26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

91. mál, kristfjárjarðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér var ljóst, að það mundi ýmislegt af þessu vera orðið nokkuð gamalt. Og það, sem gerði, að ég flutti þessa brtt., var, að ég áleit, að það gæti verið varasamt fyrir okkur að vera að slá föstu samþykki okkar á þessu í heild. Það er rétt, að þetta hefur verið gert, ég býst við raunverulega í heimildarleysi, að selja þessar jarðir. En er nokkur ástæða fyrir Alþingi til þess að vera að slá því föstu eftir á, að allt þetta, sem gert hefur verið í heimildarleysi, sé hér með orðið löglegt?

Ég býst við, að það sé alveg rétt, eins og hv. frsm. landbn. sagði, að það væri mjög erfitt að fara nokkuð að grauta í þessu héðan af, enda hef ég ekki flutt neina till. um það. Svo framarlega sem einhverjir vildu fara að flytja till. um það, þá yrði að koma fram lagafrv. hér á þinginu um, að þessi og þessi jörð, sem seld hafi verið fyrir svona og svona mörgum árum, skuli hér með skoðast löglega seld o. s. frv. Það býst ég nú satt að segja við að fæstir færu að gera. Ég býst ekki við, að það yrði farið að rugla neitt í þessu. En einmitt út frá því sjónarmiði, að þetta hafi einu sinni verið gert í heimildarleysi, án þess að það verði farið að rífast nokkuð út af því hér eftir, þá kann ég næstum því ekki við að slá því föstu, að hér með skuli allt saman vera löglegt.

Ég fellst alveg á það, að þessi till. hefur ekki neina verulega praktíska þýðingu. Það er aðeins það prinsipiella í því að vera raunverulega ekki að viðurkenna eftir á, að það skuli allt vera löglegt, sem einu sinni var gert í lögleysu. Þess vegna legg ég ekki mikið upp úr þessu út af fyrir sig, þótt ég hafi komið hér með þessa till., því að ég álít, að þýðingarmesta breytingin, sem hv. landbn. hefur gert á þessu frv., sé sú, að það þurfi samþykki Alþingis héðan af til hverrar sölu.