22.02.1954
Neðri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

3. mál, hlutafélög

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. d. hefur samþ. þær till., sem allshn. lagði fram við frv. þetta, að undanteknu einu atriði, þar sem d. hefur gengið gegn till. n., en það er, að vera skuli 7 menn hið fæsta sem stofnendur að hlutafélagi í stað fimm.

Ég tel nú þetta mjög illa farið af þeirri einföldu ástæðu, að hlutafélagsformið er hið handhægasta og kannske það eina form fyrir atvinnurekstri, sem nú er hægt að nota í þessu landi. Einstaklingsatvinnureksturinn er að gefast upp af þeirri einföldu ástæðu, að skattarnir ganga of nærri honum. Og þegar svo er búið að einstaklingsrekstrinum eða einstaklingunum, að þeir geta ekki haft neinn rekstur á hendi nema sem einyrkjar, ef svo mætti segja, þá fer að verða erfitt fyrir atvinnureksturinn í landinu að starfa, ef svo á að gera honum eins erfitt og hægt er með það form, sem hann neyðist til þess að hverfa í. Ég geri ráð fyrir því, að margir hv. þm. viti, að það er fjöldi manna, er fást við alls konar atvinnurekstur í þessu landi, sem vildi helzt hafa þann atvinnurekstur sem einstaklingsrekstur, en ekki í formi hlutafélaga, standa ábyrgur fyrir sínum rekstri og þurfa ekki að leita til annarra til þess að fá það form fyrir rekstrinum, sem hentar bezt. En af því, hversu skattarnir ganga nærri þessum mönnum, og ekki hefur fengizt breyting í þá átt að veita þeim slík hlunnindi, að þeir gætu rekið sína atvinnu, þá hafa þeir neyðzt til í mjög vaxandi mæli að fara inn í þetta form, sem löggjafinn hefur nú heimilað mönnum að hafa á atvinnu sinni. Þess vegna segi ég: Það á ekki að gera mönnum erfiðara en nauðsyn krefur að nota þetta form. Það er mesti misskilningur í sjálfu sér, að ákvæðið um 7 stofnendur hindri menn í að stofna fjölskylduhlutafélög, eins og það er kallað. Mönnum er innan handar að stofna félög með sinni fjölskyldu, jafnvel þó að þátttakendur eigi að vera sjö. En það á ekki að hindra menn í því að geta stofnað smáfélög með fjölskyldu sinni, ef þeim býður svo við að horfa. Og ef menn halda, að þeir geti gert hinum ríku erfitt fyrir að stofna félög með því að hafa sjö menn sem stofnendur, þá er það mjög mikill misskilningur. Þeir ríku geta stofnað sín félög, þó að það væru 20 menn, sem þeim væri sagt að hafa sem stofnendur í félaginu; þetta hindrar þá ekki á neinn hátt. Þetta hindrar aðeins eðlilegt form. Það er til t. d. í Englandi tvenns konar form fyrir hlutafélög. Það er form fyrir opinber hlutafélög, og það er form fyrir einkafélög, sem ætlazt er til að menn geti stofnað með fjölskyldu sinni. Hin félögin, sem allur almenningur tekur þátt í, eru háð öðrum reglum, sem við er að búast, því að þar þarf hið opinbera að vernda almenning, er leggur smáupphæðir í félögin til þess að fá hagnað eða vexti af fé sínu.

Hv. 3. landsk., sem er ritstjóri Alþýðublaðsins, hefur slegið því upp með stórri fyrirsögn í blaði sínu, að þetta sé mikill ósigur fyrir mig, að gengið var gegn till. n. og samþ. að hafa sjö menn í staðinn fyrir fimm. Þetta er mjög mikill misskilningur hjá hv. þm. Það er ekki ósigur fyrir mig, og það er ekki ósigur fyrir meiri hl, n., en það er ósigur fyrir heilbrigða skynsemi. En hv. þm. á stundum í höggi við þann andstæðing, og sem betur fer ber hann sjaldan sigur af hólmi í þeirra viðskiptum.

Síðan frv. fór til 2. umr., hefur komið erindi með till. um ýmsar breytingar á lögunum frá fjórum félagasamtökum; þ. e. frá Félagi ísl. iðnrekenda, frá Sambandi smásöluverzlana, frá Verzlunarráði Íslands og frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Ég vildi nú fara fram á við hæstv. forseta, að þessari umr. yrði frestað og n. fengi tíma til þess að athuga till., sem þessi félagasamtök hafa lagt fram, ef henni þætti eitthvað í þeim vera, sem nauðsynlegt þætti að taka inn í lögin, og fengi n. þá tækifæri til þess að bera fram um það brtt.