02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. það til l. um veitingu ríkisborgararéttar, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir þessa d. Í sambandi við þá athugun hafa einnig verið athugaðar yfir 50 umsóknir um ríkisborgararétt, sem borizt hafa, en ekki verið teknar upp af stjórninni í frv., sumpart vegna þess, hve seint þær bárust. Enn fremur bárust n. í fyrradag 11 umsóknir til viðbótar, sem ekki verður hægt að athuga til fullnustu fyrr en fyrir 3. umr.

Ég vil taka fram, að það er til mjög mikils baga. að umsóknir koma allt fram á síðustu stundu, og væri sennilega miklu réttara vegna vinnubragða í þinginu að taka alls ekki til greina aðrar umsóknir en þær, sem borizt hafa þegar þing er sett.

Í frv. ríkisstj. eru aðeins teknir upp 7 menn, og það þeir menn, sem hafa dvalizt á Íslandi í 10 ár eða lengri tíma. N. hefur verið að reyna að mynda sér einhverjar reglur, sem henni hefur þótt líklegt, að d. vildi fara eftir við veitingu ríkisborgararéttar nú, eftir að nýju l. um ríkisborgararétt eru komin í gildi. N. er sammála um að vilja taka upp sem aðalreglu þá sömu reglu sem stjórnin hefur fylgt við samningu frv., sem sé að krefjast þess, að menn hafi dvalizt hér á landi í 10 ár til þess að fá ríkisborgararétt. Frá þessari reglu finnst n. þó þurfa að gera nokkrar undantekningar, eins og gert var áður en nýju ríkisborgararéttarlögin gengu í gildi. N. álítur, að það eigi ekki frekar en áður var gert að krefjast svona langs tíma fyrir menn, sem fæddir eru og uppaldir hér á landi og af íslenzku foreldri, þótt þeir hafi farið til útlanda og misst ríkisborgararétt sinn á Íslandi, en komnir eru aftur. Aðallega gildir þetta um kvenfólk, sem missir ríkisborgararétt vegna giftingar og fer af landi burt, en kemur svo heim aftur, t. d. vegna hjónaskilnaðar, og ætlar sér að dveljast áfram hér á landinu.

Áður en l. frá 1952 um ríkisborgararétt gengu í gildi, fengu erlendar konur, sem giftust íslenzkum ríkisborgurum, íslenzkt ríkisfang við giftinguna. Nú er því þannig farið víða, að konur hafa sjálfstæðan ríkisborgararétt og missa því ekki sinn erlenda ríkisborgararétt, þótt þær giftist íslenzkum ríkisborgurum, og eftir nýju lögunum fá þær ekki lengur af sjálfu sér við giftinguna íslenzkan ríkisborgararétt. N. hefur þótt það of ströng regla að krefjast af þessum konum, að þær dveldust hér á landi í 10 ár til þess að geta fengið íslenzkt ríkisfang. Hins vegar áleit n. ekki rétt að veita þeim þegar í stað og athugasemdalaust íslenzkt ríkisfang, þótt þær giftust íslenzkum ríkisborgurum, heldur láta einhvern tíma líða, þannig að það sæist, að þeim væri alvara með hjónabandið, en það væri ekki stofnað í því skyni eingöngu að fá íslenzkt ríkisfang, eins og komið mun hafa fyrir. Í n. voru dálítið skiptar skoðanir um, hvort krefjast ætti 5 ára eða 3 ára dvalar hér á landi, áður en íslenzkt ríkisfang yrði veitt í svona tilfellum, en niðurstaðan varð sú að mæla með því, að íslenzkur ríkisborgararéttur væri veittur eftir 3 ára dvöl í landinu frá stofnun hjónabandsins. Það segir sig sjálft, að þar sem ríkisborgararéttur karla og kvenna er nú jafnt settur, þá verður að láta sömu reglur gilda um menn, sem kvæntir eru íslenzkum konum, sem hafa íslenzkan ríkisborgararétt, til þess að jafnræði verði þar á.

Þeir menn og konur, sem n. hefur lagt til að bætt verði inn í frv. stjórnarinnar og veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, falla allir undir þessar þrjár reglur, að undanskildu því, að einn mann vantaði 2 mánuði upp á að hafa verið hér 10 ár, en ekki þótti ástæða til þess að taka það svo stranglega.

Þá vil ég geta þess, að meðal þeirra umsókna, sem ekki fékkst meiri hluti fyrir í n. til að taka til greina, voru umsóknir frá 11 nunnum í Karmelsystraklaustrinu í Hafnarfirði. Áður fyrr hefur þingið látið það viðgangast að veita erlendum nunnum, sem komu hingað upp til þess að hjúkra sjúklingum, íslenzkan ríkisborgararétt, þó að þær hefðu verið styttri tíma en þann, sem venjulega var áskilinn. Ég fyrir mitt leyti vildi halda þessari reglu líka um systurnar í Hafnarfirði, þó að þær séu að vísu ekki hjúkrunarnunnur, en fyrir því fékkst ekki meiri hluti í n. Ef brtt. kemur fram hér í d. um, að þeim verði einnig veittur ríkisborgararéttur, mun ég greiða atkvæði með því.

Eins og ég gat um áðan, hafa borizt 11 nýjar umsóknir, sem verða teknar til athugunar fyrir 3. umr.

Í tilefni af brtt. hv. þm. V-Sk. á þskj. 614 vil ég geta þess, að báðar þær konur, sem þar er um að ræða, giftust árið 1953, þannig að ef d. ákveður að veita þeim ríkisborgararétt, þá verður auðvitað að bæta við öðrum 9 konum, sem við tókum út úr, vegna þess að þær höfðu ekki verið í hjónabandi í 3 ár.