12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

165. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fjórum hv. þm. að flytja hér brtt. í sambandi við frv. um ríkisborgararéttinn, og ég ætla, að hv. allshn. hafi ekki haft tíma til þess að athuga þessa till. vegna þess, hversu seint hún er fram komin. Hún var prentuð í morgun og útbýtt á fundinum í dag, og ég geri ekki ráð fyrir, að hv. n. hafi athugað þessa till., og dreg ég það af tveimur ástæðum, bæði af því, hversu tíminn hefur verið naumur, og eins vegna þess, að ég hygg, að hefði hv. n. athugað þessa umsækjendur hér og skjöl þeirra, þá hefði hún mælt með þeim.

Hér er um tvær konur að ræða, sem eru giftar íslenzkum mönnum. Önnur heitir Körner. Anneliese, og er gift Ólafi Þorkelssyni bifvélavirkja á Hellu á Rangárvöllum. Þau hafa búið saman í fjögur ár og eiga tvö börn, en að vísu munu ekki vera nema tvö ár síðan þau giftust. Ég sé ekki, að það sé ástæða til að neita um ríkisborgararétt konu þessari, sem hefur dvalið hér á landi 5–6 ár, búið með íslenzkum manni í 4 ár, verið gift þeim sama manni í 2 ár og hefur eignazt með honum tvö börn. Hv. frsm. allshn. lýsti því hér áðan, að n. hefði tekið upp aðila, sem væru giftir fyrir þremur árum. Ég ætla, að bæði hv. frsm. og aðrir hv. allshn.-menn séu það sanngjarnir að vilja mæla með þessari konu ekki síður en öðrum, sem þeir hafa tekið upp.

Þá er það önnur kona, frú Martha Emma Johanna húsfrú að Neðra-Seli í Landmannahreppi. Hún er að vísu nýgift, giftist á s. l. sumri Guðmundi Loftssyni bónda í Neðra-Seli, en hún hefur verið í Neðra-Seli bústýra í þrjú eða fjögur ár, og má þess vegna ætla, að henni hafi líkað vel í Neðra-Seli, úr því að hún giftist bóndanum þar eftir að hafa verið þar í langan tíma, og þess vegna lítil ástæða til þess að ætla, að hún strjúki. En það virðist vera forsendan fyrir því að neita útlendum konum, sem giftar eru íslenzkum mönnum, um ríkisborgararétt, sú hættan, að þær staðfestist hér ekki, enda þótt þær séu giftar. Þessi hjón eiga eitt barn, og ég hef þann kunnugleika af þessum hjónum, að mér þykir ákaflega ólíklegt, að konan dvelji ekki hér á landi, það sem hún á eftir að lifa.

Ég vænti þess, að þessar tvær ágætu frúr verði nú teknar í tölu íslenzkra ríkisborgara. Mér finnst annað alveg ósæmandi. Þær eru mæður íslenzkra barna og hafa setzt hér að, og mér virðist þær skipa húsfreyjustöðuna með ágætum. Finnst mér alls ekki sæmandi, að þeim verði neitað um þessi réttindi.