26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2351)

91. mál, kristfjárjarðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir þeim brtt., sem hv. landbn. kemur með. Ég álít, að allar þessar brtt. leiði í rétta átt. Þó að ég, eins og ég hef minnzt áður á við umræðurnar, hefði gjarnan kosið, að það hefðu enn fremur verið lagðar sérstakar skyldur á herðar ríkisins í þeim efnum að taka að sér að tryggja veð í svona jörðum og annað slíkt, þá mun ég ekki bera fram brtt. við þessar brtt. landbn. Það er aðeins eitt atriði, sem ég álít að kæmi máske til mála að gera þarna brtt. um við þessa umr., og það er við sjálfa 1. gr. frv. Með henni er lýst yfir, að raunverulega samþykki Alþingi í eitt skipti fyrir öll þá sölu, sem fram hefur farið hingað til, og það er máske dálítið efasamt, hvort við eigum að gera það, hvort það sé ekki eins gott, að það verði að fara fram samþykkt á þeim sölum, sem fram hafa farið, að svo miklu leyti sem þær hafa verið gerðar í heimildarleysi, á sama hátt og lagt er til að farið sé að eftir 3. gr., eins og hún nú yrði orðuð, ef till. hv. landbn. verður samþ., að það þurfi raunverulega sérstök lagafrv. um sölu þeirra jarða. Ég verð að segja, að ég álít þó með beztu tryggingum, sem hægt sé að setja, einmitt þá breytingu, sem landbn. hér hefur sett, að það þurfi lagasamþykkt í hvert skipti.

Ég hef þess vegna nokkra tilhneigingu til að flytja þá brtt. hér við 1. gr., að hún sé felld niður, og vildi leyfa mér að leggja hana hér fram skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.