14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

2. mál, firma og prókúruumboð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í heilagri ritningu segir frá því, að fyrir um það bil 2000 árum hafi jarðnesk yfirvöld þeirra tíma látið boð út ganga um það, að taka skyldi manntal um allan heim. Aðferðin, sem þá var höfð við að skrá alla heimsbyggðina, var sú, að hver maður átti að taka sér ferð á hendur og fara til sinnar ættborgar, því að þar og ekki annars staðar átti að færa hann á manntalið. Síðan þetta gerðist hefur margt breytzt. Oft eru tekin manntöl hér á landi og annars staðar, en nýjar aðferðir hafa verið fundnar upp við þau. Nú þurfa menn ekki lengur að ferðast hver til sinnar ættborgar, heldur erum við skráðir á okkar heimilum, og hefur gengið allsæmilega að fá yfirlit um mannfjöldann með þessum nýju aðferðum.

En þegar þessu frv. var útbýtt hér í hv. d. og ég hafði lesið það, þá þóttist ég sjá, að höfundar þess, þessa stjórnarfrv., hefðu nú talið rétt að hverfa aftur að þessari 20 alda gömlu aðferð við skráningu, því að samkvæmt frv. áttu allir þeir, sem ætluðu að stofna félög, hvort það voru hlutafélög eða samvinnufélög eða til einhvers atvinnurekstrar, sem skráningarskyldur er samkv. lögum, að taka sér ferð á hendur, náttúrlega til höfuðborgarinnar, því að annars staðar var ekki hægt að fá laganna stimpil á þeirra skjöl. Þessu hefur nú verið breytt í þessari hv. d., eins og kunnugt er, og ég hélt, að málið væri úr sögunni hér. En nú koma menn upp aftur hér við síðustu umr. málsins, hæstv. dómsmrh. sem og hv. 1. landsk., og harma það, að þessi breyting skyldi vera gerð.

Ég er á því eins og fleiri, að ritningin sé okkar bezta bók, en nokkuð finnst mér það mikil bókstafsdýrkun að halda því fram, að það sé nauðsynlegt að hverfa aftur með skráningaraðferðir til þeirra tíma, sem hún segir frá. Ég held sem sagt, að sýslumönnum og bæjarfógetum úti um allt land sé vel treystandi til að gera þetta sómasamlega, eins og þeir hafa gert að undanförnu, og ég sé það á þeirri brtt., sem hv. allshn. leggur hér fram, að hún ætlast til, að settir verði yfirskoðarar á þeirra verk, náttúrlega hér í höfuðstaðnum, og held ég, að við það mætti bjargast.

Fleira var nú nýtt í þessu frv. og er enn þá. Það er talað um það af ýmsum, að skattar séu hér háir. Ekki hefur þeim, sem stóðu að þessu frv., þótt þeir um of, því að það var lagt til að leggja nýjan árlegan skatt á þá menn, sem þurfa að láta skrá sinn atvinnurekstur, frá 100–300 kr. á ári. Þetta eru ekki býsna miklar fjárhæðir á nútímamælikvarða, en nokkuð var það óljóst af frv., hverjir ættu nú að verða þeirrar náðar aðnjótandi að sleppa með 100 kr. og hverjir mundu hafa verið krafðir um 300, ef þetta væri í lög leitt. Mér þykir vænt um, að hv. n. leggur til, að þessi gr. verði niður felld, og ég vildi nú vænta þess, að við sjáum þetta frv. ekki aftur í þessari d. í sama formi og það var, þegar það kom frá hæstv. stjórn hingað fyrir deildina.