03.12.1953
Neðri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

91. mál, kristfjárjarðir

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru hérna nokkrar brtt., sem landbn. flytur við frv. og ég vildi aðeins gera stutta grein fyrir. Í fyrsta lagi er það á þskj. 204. Fyrri brtt. þar hljóðar um það, að um þær jarðir, sem hafa verið í fátækraeign og hafa verið seldar áður en lög þessi öðluðust gildi, skuli sömu reglur gilda um meðferð þess fjár, sem inn fyrir þær kemur. Er þar gengið á móti óskum þm. Borgf., sem einmitt hreyfði því, að það vantaði ákvæði um þetta atriði. — Þá er hér lítils háttar breyting á 4. gr. Það er engin efnisbreyting, en aðeins orðalagsbreyting, sem er gerð til þess að færa þessa gr. til samræmis við 2. og 3. gr., eins og þær eru nú orðnar. Í frv., eins og það var upphaflega, og við það er 4. gr. orðuð, þá var svo til ætlazt, að það væru sveitarstjórnir einvörðungu, sem hefðu umráð og úthlutun fjárins. Með þeirri breytingu, sem hv. Nd. hefur gert á þessu, eru það einnig aðrir aðilar, og því þarf að breyta orðalagi gr. til samræmis við það. — Þá er á sama þskj. lagt til, að bætt sé inn í ákvæðum um að fella úr gildi lagaákvæði, sem kunna að fara í bága við ákvæði þessara laga.

Enn fremur hefur n. flutt hér brtt. á þskj. 217, sem er aðeins orðalagsbreyting og eingöngu til þess að færa upphaf 5. gr. til betra máls.

Loks er hér brtt. á þskj. 221, í tilefni af brtt. hv. þm. V-Húnv., fyrri lið. Þar leggur n. til, að á eftir orðunum „ábúðarlögum“ komi „eða á erfðaleigu“, en svo ekki frekar, og mér hefur skilizt, að hv. þm. V-Húnv. teldi sínum óskum fullnægt með því og mundi taka fyrri lið sinnar brtt. aftur.

Um síðari liðinn í brtt. hv. þm. V-Húnv. skal ég aðeins geta þess, að n. telur, að þessi brtt. sé óþörf, þar eð ákvæðin í 2. gr. segja alveg skýlaust, að jarðir skuli byggja, annaðhvort samkv. ábúðarlögum eða á erfðaleigu, og það sýnist því ekki ástæða til þess að taka það fram á nýjan leik, en getur á hinn bóginn valdið því, ef menn lesa 3. gr. með þeirri brtt., sem þm. V-Húnv. leggur til að sé sett inn, þá mætti skilja greinina út af fyrir sig þannig. að það mætti ekki bjóða jörð til sölu, ef það hefði tekizt að byggja hana fyrir hvað lítið sem væri. En það er eitt af því, sem fyrir n. — og ég hygg deildinni — vakti, að koma þessu í það horf, að tilgangi gefandans verði náð með því, að vextir af þeim höfuðstól, sem hann hefur lagt fram, svari til þess, sem hann ætlaðist til. En þó að hægt væri að byggja jörð — við skulum segja fyrir 50–100 kr. — þá er það vitanlega ekki til þess að ná tilgangi gefandans, ef hægt er með sölu að fá miklu hærri upphæð til frambúðar heldur en yrði með byggingu jarðarinnar. Það verður þess vegna að vera undir dómi þeirra, sem með þetta fara, og þá að lokum Alþingis, ef kæmi til sölu, hvort þarna væri rétt stefnt eða ekki.