09.03.1954
Efri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

165. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er venja, að árlega berst töluvert af umsóknum um ríkisborgararétt. Um það bil sem Alþ. kom saman í haust og fram eftir vetri hafði þó tiltölulega lítið borizt af slíkum umsóknum nýjum, en fjölgaði mjög þegar á leið, og hefur nú dómsmrn. athugað þær umsóknir, sem fyrir liggja, og valið úr þeim þá umsækjendur, sem hafa dvalizt hér á landi í tíu ár eða lengri tíma. Það er í samræmi við þá meginreglu, sem fylgt hefur verið um alllangt árabil, þótt frá henni séu töluverðar undantekningar. En við vitum, að í þessu eru auðvitað ákaflega mörg vafaatriði, og þess vegna er nauðsynlegt að fylgja einhverri reglu við samningu slíks frv., og þessi gamla regla var tekin til hliðsjónar við samningu frv. Aðrar umsóknir hygg ég að hafi verið sendar eða verði sendar til þeirrar n., sem þetta mál fær til athugunar, og ég tel, að ýmsar þeirra komi til greina, ef menn vilja víkja frá þeirri reglu, sem oft hefur verið fylgt, tíu ára reglunni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.