ekki er hægt að kveða skýrt og greinilega á um í lögum, og það er ekki hægt að tryggja, að skráning verði ávallt í samræmi við þær kringumstæður og þær réttarreglur, sem skapazt hafa af kringumstæðunum, nema því aðeins að einn aðili hafi skráninguna í höndum, sem tryggt sé að hafi þekkingu á öllum þeim aðstæðum, sem um hefur verið að ræða, og hafi þá reynslu til að bera, sem löng skráningarstörf ein geta fært þeim aðilum, sem þessi vandasömu embættisstörf eiga að annast.