09.03.1954
Neðri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

163. mál, olíuflutningaskip

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvort það mundi vera hægt að ganga frá kaupum á skipum strax, ef þetta frv. yrði samþ. og ábyrgðir veittar. Það liggur ekkert fyrir frá þeim, sem hér eiga hlut að máli, um það, að þeir geti gert þetta strax, heldur mundi verða undirbúningur að því, og mundi sá undirbúningur verða gerður í samráði við ríkisstj. — Þá spurði hv. þm., hve stór skip hér mundi verða hugsað til að fá. Það munu vera frá 15–18 þús. tonna skip, sem aðilar hafa í huga.

Allir hv. ræðumenn hafa talið sig fylgjandi því, að Íslendingar eignuðust olíuflutningaskip. Þó að einn af hv. ræðumönnum hafi talið, að það væri alveg nóg að eignast eitt skip og meira að segja hættulegt að eignast tvö, þá hafa þeir þó allir sagt, að þeir væru hlynntir því, að Íslendingar eignuðust olíuskip.

Tveir af hv. ræðumönnum, 8. þm. Reykv. og 3. landsk. þm. (HV), hafa lýst yfir þeirri skoðun sinni, að ríkið ætti að eignast olíuflutningaskip og reka það eða þau. En mér var ekki alveg ljóst, hvað hv. 2. þm. Reykv. (EOl) vildi í því sambandi, en þó var hann a. m. k. ekki ánægður með, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, yrðu eigendur að skipum og fengju ríkisábyrgð. Það kom glöggt fram af því, sem hann sagði. Ég er nú þeirrar skoðunar, að það mundi ekki vera heppilegt, að ríkið færi að kaupa og reka olíuflutningaskip, og tel heppilegra, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, gerist eigendur olíuskipa og reki þau. Ég vil út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um þetta efni, og raunar því, sem hinir hv. ræðumenn sögðu einnig, spyrja: Ef ríkinu er sleppt, hvaða aðilar standa þá nær því að hafa þennan rekstur með höndum en einmitt þeir, sem hér er gert ráð fyrir í frv.? Annars vegar er Samband ísl. samvinnufélaga og Olíufélagið h/f, sem starfar að verulegu leyti á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga. Þarna er um að ræða langstærstu almannasamtökin í landinu til þess að annast verzlun og siglingar, og ég segi það hiklaust, að engum treysti ég eins vel og þessum samtökum til þess að annast þennan þátt í viðskiptunum eins og aðra þætti. Á hinn bóginn er svo Eimskipafélag Íslands aðaldriffjöðrin með olíufélögin tvö með sér, en Eimskipafélag Íslands er það félag, sem hefur hér með höndum langmestan atvinnurekstur í þessari grein, siglingunum. Og ég vil benda þessum hv. þingmönnum á það, að hvað sem hægt er að segja um Eimskipafélagið, þá er það þó víst, að þeir, þessir hv. þm., hafa á undanförnum árum hvað eftir annað samþykkt skattfrelsi, sem er miklu stórkostlegri fríðindi til handa Eimskipafélaginu en ábyrgð fyrir olíuskipi. Hvernig er hægt að koma því heim og saman, að þeir á öðru leitinu hafa samþykkt skattfrelsi fyrir Eimskipafélagið til þess að annast siglingar almennt, en sýna því nú tortryggni, þegar stendur til, að Eimskipafélagið taki að sér að verða forustufélag í samtökum, sem ætla að eignast og reka olíuflutningaskip?

Þá sagði hv. 3. landsk. þm., að það væri meira en litið vafasamt að kaupa tvö skip og mundi geta farið illa með rekstur á þeim, vegna þess að þar þyrfti að, keppa við skip, sem væru mönnuð Kínverjum og Suður-Ameríkumönnum, því að þess háttar menn, sem hefðu lítið kaup, væru aðallega settir á olíuflutningaskip. Mundi því verða örðugt um vik að keppa við slíka flutninga. Ég held, að þetta sé nokkuð úr lausu lofti gripið hjá hv. þm., a. m. k. er ástæða til þess að benda á það í þessu sambandi, að Norðmenn hafa stóran tankskipaflota og hafa mjög lagt sig eftir því upp á síðkastið að eignast tankskip til þess að flytja olíur og benzín, ekki fyrir sjálfa sig fyrst og fremst, heldur fyrir aðra. Þar sem Norðmenn geta með árangri keppt við aðrar þjóðir í þessu tilliti, þá ættum við að geta það líka og verðum að geta það, ef við ætlum að verða siglingaþjóð, og það ætlum við okkur að verða, — siglingaþjóð í þeim skilningi að annast ekki aðeins siglingar fyrir okkur sjálfa, heldur einnig fyrir aðra.