26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

91. mál, kristfjárjarðir

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þessari skriflegu brtt., sem nú er fram borin, vil ég enn taka, það fram að n. leggur til, að 1. gr. verði samþ. óbreytt, og styðst í því efni við það, að augljóst er af þeim gögnum, sem fyrir liggja, að ýmsar þessar eignabreytingar, sem hér er leitað staðfestingar á, eru orðnar harla gamlar og hafa verið viðurkenndar af opinberum aðilum bæði með stimplun skjala og þinglestri og auk þess átt sér stað margvíslegur tilflutningur, svo að það er í mörgum tilfellum, hygg ég, nærri ókleift að ætla að fara að rifta slíkum margra ára gerningum um jarðir, sem kannske hafa síðan gengið fleiri manna á milli. Ég tel tillöguna þess vegna alveg fráleita. Það er eingöngu út frá þessu sjónarmiði, sem stjórnarráðið eða landbrn. hefur lagt til og talið, að ekki væri um annað að gera en að staðfesta þessar ráðstafanir eins og komið væri. Þess vegna telur n. það vera óráð að fara að grauta upp í þessu og það geti aldrei orðið annað en til þess að skapa endalausa vafninga og hálfgerð vandræði, sem kannske bitna á þeim, sem sízt skyldi. En það mundi leiða af því, ef ætti að hafa þá aðferð, sem mér skildist að hv. 2. þm. Reykv. legði til, að leita yrði staðfestingar Alþingis á hverri einstakri sölu kristfjárjarða eða jarða í fátækraeign, sem fram hefur farið.