09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2372)

163. mál, olíuflutningaskip

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Efni þess frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram, er það, að veitt verði ríkisábyrgð til kaupa á tveimur olíuflutningaskipum. Í fyrsta lagi sé gengið í 50 millj. kr. ábyrgð fyrir Samband ísl. samvinnufélaga og Olíufélagið h/f, sem ætli sér að kaupa sennilega 16–18 þús. tonna olíuflutningaskip, og í öðru lagi sams konar ríkisábyrgð, allt að 50 millj. kr., fyrir Eimskipafélag Íslands, Shell h/f og Olíuverzlun Íslands. Alls eru þessar ábyrgðir 100 millj. kr. Mundi með þessu hækka mjög upphæð þeirra ábyrgða, sem ríkissjóður á að standa straum af.

Nú er það upplýst í málinu, að það er langt síðan Samband ísl. samvinnufélaga fór að undirbúa það mál að kaupa stórt olíuflutningaskip og fór að leita heimilda hjá fjárhagsráði til þess að mega ráðast í slíkt fyrirtæki. Á því var einhvern veginn mikil tregða, og málið náði ekki fram að ganga, og er mér ekki grunlaust um, að aðallega hafi strandað á því, að aðrir aðilar hafi viljað fá sams konar aðstöðu, fá einnig heimild til að kaupa olíuflutningaskip til landsins, þó að vitað væri, að eitt slíkt skip gæti annað öllum olíuflutningum til landsmanna. Það hefur ekki verið hrakið, að eitt 18 þús. tonna skip getur farið 12 ferðir frá Íslandi og til hinna fjarlægustu hafna, sem olía hefur verið keypt til landsins frá, og gæti þannig flutt til landsins um 216 þús. tonn af olíu, en olíunotkun Íslendinga er nú um 150 þús. tonn, eða miklu minna en eitt olíuflutningaskip getur annað. Ef samningar takast svo við setuliðið, meðan það hefur dvöl hér í landinu, þá er olíunotkun þess nú um 50 þús. tonn og samtals olíunotkun landsmanna og herliðsins 200 þús. tonn, eða verulega innan við það, sem eitt 18 þús. tonna olíuflutningaskip annar, þó að það þurfi að annast flutningana frá hinum fjarlægustu höfnum. Það er því alveg sýnilegt, enda ekki mótmælt af hæstv. fjmrh., að eitt skip mundi rúmlega geta annazt alla þá olíuflutninga, sem þörf er á nú til landsins. Til þess að greiða fyrir kaupum slíks skips hefði ríkið ekki þurft að ganga í nema 50 millj. kr. ábyrgð, eða helming af því, sem hér er beðið um. En vegna þess reiptogs, sem er milli hagsmunaafla innan stjórnarflokkanna, þarf að hafa þetta tvöfalt, og það er það, sem hér er að gerast. Það eru enn á ný pólitískar hallamælingar milli stjórnarflokkanna til þess að vernda gróðaklíkurnar. Það er alveg greinilegt, og það skal gerast almennt á kostnað landsmanna.

Nú er sagt sem svo: Við gerum þetta til þess að taka í fyrsta lagi í hendur íslenzkra aðila alla olíuflutninga til landsins. Það eru allir sammála um að sé sjálfsögð ráðstöfun. En við stefnum hærra. Við ætlum að fara að flytja olíu fyrir aðrar þjóðir. Þess vegna höfum við skipin tvö.

Það er ekki að neinu leyti hugsjónalegs eðlis, að skipin eru tvö og beðið er um ríkisábyrgð vegna tveggja skipa, það eru allt aðrar ástæður. Það er það, sem ég er búinn að gera grein fyrir. En til þess að gefa hæstv. fjmrh., sem hefur nú mál fyrir þessum hugsjónamönnum, kost á því að skýra það nánar fyrir okkur, þá vil ég skýra frá því, að á olíuflutningaskipum annarra þjóða munu yfirleitt vera Kínverjar og Suður-Ameríkumenn, sem eru á mjög lágu kaupi, og við þessar skipshafnir yrðu íslenzku olíuflutningaskipin að geta keppt til þess að geta tekið upp olíuflutninga fyrir aðrar þjóðir. Er það grundvölluð skoðun hæstv. fjmrh., að það sé bezt að byrja á flutningastarfsemi fyrir aðrar þjóðir með því að taka einmitt að sér þessa flutninga, sem hér er um að ræða og eru framkvæmdir á þennan hátt, sem ég hef nú gert grein fyrir? Er það álitlegast, að íslenzka þjóðin nemi þarna land fyrst í að gerast siglingaþjóð fyrir aðra? Ég held, að það væri heppilegra að byrja á að taka upp vöruflutninga á einhverju öðru sviði en olíuflutningasviðinu, þar sem svona hagar til. — Nei, það er ráðizt í kaup tveggja olíuflutningaskipa, af því að Eimskipafélag Íslands, Shell og Olíuverzlun Íslands vilja ekki sætta sig við það, að Samband ísl. samvinnufélaga eignist skip, sem annist olíuflutninga fyrir þjóðina.

