02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

165. mál, ríkisborgararéttur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég tók ekki eftir, hvort hv. þm. V-Sk. sagði, að þessar tvær konur, sem hann minntist á, í Hörgsdal, hefðu komið á svipuðum tíma til landsins (JK: Á sama tíma báðar.) Þrátt fyrir það, þó að hæstv. ráðh. og n. hafi að forminu til talsvert til síns máls í þessu, kannske mikið, þá er það nú svo, að ég verð nú að láta í ljós þá skoðun, að hv. þm. V-Sk. hefur anzi þungt lóð á metunum, þar sem þessar konur hafa komið hingað til lands að opinberri tilhlutun, vegna þess að hér á landi var svo sár skortur á verkafólki, fólki, sem vildi vinna, og þá ekki sízt í sveitunum. Mér finnst nú satt að segja, að þetta tali talsvert með því, að hæstv. ríkisstj. og n., sem um þetta fjallar, líti á þessar brtt. velvildaraugum, því að í raun og veru ætti frá því sjónarmiði, sem við höfum í atvinnumálum í þessu landi, tæplega nokkur hlutur að teljast meira til verðleika í því fyrir útlending að fá hér ríkisborgararétt heldur en að vera ráðinn hingað að tilhlutun hins opinbera í fyrsta lagi og einmitt taka sér bólfestu í sveitum landsins, þar sem einatt er skortur á fólki, sem vill binda sig við þau störf, og betur geta þessar konur ekki bundið sig við störfin heldur en að kvænast inn á íslenzkt heimili og vinna, eftir því sem hv. þm. V-Sk. upplýsti, sómasamlega og vel að uppbyggingu íslenzkra sveitaheimila. Ég verð að segja, að það er í mínum augum talsvert mikill munur á svona umsókn, sem kemur frá slíkum konum eins og hér liggur fyrir, búnum að starfa og vinna hér í 5 ár og eru giftar inn í landið íslenzkum mönnum, eiga kannske börn, sem ekki greinir um, en skiptir ekki hér verulegu máli, en þær sem sagt byggja upp íslenzkt heimili, eða hins vegar umsóknum frá því fólki, sem kemur hingað upp á ýmiss konar býti, ef til vill oftast nær af sjálfsdáðum, og starfar að því, sem því þykir bezt, oft og tíðum að verzlun og viðskiptum og þess háttar, og sækir svo og knýr fram að fá ríkisborgararétt á sínum tíma. Þær slógu mig dálítið einkennilega þessar upplýsingar, sem hv. þm. gaf. Hann nefndi tvær húsfreyjur þarna, báðar fæddar í Þýzkalandi, sem höfðu komið til landsins um svipað leyti, en ég tók eftir, að hann segði, að önnur þeirra væri búin að fá ríkisborgararétt, var það ekki rétt? En aftur á móti hangir það á þræði og meira en það, hvort starfssystir hennar, sem líka er húsfreyja og búin að vera jafnlengi í landinu og er gift íslenzkum manni, geti fengið hann. A. m. k. er eðlilegt, að þessu fólki finnist, að hér sé réttlætinu. ekki beitt á sama hátt í báðum tilfellum.

Skal ég ekki segja meira um þetta. Ég ætla ekki að gera þetta að neinu kappsmáli, en ég vildi bara — eftir að hafa heyrt röksemdir hv. þm. V-Sk. — láta í ljós þetta, af ef nokkurt fólk á skilið að fá ríkisborgararétt í landinu, þá er það ekki hvað sízt það fólk, sem kemur hingað og sezt að í sveitum landsins fyrir fullt og allt til þess að lifa í þessu landi og starfa.