14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

2. mál, firma og prókúruumboð

Frsm., (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ummæli hæstv. dómsmrh. hafa vakið hér nokkrar umr. í sambandi við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. frá því, sem það var, er það var lagt fram.

Eins og kunnugt er, var meiri hl. allshn. því fylgjandi að halda að mestu leyti því formi, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir. En n. var öll þeirrar skoðunar, að ekki bæri að stofna nýtt embætti í sambandi við þetta mál. Og það vorum við einnig, sem mynduðum meiri hl. n. Við vorum á þeirri skoðun, að ekki bæri að mynda nýtt embætti, heldur ætti þessi framkvæmd að vera í dómsmrn. og falin þar sérstökum fulltrúa. Ég vil aðeins taka þetta fram til þess að vekja athygli á, að það er ekki líklegt, að þessi hv. deild vilji samþ. frv. óbreytt eins og það var í byrjun, enda hefur d. þegar sýnt, að hún vill ekki ganga eins langt og meiri hl. n. vildi, heldur virðist deildin vilja hafa frv. í því formi, sem það nú er. Þó að ég sé ekki fyllilega ánægður með þetta form, eins og ég skýrði frá við 2. umr., þá tel ég, að ef sú brtt. verður samþ., sem hér liggur fyrir á þskj. 297, sé mikið bætt úr þeim annmarka, sem ég tel, að hafi verið gerður á frv., með því að í till. er beinlínis lagt fyrir, að afrit skráningarplagga skuli öll send til dómsmrn. Þar skal svo litið eftir, að þau séu útbúin samkvæmt lögum, og haldin sérstök heildarskrá. Það kann að vera, að eftirlitið á þennan hátt verði ekki fyllilega í eins góðu lagi og væri, ef einn maður sæi um þetta. En ef þetta eftirlit er vel rækt í rn., hygg ég, að þetta ætti að koma að sömu notum og upphaflega tillagan gerði ráð fyrir.