05.11.1953
Neðri deild: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2338)

91. mál, kristfjárjarðir

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru nokkrar jarðir hér á landi, sem hafa algerlega sérstöðu hvað snertir afstöðu þeirra yfirleitt til þjóðfélagsins og þeirra, sem á jörðunum búa. Það eru þessar svonefndu kristfjárjarðir eða aðrar jarðir í fátækraeign, jarðir, sem í fyrstu hafa verið gefnar af einhverjum góðum borgurum þjóðfélagsins fyrir mörg hundruð árum til framfærslu einhverra fátæklinga, stundum miðað við ákveðna menn í bili, og þannig hafa svo jarðirnar gengið áfram. Þótt hér sé ekki nema um nokkra tugi jarða að ræða í landinu, þá hefur þó að vissu leyti skapazt þjóðfélagslegt vandamál í sambandi við þessar jarðir. Það má ekki veðsetja þessar jarðir, og yfirleitt með þeirri aðstöðu, sem nú er í þjóðfélaginu, hefur oft farið svo, að það hefur verið ómögulegt að byggja þær upp og fá fé til umbóta og verið ýmiss konar vandræði í sambandi við þetta.

Þetta vandamál varð til þess, að árið 1950 var samþ. þál. á Alþ., þar sem ríkisstj. var falið að láta fara fram athugun á eignar- og umráðarétti yfir kristfjárjörðum og svipuðum jarðeignum hér á landi og gefa Alþingi skýrslu um niðurstöðu þeirrar athugunar eins fljótt og unnt væri. Það kom í hlut félmrn. að láta framkvæma þessa rannsókn. Gerði rn. það, og var gerð allýtarleg skýrsla um þessar jarðir eins og þær eru nú, hve margar þær eru og hvernig ástatt er með þær að öðru leyti. Jafnframt var svo samið yfirlit um sögulega þróun þessara mála frá fornu fari og til þessa tíma, og þessari skýrslu var útbýtt á Alþ. í fyrra.

En félmrn. hefur nú gert frv. varðandi þetta mál, og það er það frv., sem hér er fram borið á þskj. 134 og heitir frv. til l. um kristfjárjarðir og jarðir í fátækraeign. Með þessu frv. er heimilað í vissum tilfellum að selja þessar jarðir, þegar nauðsyn krefur að dómi rn. Þetta hefur verið gert í einstökum tilfellum áður, án þess að nokkur heimild væri til þess. Það hefur verið gert til þess að forðast, að þessar jarðir færu algerlega í eyði, sem þær annars hefðu gert. En með þessu frv., eins og það hér liggur fyrir, er ætlazt til, að þegar svo stendur á með einhverja af þessum jörðum, þá sé hægt á lögformlegan hátt að leyfa sölu á henni. Þó er þessu haldið innan eins þröngra takmarka og hægt er, vegna þess að það orkar nú nokkuð tvímælis, að hægt sé að breyta ráðstöfunum eins og þessum, sem gerðar hafa verið undir allt öðrum kringumstæðum, en hins vegar má náttúrlega ganga út frá því sem gefnu, að þeir ágætu og víðsýnu menn, sem á þeim tíma lögðu fram eigur sínar til þess að létta undir með fátækustu þegnum þjóðfélagsins, mundu að sjálfsögðu sætta sig við, að þessu yrði komið í hæfilegt horf, miðað við nútímaskipulag í þessum efnum. Það er af þessum ástæðum, sem Alþ. mun hafa óskað eftir skýrslu um þetta mál, af því að orðið var ljóst, að hér var um vandræðamál að ræða út af fyrir sig, sem þurfti að leysa í þessum tilfellum á einn eður annan hátt. Þess vegna taldi ég rétt, að á grundvelli þeirrar skýrslu, sem gerð var, væri leitað eftir því, hvort Alþ. vildi ekki fallast á nýja skipun þessara mála. Það er skrifstofustjóri félmrn., sem hefur samið þetta frv. Til öryggis hefur þetta verið borið undir Ólaf prófessor Lárusson, sem er allra manna kunnugastur þessum málum öllum, og eins og fram er tekið í grg. frv., þá fellst hann á það, að hér sé farið rétt að, eins og ástatt er um þetta, og er frv. borið fram í samráði við hann.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Málið liggur ljóst fyrir, það sem hér er um að ræða. Auk þess er allar upplýsingar að finna í þeirri skýrslu, sem útbýtt var hér á síðasta Alþ., varðandi þetta mál. Ég leyfi mér því að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. Það gæti náttúrlega nokkuð orkað tvímælis, til hvaða n. þetta ætti að fara. Væri þó ekki að ræða um annað en félmn. og landbn. Ég tel eðlilegra, að þetta fari til landbn., af því að hér er um meðferð á jörðum að ræða, og að því leyti er það hreint landbúnaðarmál, þó að þetta sé einnig félagsmál öðrum þræði, og ég leyfi mér því að gera það að minni till., að því verði vísað til landbn. að lokinni þessari umr.