Tvö 18 þús. tonna olíuflutningaskip geta flutt til landsins 430 þús. tonn af olíu, þegar íslenzka þjóðin notaði aðeins 150 þús. tonn. Það er því talsvert meira en helmingur af olíumagninu, sem slík tvö skip geta flutt, er íslenzka þjóðin ætlar að taka að sér að flytja fyrir aðrar þjóðir í samkeppni við Kínverja og Suður-Ameríkumenn. Ég hefði talið, að það lægi eitthvað nær hæstv. ríkisstj. að sjá um, að íslenzkur sjávarútvegur, togararnir og vélbátaútvegurinn, fengi olíuflutningana og olíudreifinguna með raunverulegu kostnaðarverði sem ágóðalausa þjónustu við atvinnulífið, og það er ekki nokkur vafi á því, að ef hæstv. ríkisstj. leysti málið á þann veg, þá væri hægt að breyta þannig kjörum á íslenzku togurunum, að það væri hægt að manna þá með Íslendingum, og þá væri ekki komið svo, að það þyrfti að flytja inn útlendinga til þess að halda skipunum úti. Það væri verkefni fyrir hæstv. ríkisstj. Með því að taka þann gróða, sem hægt er að taka og réttmætt er að taka frá einstaklingum og einstaklingsfyrirtækjum í sambandi við dreifingu olíu, verzlun með olíu og flutninga á olíu til landsins, þá væri hægt að bæta kjörin svo, að Íslendingar fengjust til þess að stunda þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Íslenzka ríkið, sem kaupir nú inn olíurnar, ætti auðvitað að sjá um, að þjóðinni væri fært að flytja þær til landsins, og enn fremur gera þá breytingu á íslenzkum l., að dreifingarkerfið væri líka í höndum samlagsfélaga útgerðarinnar sjálfrar, þannig að þetta allt saman gæti orðið til þess að efla atvinnulífið í landinu með eðlilegum hætti. Ef ríkisstj. hefði í hyggju að byrja á þessu, þá hefði hún auðvitað átt að bera hér fram frv. um það, að íslenzka ríkið keypti eitt 18 þús. tonna olíuflutningaskip, sem svo annaðist þessa þjónustu ágóðalaust fyrir atvinnuvegina. En það er eitthvað annað en slíkt mál sé hér á ferðinni.

Það má vel vera, að það sé rétt, að þessi 100 millj. kr. ríkisábyrgð torveldi ekki hæstv. ríkisstj. að útvega fé til raforkumálaframkvæmdanna og til sementsverksmiðjunnar, en áreiðanlega verður þetta á engan hátt til þess að greiða fyrir því. Fyrr var þó lofað, að útvegun lánsfjár til sementsverksmiðju og raforkumálaframkvæmda skyldi ganga fyrir öllu öðru, og ég tek undir það, sem hér var áður sagt, að það væri mjög æskilegt að fá að vita, hvaða erfiðleikar það eru, sem hæstv. ríkisstj. stendur í, hvaða snurða það er, sem er hlaupin á þráðinn, eins og það hefur verið orðað, að ekkert virðist ganga eða reka um útvegun fjár til raforkuframkvæmda. Ég tek það líka sem góða og gilda vöru, að ríkið stofni sér kannske ekki í mikla áhættu með því að ganga í þessa ábyrgð, þar sem Samband ísl. samvinnufélaga, Olíufélagið h/f, Eimskipafélag Íslands, Shell h/f á Íslandi og Olíuverzlun Íslands eiga öll að standa í ábyrgð fyrir þessum 100 millj. Og af hverju er það ekki áhættusamt? Af því að þessir aðilar eru búnir að fá í skjóli aðstöðu sinnar að raka saman mörgum hundruðum millj. kr. á þeirri aðstöðu, sem þeir hafa haft í landinu, og er vitanlegt, að þau eiga að fá að maka krókinn áfram. Af því er það, að þetta er ekki áhættusamt. En það væri áreiðanlega miklu betri þjóðfélagsráðstöfun, að það væri tekið fyrir þessa gróðamöguleika og okkur Íslendingum gert fært að veita íslenzkri sjómannastétt þau kjör, að menn fengjust til þess að stunda íslenzkan sjávarútveg, því að það verður hvorki gróði af olíuverzlun né öðru hér á landi, ef sjávarútvegurinn fer í rúst.