26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

91. mál, kristfjárjarðir

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. allrækilega og auk þess grg., sem félmrn. gaf út 1952 um kristfjárjarðir og jarðir í fátækraeign. Samkvæmt þeirri grg., sem n. kynnti sér nokkuð, hefur þessum jörðum stöðugt verið að fækka og það alveg fram á síðasta ár. Það hefur borið við, að ein jörð hefur t. d. verið seld til þess að byggja upp á annarri, og þannig hefur farið um fleiri jarðir, að það sést í raun og veru lítið eftir. Er þess vegna full þörf að dómi nefndarinnar, að komið sé fastri skipun á umsjón og meðferð þessara jarða, enda er það höfuðtilgangur frv.

N. telur, eftir að hafa kynnt sér þessa grg. félmrn., að þá sé tæplega önnur leið fær en að samþ. þær eignabreytingar, sem orðið hafa, og jarðasölur fram til 31. des. 1952, eða eins og frv. gerir ráð fyrir, og getur þess vegna fallizt á 1. gr. eins og hún er í frv. En á hinn bóginn getur n. ekki fallizt á ýmis ákvæði 2. og 3. gr. frv. N. telur t. d., að það geti ekki komið til mála, að aðrir hafi á hendi umsjón með jörðum eða jarðeignum og ráðstöfun tekna af þeim en þeir, sem það er ætlað samkv. skipulagsskrá eða gjafabréfi, en þar sem hvorugt er fyrir hendi, þar sé það hreppurinn eða sýslan, sem á að njóta tekna af þessum eignum, sem taki við umsjón þeirra, enda hefur það verið svo í framkvæmd undanfarið. Enn fremur telur n., að of lauslega sé gengið frá ákvæðum um sölu þessara jarða og þar af leiðandi of lítil trygging fyrir því, að þær verði ekki seldar, oft kannske að lítið yfirlögðu ráði. Loks telur n., að það sé öruggara, að skýlaust liggi fyrir, hvaða jarðir það eru, sem falla undir þessi ákvæði, og hefur þess vegna, af því að hér var ekki nema um takmarkaða tölu jarða að ræða, tekið þær upp í nýja gr., svo að þar verði ekki um villzt eða þurfi um það að deila síðar, hvaða jarðir það eru, sem hér er átt við. N. hefur reynt eftir föngum að kippa því í lag, sem hún telur að á skorti í frv., og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hér liggja fyrir frá nefndinni.